„Þegar piparkökur bakast, kökugerðarmaður tekur …“ Svona byrjar líklega ein frægasta mataruppskriftin hér á landi og víðar, það er auðvitað piparkökusöngurinn í Dýrunum í Hálsaskógi, hinu sígilda leikverki Norðmannsins Thorbjörns Egner.

 

Við piparkökubaksturinn lærir Bakaradrengurinn mikilvæga lexíu — að hlusta vel á fyrirmæli lærimeistara síns, Hérastubb bakara, því eins og allir vita gerði Bakaradrengurinn fyrst þau leiðu mistök að nota kíló af pipar í piparkökudeigið, en ekki teskeið eins og Hérastubbur hafði mælt fyrir.

 

En hvernig er öll uppskriftin að piparkökum Hérastubbs, og er hægt að baka piparkökur með henni í alvöru?

 

Uppskriftin er sú sama bæði í norskum upprunatextanum sem og í íslenskri þýðingu Kristjáns frá Djúpalæk, eða svona:

 

1 kg margarín (smjörlíki)

1 kg sykur

1 kg hveiti

8 eggjarauður

1 tsk pipar

 

Leiðbeiningar: Hrærið yfir eldi smjörið. Það næsta sem hann gjörir er að hræra kíló sykur. Þegar öllu þessu er lokið hellast átta eggjarauður saman við, og kíló hveiti hrærist ofan í pottinn vel. Síðan á að setja í þetta aðeins bara teskeið pipar. Svo er þá að hnoða deigið breiða það svo út á fjöl.

 

Vídjó

 

Langar einhvern að prófa þessa uppskrift í piparkökubakstri jólanna? Við þurfum það ekki því Ann Britt Årli, bakari hjá Presteruds Bakeri & Konditori í Flekkefjord í Vestur-Ögðum í Noregi fórnaði sér fyrir okkur.

 

Hún bakaði piparkökur Hérastubbs fyrir norska ríkisútvarpið NRK um síðustu jól og passaði sig á því að láta teskeiðina af pipar nægja.

 

Til samanburðar bakaði hún einnig vanalegu piparkökuuppskrift bakarísins í Flekkefjord. Hér má sjá afraksturinn, deigið à la Hérastubbur er til vinstri:

 

yiMWvE30Y6bW244rkfKEQwowK3cI2adSfXr9Djx-NvlQ

 

Bakarinn Årli var skeptísk frá byrjun. „Þetta verða ekki almennilegar piparkökur,“ sagði hún við NRK, og sagði að lokum að deigið smakkaðist ekki sérlega vel. „Það þarf meira til þess að fá bragðið. Meðal annars sýróp, kanil, engifer og negul.“

 

„Það er heldur enginn matarsódi í piparkökum Hérastubbs, og því hefast deigið ekki,“ segir Årli.

 

En hér er svo lokaafraksturinn eftir heimsókn í bakaraofninn, Hérastubbur til vinstri:

 

B7gPO47WCfJ6yP-V8c8yEwHdSaeh8H3WWNuNmV_uuoQA