Bandaríski leikstjórinn Darren Aronofsky er nú staddur á Íslandi við að taka upp hluta af kvikmynd sinni um Nóa, sem byggð er á frásögn Mósebókar. Þar segir frá því þegar Guð fyllist andúð á mannkyninu, sem hann hefur þó sjálfur skapað, og ákveður að drekkja því með steypiflóði af himnum ofan. Hlutverk Nóa leikur Russell Crowe eins og allir ættu að vera búnir að komast á snoðir um, eftir stöðugar fréttir fjölmiðla af hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur á Íslandi.

 

Mikil leynd hvílir alla jafna yfir gerð Hollywood-mynda af þeirri stærðargráðu sem Nói verður, og yfirleitt er til dæmis stranglega bannað að birta myndir frá tökustöðum, eða gera nokkuð sem gefur til kynna hvernig endanlegt yfirbragð stórmyndanna verður – fyrr en þá að kvikmyndafyrirtækin sjálf eru tilbúin með sína „trailera“. Í þessu tilfelli ber hins vegar nýrra við, því leikstjórinn Aronofsky sendi á síðasta ári frá sér teiknimyndasögu, sem kvikmyndin er síðan byggð á.

 

Aronofsky skrifaði textann ásamt Ari nokkrum Handel en Nico Henrichon teiknaði myndirnar með leiðsögn Aronskys. Því má ætla að teiknimyndasagan gefi mjög góða hugmynd um það hvernig bíómyndin sem nú er verið að taka upp í Fljótshlíðinni muni líta út.

 

Þetta er „trailer“ fyrir fyrsta bindi sögunnar um Nóa sem kom út á frönsku í október á síðasta ári.

 

Vídjó

 

Söguþræði þessa fyrsta bindis er lýst svo:

 

„Veröld án vonar, veröld án regns og uppskeru, þar sem stríðsherrar ríktu yfir villimannskríl. Í þessum grimma heimi var Nói góður maður. Hann var þrautþjálfaður bardagamaður, töframaður og græðari en vildi bara frið fyrir sig og fjölskyldu sína. En á hverri nóttu helltust yfir Nóa draumar um ógurlegt flóð sem drekkti öllu lífi. Loks fór hann að átta sig á skilaboðunum sem skaparinn sendi honum. Hann hafði ákveðið að refsa mönnunum og útrýma þeim gjörsamlega. En hann gaf Nóa eitt tækifæri til að bjarga lífinu á jörðinni …“

 

Hér eru myndir úr teiknimyndasögunni. Ef þessi sena verður tekin upp í Fljótshlíðinni, þar sem kvikmyndagengi Aronofskys er núna, er vart hægt að segja að fögur sé hlíðin …