Að fara með farangurinn sinn í gegnum tollhlið er leiðinlegur en oft nauðsynlegur hluti af ferðalögum til útlanda. En hvernig er með ferðalög til annara pláneta? Þegar Neil Armstrong, Buzz Aldrin og Michael Collins snéru aftur til Jarðar úr fyrstu för mannkynsins til Tunglsins þurftu þeir að fara í gegnum tollinn eins og aðrir sem koma til Bandaríkjanna. Tunglfararnir þrír fylltu út og undirrituðu þessa tollskýrslu þegar þeir lentu á Jörðinni þann 24. júlí árið 1969.

 

Skýrslan er stimpluð af tollstjóranum á Honolulu-flugvelli og samkvæmt skýrslunni eru þremenningarnir að koma frá Cape Kennedy í Flórída eftir millilendingu á Tunglinu. Tollskyldur varningur: tunglryk, tunglgrýti og sýnishorn.


Eyðublaðið er auðvitað skrifað að mestu í gamni. Geimflaug þeirra, Apollo 11, lenti ekki á flugvellinum í Honolulu við komuna til jarðar heldur úti á Kyrrahafi, rúma 1500 km suðvestur af Hawaii-eyjum. Þeirra beið herskip sem flutti þá á fast land, en ferðin var löng og þeir voru ekki komnir til Hawaii fyrr en 27. júlí.