„Þau hjónin, Sveinn M. Sveinsson og kona hans, Soffía, dóttir Haralds heitins Níelssonar, voru nýlega á ferð á Englandi, og komu þau við í Crewe, en þar er maður, Hope að nafni, er fengist hefur við það í mörg ár að taka svonefndar sálrænar myndir.

 

Þegar fólk lætur Hope taka myndir af sér, er fyrst haldin eins konar guðsþjónusta. Þegar plöturnar eru framkallaðar, koma svo oft ýmsar aukamyndir fram á þeim. Telja margir sig hafa þekkt látna ástvini sína á myndum þessum.

 

Hjónin létu Hope taka mynd af sér, og þegar þau fengu myndina, kom í ljós, að á bak við þau var mynd af Haraldi Níelssyni. Þykjast þau fullviss um, að myndasmiðurinn hafi ekki vitað nein deili á þeim, og þess vegna hafi hann ekki getað haft nein brögð í tafli.“

 

Hér lýkur frásögn í bókinni Öldinni okkar um þá stórundarlegu ljósmynd sem við sjáum hér að ofan. Árið var 1928 og séra Haraldur Níelsson, prófessor í guðfræði og rektor Háskóla Íslands, var nýlátinn. Séra Haraldur var ekki við eina fjölina felldur og stundaði meðfram hefðbundnum biblíufræðum sálarrannsóknir ásamt nokkuð stórum hópi spíritista á Íslandi. Og nú virtist sál hans lifa góðu eftirlífi.

 

 

„Smátt og smátt hverfa hleypidómarnir“

Séra Haraldur skrifaði árið 1926 langa grein í tímaritið Eimreiðina um miðilstækni sem hann var mjög trúaður á og kallaði „sálrænar ljósmyndir“: „Sálrænu fyrirbrigðin, sem fjöldi manna fæst við að rannsaka nú á tímum, hafa á vora tungu venjulegast verið nefnd dularfull fyrirbrigði.

 

Eitt furðulegasta fyrirbrigðið þeirrar tegundar er það, að einhver „aukamynd“ kemur á ljósmyndaplötu í návist sumra miðla.

 

Þessi „aukamynd“ getur verið með margvíslegri gerð. Hún er stundum ekki annað en blettur, stundum eins konar ský, stundum fíngerð slæða, stundum orð eða setningar, en stundum líka mannsandlit (karlmanns, konu eða barns).“

 

Séra Haraldur Níelsson (1868-1928). Hann var dómkirkjuprestur, prófessor í guðfræðideild og rektor Háskóla Íslands 1916-17 og 1927-28. Mikilvirkur félagsmaður Sálarrannsóknarfélags Íslands. Skrifaði greinar í blöð og hélt fyrirlestra um spíritisma.

Efasemdarmenn víða um heim höfðu gagnrýnt ljósmyndamiðlana og bent á að ekki væri mikið stórmál að falsa ljósmyndir, ef réttu tækin væru við hendi.

 

En séra Haraldur kallaði gagnrýnina „heimsku og hleypidóma“ og endaði grein sína um hina sálrænu ljósmyndun með þessum orðum: „Smátt og smátt hverfa hleypidómarnir, og öll heimska fellur að lokum úr hor. Þekkingunni fer fram, þótt hægt gangi. Lífið er framstigult, og enginn fær stöðvað framrás þess til lengdar.“

 

Séra Haraldur Níelsson lést í mars árið 1928 tæpum tveimur árum eftir að grein hans birtist. Og það var í nóvember það ár sem dóttir hans og maður hennar ferðuðust til Englands og hittu þar William Hope, eins og sagt er frá í upphafi greinarinnar.

 

Rithöfundurinn Einar H. Kvaran var einn af forvígismönnum spíritismans á Íslandi og hafði verið náinn samstarfsmaður séra Haralds. Hann sendi öllum blöðum Íslands einskonar fréttatilkynningu í nóvember 1928 líkt og um frétt aldarinnar væri að ræða. Hér er sú sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins:

 

Sálræna myndin

af síra Haraldi Níelssyni.

 

Jeg veit ekki, þegar jeg rita þetta, hvernig Morgunblaðinu tekst að sýna þessa mynd á prentpappír. Jeg vona, að það takist eftir atvikum vel, því að mjer er kunnugt um að mikil stund hefir verið á það lögð að gera það af vandvirkni. Hvernig sem þetta kann nú að takast, þá er óhætt að fullyrða að enginn, sem sjeð hefir ljósmyndina og þekt hefir síra Harald, hefir verið í neinum vafa um það, að af honum ætti myndin að vera.[…]

 

Maðurinn, sem myndina tók, heitir William Hope, og á heima í Crewe á Englandi. Hann hefir ekki algengar ljósmyndanir að atvinnu heldur er hann fátækur verkamaður. Myndirnar selur hann svo ódýrt, að margir munu bæta einhverju við gjaldið. Nú er eftirspurnin eftir myndum hans orðin svo mikil, að jeg hygg, að mestur tími hans fari í það að fullnægja henni.[…]

 

Sálræna myndin af síra Haraldi Níelssyni. Grein Einars H. Kvaran í Lesbók Morgunblaðsins í nóvember 1928.

Mr. Hope hefir orðið fyrir miklum rengingum og árásum. Sumpart er það vegna þeirrar mótspyrnu, sem sumir menn hafa haldið uppi gegn sálarrannsóknunum. Sumpart stafar þetta af því, hve ótrúlegt mönnum hefir þótt, að slíkar myndir fáist sem þær, er Mr. Hope tekur.

 

Þegar þau hjónin, Sveinn M. Sveinsson framkvæmdarstjóri og frú Soffía, komu til Mr. Hopes og og þegar myndin var tekin, hafði hann enga hugmynd um, hver þau væru. Þau höfðu ekki beðið um það sjálf að mega koma til hans, heldur var beðið um það frá skrifstofu fjelagsins London Spiritualist Alliance, þau ekki nefnd og engin vitneskja um þau gefin.

 

Mr. Hope hjelt helst, að þau væru frá Austurríki; honum fanst þau tala líkt og gestir, sem komið hefðu nýlega til hans þaðan. Þau horfðu á meðan myndin var tekin, og eins meðan hún var framkölluð. Að því loknu þektu þau tafarlaust, að mynd af sjera Haraldi var á plötunni og þau sáu líka þar þær aukamyndir, sem ekki er unt að láta koma fram á prentpappírnum.

 

Því til sönnunar, að þau hafi þegar þekt myndina á plötunni, er það að þau gátu um það í brjefi, sem þau skrifuðu frá Englandi til Kaupmannahafnar. Sömuleiðis sögðu þau bæði mjer og öðrum frá því, þegar þau komu heim og áður en þau höfðu fengið myndina senda frá Mr. Hope. Þau eru þess fullvís, að myndin, sem þau fengu, sé rjett og óbreytt prentun eftir myndinni, sem þau sáu á plötunni.

 

Einar H. Kvaran (1859-1938). Afkastamikill rithöfundur, ritstjóri og leikskáld. Árið 1923 kvisaðist út að hann væri líklegur til að hljóta Nóbelsverðlaunin, en hann varð þess heiðurs aldrei aðnjótandi. Hann var fyrsti forseti Sálarrannsóknarfélags Íslands og gegndi því starfi til dauðadags.

Þessa er getið til þess að girða fyrir þann hugsanlega misskilning, að Mr. Hope hafi breytt myndinni eftir að þau fóru frá honum. En jafnframt er þess að gæta, að þó að ekki gæti leikið neinn vafi á því, að þessi mynd sje af síra Haraldi, þá er hún verulega ólík öllum þeim myndum, sem af honum hafa verið teknar. Þetta hefi jeg vandlega athugað. Þó að þessi hæfileiki, sem kemur fram hjá Mr. Hope sje sjaldgæfur, og þó að hann sje nafnkendastur slíkra manna í Norðurálfunni, þá er hann svo sem ekki einsdæmi.

 

Hæfileikans varð fyrst vart skömmu eftir 1860, og altaf síðan hafa verið einhverjir menn, sem hafa fengið slíkar myndir á ljósmyndaplötur. Stundum þekkjast þær og stundum ekki. Jeg hefi heyrt þá tilgátu, að þessar myndir komi fram við sterka hugsun þeirra, sem sitja fyrir ljósmyndavjelinni. Sú tilgáta er á engu bygð.

 

Margsinnis hafa komið myndir, sem þeir, er fyrir sátu, könnuðust ekkert við, myndir, sem menn hafa þekt eftir á. Þeir, sem mesta reynslu hafa í þessum efnum, fullyrða, að skilyrðin sjeu best, þegar þeir, sem sitja fyrir, sjeu ekki að hugsa um neinn sjerstakan.

 

Einar H. Kvaran.

 

 

Ekki fór miklum sögum af þessari dularfullu mynd af draugi gamla íslenska prestsins í framhaldi af þessari grein Einars H. Kvaran, þó eflaust hafi hún verið rædd fram og til baka.

 

 

Allt saman brellur og svindl

En það er skemmst frá því að segja að ljósmyndarinn William Hope var mjög víða uppljóstraður sem svindlari, bæði fyrir og eftir að séra Haraldur átti að hafa birst á mynd eftir hann. Nokkrar rannsóknir voru gerðar á störfum hans og þótti um og eftir 1930 fullsannað að Hope skeytti með tiltölulega einföldum hætti ólíkum ljósmyndum saman með glerplötum. Hann lést svo árið 1933.

 

Frægasti bandamaður ljósmyndarans í orrahríðinni var Arthur Conan Doyle, höfundur Sherlock Holmes, sem var mikill stuðningsmaður sálarrannsókna. En smám saman fækkaði í hópi þeirra er trúði á ljósmyndamiðla.

 

Tíminn rifjaði upp söguna af myndinni af draugi séra Haralds Níelssonar árið 1983 og taldi undrun sæta hversu auðtrúa Íslendingarnir voru í þessu máli:

 

„Nú er næsta auðvelt að skýra hvernig mynd af Haraldi Níelssyni komst í hendur Hopes. Frá því er greint í Ágripi af sögu sálarrannsóknanna og spírítismans eftir séra Jón Auðuns að Haraldur hafi haft kynni af „ljósmyndamiðli“ á Englandi og látið hann taka af sér mynd.

 

Væntanlega hefur það verið Hope í Crewe, en annars var samband á milli „ljósmyndamiðlanna“. Sá sem tók myndina af Haraldi Níelssyni vissi auðvitað að þar var á ferð leiðtogi andatrúarmanna á Íslandi, og þegar svo nokkrum mánuðum eftir að Haraldur var látinn, að tvo Íslendinga bar að garði í Crewe þurfti ljósmyndarinn ekki einu sinni að spyrja þá til nafns til þess að láta sér detta í hug að setja mynd af Haraldi inn á myndina sem hann tók af þeim.

 

Það sem er forvitnilegast er hins vegar að prettir af þessu tagi skuli vera svo auðveldir sem raun ber vitni, og maður sem hefur verið staðinn að verki við svindl skuli komast upp með að halda iðju sinni áfram óáreittur. Að menntafólk, eins og Íslendingarnir tveir, skuli láta blekkjast er enn eitt undrunarefnið. Trúgirni mannfólksins virðast litil takmörk sett.“

 

 

Frábærar ljósmyndir

Við endum þessa grein á röð ljósmynda eftir William Hope. Þær eru allar teknar úr albúmi sem fannst í fornbókabúð í Lancashire á Englandi og eru geymdar í National Media Museum í London. Þó ljóst sé að Hope hafi ekki myndað neina alvöru drauga eru þetta ákaflega furðulegar og áhugaverðar ljósmyndir.