Börn framan við hús Ó. Johnson og Kaaber í Hafnarstræti, 17. júní 1928. Hér sjáum við svipmyndir af hversdagslífinu í Reykjavík um 1930. Til dæmis bakarí, hárgreiðslustofur, frystihús og sauðfé.
Ljósmyndarinn Magnús Ólafsson (1862-1937) er góðkunningi á síðum Lemúrsins. Það er ekki síst vegna magnaðra mynda sem hann tók af Reykjavík á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar en þær eru varðveittar hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Magnús varð smátt og smátt einn merkasti myndasmiður landsins og tók ómetanlegar ljósmyndir.
Magnús lést árið 1937. Myndirnar sem við sjáum hér eru því frá seinni helmingi ævinnar þegar ljósmyndarinn var orðinn roskinn og þaulreyndur á sínu sviði.
Höfuðborgin hefur breyst hratt frá fyrstu árum aldarinnar þegar Magnús tók fyrstu skrefin í ljósmyndun. Reykjavík er ekki lengur sama agnarlitla þorpið.
Lesið minningarorð um Magnúsar Ólafsson sem birtust í Morgunblaðinu árið 1937.
Lemúrinn hefur margsinnis birt myndir eftir Magnús. Hér eru til dæmis myndasöfn Magnúsar:
Fólk í Reykjavík fyrir hundrað árum
Ísland framandi land: Fortíðin á aldargömlum ljósmyndum Magnúsar Ólafssonar
Andlit fortíðarinnar: Ísland fyrir hundrað árum með augum Magnúsar Ólafssonar
Stórmerkilegur myndabanki Magnúsar Ólafssonar er geymdur hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Safnið er eitt fjölmargra stofnana í heiminum sem hlaðið hefur inn merkilegum gömlum ljósmyndum hjá Commons-verkefninu hjá vefsíðunni Flickr.
Það er mikilvægt að söfn miðli gersemunum sem þau geyma og Lemúrinn fagnar í hvert skipti sem Ljósmyndasafn Reykjavíkur hleður inn myndum á netið fyrir almenning. Við minnum einnig á annað bráðskemmtilegt verkefni sama safns á netinu, Ljósmynd vikunnar.
Við hvetjum öll söfn og stofnanir landsins sem geyma ljósmyndir sem hafa sögulegt og menningarlegt gildi að gera þær aðgengilegar á stafrænu formi. Landmælingar Íslands er dæmi um opinbera stofnun sem nýlega fór þá leið.