Hér sjáum við stúlkur á sjóskíðum í skemmtigarðinum Cypress Gardens í Flórídafylki í Bandaríkjunum árið 1957. Íþróttin var mikið stunduð af fólki af öllum aldri í skemmtigarðinum en hann markaði upphafið að sumarleyfis- og frístundaiðnaði fylkisins.

 

Sjötti áratugurinn var áhugaverður tími í Bandaríkjunum og heiminum öllum. Þegar þessar myndir voru teknar var rúmur áratugur liðinn frá hinni ömurlegu síðari heimsstyrjöld. Bjartsýni ríkti, vísindaafrek voru í algleymingi, mannkynið sendi eldflaugar út í geiminn og margir vonuðu að bjartari tímar væru framundan. En á sama tíma var kalda stríðið að taka á sig skelfilega mynd og stórveldin framleiddu óhugnanlegt magn af gereyðingarvopnum.

 

Albert Einstein, sem lést í Bandaríkjunum árið 1955, reyndi að vekja athygli á þessari hættulegu stöðu. Bandarískur maður hafði misst ungan son sinn og bað Einstein um að skrifa sér nokkur uppörvandi orð. Þetta var það sem eðlisfræðingurinn sendi honum:

 

„Mannvera er hluti af heildinni, sem við köllum „alheiminn“, hluti sem afmarkast af tíma og rúmi. Hún upplifir sjálfa sig, hugsanir sínar og tilfinningar eins og eitthvað sem aðskilið er frá restinni – einhvers konar sjónblekkingu í vitund hennar. Þessi blekking er eins og fangelsi fyrir okkur, sem takmarkar okkur við persónulega óra og væntumþykju í garð fáeinna einstaklinga sem næstir okkur eru.

 

Hlutverk okkur hlýtur að vera að frelsa okkur úr þessari prísund með því að stækka sjóndeildarhring væntumþykjunnar og þykja vænt um allar lifandi skepnur og alla náttúruna eins og hún leggur sig í fegurð sinni. Enginn mun ná fullkomnun í þessu, en að reyna það er í sjálfu sér frelsun og stuðlar að innra öryggi.“ (12. febrúar 1950).