Listmálarinn Jóhannes Kjarval var sérstæður maður. Hann skolaði blóðmör niður með kaffi og læsti leigubílstjóra inni í fataskáp.

 

Ármann Kr. Einarsson (1915–1999) var einn afkasta­mesti höf­undur barna– og ung­linga­bóka á Íslandi á tutt­ug­ustu öld. Árið 1997 gaf hann út sjálfsævi­sög­una Ævin­týri lífs míns, þar sem hann sagði meðal ann­ars frá kyn­legum kvistum og furðu­legu fólki í Reykjavík. Ármann starf­aði sem leigu­bíls­tjóri í íhlaupa­vinnu og hitti þar mann og annan. Hér segir af kynnum Ármanns og Kjarvals:

 

Ármann Kr. Einarsson rithöfundur með sjálfsævisöguna. „Á langri ævi hef ég unnið mörg og margvísleg störf. Þegar ég lít yfir farinn veg og reikningurinn er gerður upp er niðurstaðan þessi: Ég er sáttur við sjálfan mig og glaður og hamingjusamur í hjarta mínu.“

Ármann Kr. Einarsson rithöfundur með sjálfsævisöguna. „Á langri ævi hef ég unnið mörg og margvísleg störf. Þegar ég lít yfir farinn veg og reikningurinn er gerður upp er niðurstaðan þessi: Ég er sáttur við sjálfan mig og glaður og hamingjusamur í hjarta mínu.“

 

Gilli-gogg, ætlarðu ekki að drífa þig inn?

 

Bifreiðastöð Reykjavíkur hefur að sjálfsögðu átt mikinn fjölda fastra viðskiptavina í gegnum tíðina, bæði einstaklinga og fyrirtæki. Sá einstaklingur sem langmest skipti við BSR á sínum tíma var Jóhannes Kjarval. Hann var vanafastur og trölltryggur og skipti helst ekki við aðra bifreiðastöð.

 

Kjarval var ekki sama með hverjum hann ók og valdi sér sjálfur bílstjóra sem honum voru að skapi. Sá bílstjóri á BSR sem lengst og mest keyrði Kjarval heitir Þorvaldur Þorvaldsson, kallaður Bóbó og ekur hann enn á stöðinni. Það má segja að Bóbó væri einskonar einkabílstjóri meistarans.

 

Á tímabili ók ég Kjarval talsvert og urðum við góðir kunningjar. Ekki man ég lengur hvort Bóbó var þá í fríi eða forfallaður af öðrum ástæðum.

 

Það voru „góðir túrar“ að keyra Kjarval, eins og bílstjórar nefndu það sín á milli. Oft var farið út úr bænum í lengri eða skemmri ferðir og beðið eftir Kjarval heilu og hálfu dagana meðan hann var að mála.

 

„Ármann Kr. Einarsson  skrifaði bók sína með blýanti og þurfti nokkra til. Hér mundar hann síðasta stubbinn og setur endapunktinn.“ MYND: MORGUNBLAÐIÐ 1997.

„Ármann Kr. Einarsson skrifaði bók sína með blýanti og þurfti nokkra til. Hér mundar hann síðasta stubbinn og setur endapunktinn.“ MYND: MORGUNBLAÐIÐ 1997.

 

Einu sinni sem oftar keyrði ég Kjarval austur á Þingvöll um hásumar. Ekki var rennt heim að Hótel Valhöll eins og oft var vani gesta. Eins og að líkum lætur var þetta ein hinna fjölmörgu ferða meistarans til að festa hina óendanlegu fjölbreytni og litadýrð Þingvallahrauns á léreft. Kjarval vísaði mér á einhvern götuslóða sem lá af aðalveginum og inn í hraunið. Ég keyrði afar gætilega og ekki hraðar en gangandi maður. Það var ekkert grín að reka bílinn uppundir hraunnibbu og fá gat á olíupönnuna eða bensíntankinn. Loks varð ekki komist lengra og ég hjálpaði Kjarval til að taka málaratrönurnar og það sem þeim fylgdi út úr bílnum. Hann var undrafljótur að setja upp trönurnar og bað mig að bíða meðan hann væri að mála.

 

Ég spurði ekki um neina tímasetningu, en bað hann að láta mig vita þegar hann vildi fara. Síðan lét ég mig hverfa niður í dálítinn hraunbolla, en gætti þess að vera innan kallfæris.
Gilli-gogg, gilli-gogg, passaðu þig að detta ekki í hrauninu, sagði Kjarval glettinn í bragði og sneri sér að málaratrönunum.

 

Ég lagðist endilangur í mjúkan mosann og gætti þess hvort ég væri í sjónmáli frá Kjarval en svo reyndist ekki vera. Þá gat ég beðið þarna rólegur.

 

Ég hneppti frá mér skyrtunni og lét sólina verma mig. Það var undur notalegt að liggja þarna á mjúkum beði og finna höfugan ilm lyngs og mosa. Hugurinn hvarflaði til liðins tíma, þegar ég var að skríða um skógivaxnar hlíðar Bjarnarfells og uppgötva leynigjótur eða hella í fjallinu. Síðar urðu til ævintýrin Margt býr í fjöllunum og Höllin bak við hamrana. Gaman að láta hugann reika og gleyma tímanum.

 

Skyndilega heyrði ég kallað.

 

Ármann, viltu ekki fá þér kaffisopa með mér?

 

Ég leit á armbandsúrið. Mér brá, það voru liðnir meira en tveir tímar.

 

Þakka þér fyrir, kallaði ég á móti og reis á fætur. Gott að hann var ekki farinn að bíða eftir mér.

 

Kjarval hafði lagt frá sér pensilinn, var sestur á þúfnakoll og var að opna litla snjáða tösku. Upp úr henni dró hann kaffibrúsa og dálítinn nestisböggul. Hann hellti kaffi í mál og rétti mér annað. Síðan opnaði hann pakkann og bauð mér að gera svo vel.

 

Ég rak upp stór augu. Í bréfinu var ekki annað en nokkrar blóðmörssneiðar. Þótt ég væri uppalinn í sveit vissi ég aldrei til að blóðmör væri hafður sem meðlæti með kaffi.

 

Þegar Kjarval sá að ég hikaði, stakk hann upp í stig hálfri sneið og sagði brosandi: Gilli-gogg, gilli- gogg. Betra en nokkurt brauð.

 

Ég tók eina blóðmörssneið og át með kaffinu. Bragðið var svolítið skrýtið en ekki vont. Þetta er eina skiptið á ævinni sem ég hef borðað blóðmör í stað kaffibrauðs.

 

Ég var forvitinn að fá skýringu á því hvað þetta gilli-gogg þýddi sem Kjarval var alltaf að tauta í tíma og ótíma. Að þessu sinni herti ég upp hugann og spurði meistarann í hreinskilni hvað þessi skrýtnu orð eða orðaleikur þýddu.

 

Gilli-gogg! Bara að ég vissi það, svaraði Kjarval glettinn í bragði.

 

Síðari árin bjó Kjarval lengi á efri hæðinni í Blikksmiðju Breiðfjörðs í Sigtúni 7. Í rúmgóðum sal hafði hann bæði sitt eigið aðsetur og vinnustofu. Þar ægði öllu saman, persónulegum munum, málverkum og hálfkláruðum myndum.

 

Í einu horninu var svefnplássið. Rúmið vakti athygli mína. Það var slegið saman úr óhefluðu timbri. Viðurinn var mjög veðraður, eins og hann hefði legið lengi úti á víðavangi. Kjarval sá að ég veitti rúminu sérstaka athygli.

 

Gilli-gogg, ég efast um að þú eigir svona gott rúm, sagði hann glettinn. Það er nefnilega náttúruandi í rúminu.

 

Ha, náttúruandi? endurtók ég steinhissa og skildi hvorki upp né niður í neinu.

 

Jahá, sjáðu til. Fyrir nokkru sá ég þetta rúm liggja uppi í Svínahrauni. Vegavinnumenn höfðu víst fleygt því þegar þeir þurftu ekki að nota það lengur. Það hefur legið þarna lengi, timbrið var orðið svo snjóhvítt og veðrað. Mér datt í hug að hirða ræfilinn og tjasla honum saman.

 

Já, ég skil, þú kemst betur í samband við náttúruna að sofa í svona rúmi.

 

Gilli-gogg. Þú átt kollgátuna.

 

Annað var það líka í vinnustofunni sem vakti athygli mína. Föt lágu hingað og þangað í óreiðu. Ég tók upp einhverja flík sem lá á gólfinu og lagði á stólbak.

 

Ég er í vandræðum að hengja af mér föt, sagði Kjarval íhugandi. Ég er að hugsa um að láta smíða fyrir mig fataskáp.

 

Það væri tilvalið.

 

Gilli-gogg! Maður þarf að koma skikk á hlutina, sagði meistarinn.

 

Ég gleymdi þessu samtali von bráðar.

 

En hvað haldið þið! Nokkru síðar er ég kem á vinnustofu Kjarvals rak ég augun í forláta klæðaskáp sem stóð á miðju gólfi. Reyndar var þetta dálítið sérkennilegur klæðaskápur. Hann var frístandandi, tæpur metri á kant og um það bil mannhæðar hár, gluggalaus hurð var á einni hliðinni og lítil hjól undir hverju horni.

 

Hvernig líst þér á gripinn, ég var að fá hann í morgun.

 

Stórvel og hann hefur þann mikla kost að þú getur fært hann fyrirhafnarlaust hornanna á milli.

 

Ég er nú ekki farinn að hengja neitt inn í hann ennþá, sagði Kjarval. En ég held að þessi litlu hjól séu ekki nógu sterk, bætti hann við hugsandi og klóraði sér í höfðinu.

 

Heyrðu Ármann! sagði meistarinn hressilega og það birti yfir svip hans, eins og hann hefði fengið hugljómun. Farðu nú fyrir mig inn í skápinn, mig langar til að prófa hvort hann sé nógu sterkur.

 

Jæja, sagði ég lágt og aumingjalega og hreyfði mig ekki, ég fann hvernig hræðslan læsti sig um hverja taug. Mér sýndist þessi nýi stásslegi gripur meira en lítið valtur. Ég náfölnaði og mér sortnaði fyrir augunum.

 

Kjarval opnaði dyrnar á skápnum. Gilli-gogg, ætlarðu ekki að drífa þig inn?

 

Nú stillti meistarinn mér upp við vegg. Ég varð að hrökkva eða stökkva.

 

Jú, tísti í mér svo lágt að varla heyrðist um leið og ég steig inn í skápinn.

 

Kjarval var fljótur að loka dyrunum og samstundis varð allt kolniðasvart. Innilokunarkennd eða einhver óhugnaður greip mig. Ég gat samt stillt mig um að æpa. Í næstu andrá brunaði fataskápurinn af stað og mér fannst hann stöðugt auka hraðann. Kaldur sviti spratt út um mig allan og ég spyrnti höndum og fótum í hliðar skápsins til að vera viðbúinn ef hann skylli á hliðina. Alltaf kárnaði gamanið, það ískraði í hjólunum og nú fór þetta undarlega farartæki að taka króka og beygjur. Skyndilega stöðvaðist skápurinn, hurðin opnaðist og birtan flæddi inn.

 

Pú-púff, ég staulaðist út, frelsinu feginn.

 

Ha, ertu veikur, þú ert svo fölur? spurði Kjarval.

 

Nei-nei, flýtti ég mér að segja. Óneitanlega er fataskápurinn þinn traustur og vel smíðaður. Það sýndi sig best nú.

 

Gilli-gogg, hann stóðst prófið, ansaði Kjarval og byrjaði að raða fötum inn í skápinn.

 

Þótt rúmið og fataskápurinn vektu athygli í augnablikinu, voru það málverkin sem maður gleymdi sér við að skoða. Listaverkin þöktu vinnustofuna ýmist fullfrágengin og innrömmuð eða strengd á grind. Oft stóð hálfklárað verk á málaratrönum.