Vídjó

Í BBC heimildarmyndinni The Lost World of Tibet (ísl. Horfinn heimur Tíbets) sjáum við eldgamlar upptökur í lit af horfnu þjóðfélagi Tíbeta á árunum 1930-1950.

 

Tíbet var innlimað í miðstýrt kommúnistaríki Maós Tse-tung upp úr 1950. Fornri siðmenningu þjóðarinnar, þar sem Dalai Lama gegndi hlutverki bæði trúar- og þjóðarleiðtoga, var gert að víkja fyrir hugmyndafræði kínverskra kommúnista og þjóðernissinna.

 

Myndin veitir yfirgrip yfir nýlega sögu Tíbets og sýnir myndskeið af fjarlægu fólki á þróunarstigi miðalda innan um ógurleg fjöll, klætt hefðbundnum klæðum, dansandi hefðbundna dansa.

 

Auk þess sjáum við Dalai Lama sem smákrakka ásamt fjölskyldu sinni, flóknar búddískar trúarathafnir og svo fjöldann allan af skrautklæddum, sköllóttum munkum.

 

Litli drengurinn á myndinni er Tenzin Gyatso, framtíðar-Dalai Lama, ásamt móður sinni, föður sínum og eldri bróður.

 

 

Munka-hermenn ganga um með skrautlega hatta og langa stafi. Því lengri stafurinn, því voldugri munkurinn.

 

Skrúðgöngur um götustræti Lasa.

 

Trúarleg samkoma undir stórvirkjum sem virðast heldur tilheyra tímum Rómverja en 20. öldinni.

 

 

Ógurleg fjöllin gnæfa yfir Tíbet.