Oddur sterki var þjóð­sagna­kennd per­sóna, kyn­legur kvistur, í Reykjavík á millistríðsárunum. Lemúrinn hefur áður birt myndir af honum í víkingabúningi og hugsanlegri upptöku með rödd hans sem Jón Leifs gerði. Hér verður fjallað um hann og annan eftirminnilegan mann frá sömu árum, Óla Maggadon.

 

Efsta myndin er af Oddi og er úr stórkostlegu ljósmyndasafni hollenska meistarans Willems van de Poll, sem lesendur Lemúrsins þekkja vel.

 

Óli Maggadon. Myndin er frá síðu Söndru Björgvinsdóttur (gamlarmyndir.wordpress.com).

Óli Maggadon. Myndin er frá síðu Söndru Björgvinsdóttur (gamlarmyndir.wordpress.com).

 

Frægt er að þegar breska stórskáldið W.H. Auden kom til Íslands sumarið 1936 sagði hann að fyrir utan Þjóðminjasafnið, málverkin í Alþingishúsinu og safn Einars Jónssonar væri lítið annað að sjá í höfuðborginni en Óla Maggadon, Odd Sigurgeirsson, Kjarval og Árna Pálsson prófessor.

 

Oddur sterki. Myndin er frá síðu Söndru Björgvinsdóttur (gamlarmyndir.wordpress.com).

Oddur sterki. Myndin er frá síðu Söndru Björgvinsdóttur (gamlarmyndir.wordpress.com).

 

Óli og Oddur voru sérkennilegir menn í mannlífinu í Reykjavík, svokallaðir persónuleikar, menn sem gengu ekki heilir til skógar. Voru margir broddborgarar ósáttir við að stórskáldið Auden teldi þá til fyrirmenna borgarinnar. Óli Maggadon sást iðulega við höfnina í Reykjavík og hafði þar ýmis afskipti af skipaferðum.

 

Hér á eftir eru ýmsar sögur um þessa miklu kappa sem Pétur Pétursson þulur birti í Lesbók Morgunblaðsins árið 2003.

 

Oddur og Óli

 

Oddur Sigurgeirsson, hinn sterki af Skaganum, var nafnkunnur maður á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar. Hvert mannsbarn þekkti Odd, enda fór hann ekki dult með nærveru sína á götum Reykjavíkur. Honum lá hátt rómur. Hann átti við sjúkdóm að stríða, sem svipti hann heyrn að heita mátti. Hann bar jafnan með sér heyrnartæki, einskonar lúður eða horn, sem hann bar að eyranu til þess að magna tal viðmælanda. Oddur var barngóður og gaf sig oft á tal við börn, sem hann hitti á förnum vegi. Ef honum var strítt brást hann illa við og var þá stundum harðskeyttur. Hann fór oft um bæinn ríðandi á fáki sínum íklæddur litklæðum.

 

Er um það saga, sem gæti verið sönn. Þegar leið að Alþingishátíð þeirri sem haldin skyldi á Þingvöllum í lok júní árið 1930 efndu ungmennafélög, sem voru fjölmenn samtök um land allt land til áróðursherferðar og hvöttu félaga sína til þess að sem flestir karlar kæmu til hátíðarinnar í litklæðum, að hætti fornmanna. Á sjálfri hátíðinni var efnt til leiksýningar þar sem fjöldi leikara, auk ýmissa annarra vel mæltra manna, flutti leikþátt sem Ólafur Lárusson prófessor lagadeildar og Sigurður Nordal prófessor í íslenskum fræðum höfðu samið um lögréttumenn á Þingvöllum.

 

oddurogkóngsi

 

Haraldur Björnsson var leikstjóri sýningarinnar. Leiksýning þessi er mörgum minnisstæð. Allir lögréttumenn klæddust marglitum og litfögrum skikkjum, brókum og búnaði fornum. Þá verða líka þáttaskil. Og rétt að geta þess nú að leikarar þessa söguþáttar voru hinir einu sem klæddust með þeim hætti sem lýst var. Ástæðan var rakin til Lárusar Jóhannessonar lögfræðings, síðar alþingismanns og hæstaréttardómara. Hann var sonur Jóhannesar bæjarfógeta Jóhannessonar er var kosinn formaður Alþingishátíðarnefndar, nefndar þeirrar sem hafði veg og vanda af samkomunni miklu þegar 30 þúsund manns mæltu sér mót í fannhvítum tjaldbúðum er dreifðar voru um vellina, flatir og hraungjótur í nágrenni Lögbergs. Það var fjölmennasti tjaldbúðasöfnuður sem sést hefir á Íslandi.

 

Lárus Jóhannesson hafði að sögn, ákveðið með sjálfum sér, að koma í veg fyrir það áform ungmennafélaga að karlmenn tækju upp þann hátt að klæðast litskrúði. Er mælt að hann hafi kallað Odd Sigurgeirsson á fund sinn og falið klæðskera að sníða honum litklæði og sæma hann vopnum og skildi. Var honum jafnframt fenginn góðhestur með vænum reiðtygjum. Steig nú riddarinn á bak fáki sínum og þeysti sem hann mátti um malargötur höfuðstaðarins. Taldi Lárus að með þessu væri tryggt að enginn úr flokki betri borgara léti sér til hugar koma að klæðast slíkum búningi sem Oddur af Skaganum skrýddist nú á þeysireið sinni um götur Reykjavíkur.

 

Þegar nær leið Alþingishátíðinni óttuðust góðborgarar og embættismenn að Oddur Sigurgeirsson eða aðrir af kynlegum kvistum höfuðstaðarins kynnu að valda veisluspjöllum eða aðhafast eitthvað það í návist erlendra þjóðhöfðingja, sem ekki sæmdi slíkum mannfagnaði. Var því brugðið á það ráð að koma Oddi fyrir í gæslu utanbæjar.

 

oddurberit

Oddur á Alþingishátíðinni 1930.

 

Oddur hafði átt það til að hrópa háðsyrði um Kristján Danakonung hinn níunda og jafnframt hyllt róttæka foringja jafnaðarmanna, Ólaf Friðriksson og Hendrik J. Ottósson. Oddur leit líka talsvert stórt á sig. Hann var skráður sem ritstjóri blaðsins „Harðjaxls“. Voru helstu aðstoðarmenn og raunar hvatamenn og ábyrgðarmenn Hannes Kristinsson á Litla-kaffi og Hendrik J. Ottósson. Oddur mátti vel við una. Í revíu Reykjavíkurannáls var sungið um Tótu litlu, sem var tindilfætt er móðir hennar sendi hana eftir lesmáli og unir illa blaðakaupum hennar og segir: „Ég heimta að fá að lesa Harðjaxl eða Storm.“ Oddur var „ritstjóri“ Harðjaxls en Magnús Magnússon ritstjóri „Storms“, afi Sverris Tómassonar meistara.

 

oddurfálkinn

 

Svo haldið sé áfram að segja frá „gæsluvist“ Odds kemur þar máli að Markús Jónsson bryti, bóndi á Svartagili, fornvinur sjómanna úr Blöndahlsslag og vinnudeilum ýmsum tekur að sér að skjóta skjólshúsi yfir Odd meðan á hátíðinni standi. Klæðist nú Oddur litklæðum sínum, tekur með skjöld sinn og atgeir og býst brottreiðar með vini sínum Markúsi, svartbrýndum með svarta skeggrót og svipmót stigamanna þeirra er eiga sér athvarf við gil það, fjarri byggð er nefnist Svartagil. Ríða þeir þar í hlað um það bil er hátíð hefst. Töldu nú höfðingjar að þeir gætu sofið sætt og rótt, ekki þyrfti að óttast hrakyrði eða aðför Odds er hann sætti gæslu við jaðar óbyggða. En Markús bryti vildi „hóa í lætin, með sínum hætti“. Um það bil sem hæst hóaði í Bolabás, þjóðfrægum stað, þar sem fornmenn höfðu leitt saman góðhesta sína til hestaats, svo hvíaði í fjöllum og undir tók í Skjaldbreið og Súlum „þá er til ferðar fákum snúið tveimur“ eins og segir í ljóðinu.

 

Markús hefir spurnir af miklum fjölda hestamanna sem stefni hraðfari í átt að Meyjarsæti og Bolabás. Hann veit hvaða athygli það kann að vekja er þeir félagarnir, hann sjálfur svartur eins og tataraforingi og Oddur með úfið jarpt hár og alskegg sem breiðir sig um bringu hans, gullinn hjálm á höfði, spjót í hægri hönd og fagurskreyttan skjöld við mjöðm. Þeir skunda í átt til Kristjáns konungs, sem stendur milli tveggja fylgdarmanna sinna. Þegar þeir félagar, aðkomumennirnir Oddur og Markús nálgast konungsmenn stíga þeir af baki. Ljósmyndari er þar nærstaddur. Hann festir á filmu fund þeirra Odds Sigurgeirssonar og Kristjáns tíunda Danakonungs. Þeir brosa breitt hvor til annars konungur og Oddur. Til eru þeir sem staðhæfa að engin önnur ljósmynd fyrirfinnist af Kristjáni konungi og íslenskum þegni hans þar sem hann brosi eins og hann gerir á fyrrgreindri mynd í Bolabás. Oddur sagði líka um fund þeirra er hann var beðinn að hrópa sem fyrr: Niður með kónginn. „Þegar konungurinn hefir gefið manni 10 krónur þá getur maður ekki hrópað eins og bolsévíki: Niður með kónginn.“

 

Kristjáni konungi hafði dauðleiðst við skartsýningu lögréttumanna á Lögbergi. Hann skildi ekki orð af því sem litklæddir leikarar höfðu rausað á einhverju óskiljanlegu máli. Hann bauð einum þeirra sígarettu úr gullnu veski sínu meðan á flutningnum stóð Haraldi Björnssyni leikstjóra til skelfingar, sem fylgdist með þolraun leikarans meðan konungur otaði veskinu að honum meðan á leiknum stóð.

 

Oddur með spjótið. Mynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Oddur með spjótið. Mynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

 

Magnús Stefánsson, sá sem nefndi sig Örn Arnarson er hann birti ljóð sín á prenti kvað Oddsrímur til heiðurs Oddi Sigurgeirssyni.

 

Þess ber að geta að Oddur ánafnaði samtökum sjómanna digrum sjóði í erfðaskrá sinni. Lét hann Hrafnistu njóta eigna sinna.

 

Peningagjöf Kristjáns Danakonungs megnaði ekki að slæva stéttarvitund og róttækni Odds sterka. Ef verkfallsátök voru í aðsigi, mótmælafundir eða aðrar uppákomur, eins og sagt var þá lét Oddur sig ekki vanta á vettvang. Þegar reykvískir verkamenn snerust til varnar kjörum sínum í nóvember 1932 og létu að sér kveða á bæjarstjórnarfundi í Góðtemplarahúsinu var Oddur í hópi hinna fyrstu, sem birtust við húsið. Í réttarhöldum lögreglu ber Árni Ámundason verkamaður hjá Reykjavíkurhöfn, nafnkunnur afreksmaður í stétt verkamanna vitni í lögreglurétti. Árni fullyrti að það hefði verið Oddur Sigurgeirsson – Oddur sterki af Skaganum sem byrjaði að brjóta rúður með staf sínum á suðurhlið hússins, „og hafi ýmsir veitt honum aðstoð í því“. Oddur mun þó ekki hafa verið kallaður fyrir rétt.

 

Margar skoplegar lýsingar Odds voru hafðar eftir honum um afreksverk hans og hreysti. Hann á að hafa sagt um áflog sem hann lenti í. „Þá kom hann á móti mér með hnífinn í annarri og hnefann í hinni. Svo lagði hann á flótta. Ég á undan og hann á eftir.”

 

Maggadon

 

Óli Maggadon var einn þeirra sem breska skáldið W.H. Auden kvaðst minnast frá Reykjavíkurdvöl sinni. Hann tengdi Óla við Reykjavíkurhöfn. Það var líka hans kjörsvæði. Það var tekið mark á Óla. Það gerðu erlendir skipstjórar líka þegar hann kom í öllum sínum myndugleik, með gyllta hnappa á aflóga einkennisjakka sínum og borðalagðar ermar og hrópaði til útlendrar skipshafnar hátt og snjallt: La falla. Það stóð ekki á viðbrögðum. Akkerið var látið falla að skipan Óla, sem stundum gekk undir nafninu Kommandanten.

 

Óli naut mikilla vinsælda hjá starfsmönnum Reykjavíkurhafnar. Mér veittist sú ánægja að fara sjóleiðis úr Reykjavík á dráttarbátnum Magna. Hann var ómissandi hjálpartæki í eigu Reykjavíkurhafnar. Magni var keyptur frá Þýskalandi árið 1928. Þorvarður Björnsson yfirhafnsögumaður sigldi honum heim. Mér er í fersku minni för með bátnum, sem var þá sendur með vörupramma í eftirdragi í Borgarnes. Ég þykist vita að ég hafi notið Jóns Axels bróður míns, sem var hafnsögumaður og hefir sjálfsagt stjórnað siglingu Magna í Borgarnes.

 

Ég man þó betur eftir sjóveikinni sem mæddi mjög er dráttarbáturinn sigldi fyrir Hvalfjörð. Þá valt Magni á bláum bárum rastarinnar og tommaði tæpast áfram með vöruprammann í tregum drætti. Næst sjóveikinni man ég eftir Óla Maggadon og Bjarna Tómassyni, sem oftast var kallaður Bjarni á Magna og var eiginmaður Guðrúnar skáldkonu Árnadóttur frá Oddsstöðum, sem var fasmikil og minnisstæð og tók virkan þátt í stjórnmálum um skeið. Einkum kvað að henni í fylgdarliði Hannibals Valdimarssonar er hann blés til orustu í Alþýðuflokknum og síðar í nýjum samtökum. Bjarni Tómasson, Óli Maggadon og rúgbrauðið, sem við kölluðum þrumara í þá daga, skar Bjarni af rausn og örlæti þegar við Óli fengum lystina aftur eftir Hvalfjarðarhrinuna. Bjarni og Ólafur, eða Óli, eins og hann var jafnan kallaður voru báðir glaðlyndir menn og góðviljaðir.

 

Morgunblaðið 2003.

Morgunblaðið 2003.

 

Þeir voru oftast eitt sólskinsbros. Jóhannes Kjarval listmálari, sem var einn í hópi Reykvíkinga sem voru Auden minnisstæðir, kunni vel að meta sólskinsbros Óla Maggadon. Stefán Íslandi greinir frá því í bók sinni, Áfram veginn, að hann hafi alltaf sent Kjarval tvo boðsmiða á hljómleika sína. Kjarval bauð Óla Maggadon jafnan með sér. Sátu þeir á fremsta bekk og klöppuðu óspart að loknu hverju lagi.

 

Það var ekki bara þrumarinn hjá Bjarna á Magna sem Óli át af hjartans lyst. Ludvig Hjálmtýsson (Polli) forstjóri Sjálfstæðishússins var góður vinur og velgjörðarmaður Óla. Hann sagði Páli Líndal lögmanni frá ýmsum afreksverkum Óla sem snertu matarlyst.

 

Óli kom í Sjálfstæðishúsið í forstjóratíð Ludvigs. Haraldur Á. Sigurðsson leikarinn góðkunni var þá staddur þar. Þar lék Óli sér að því að „sporðrenna“ 12 rjómakökum, sem voru afgangur frá „eftirmiðdagskaffinu“.

 

Ludvig segir að Magnús Pétursson bæjarlæknir hafi verið kallaður að nóttu til. Þá hafði Óli gleypt 20 síldarflök með lauk. Varð eitthvað bumbult af síldinni.

 

Óli var góðvinur flestra veitingaþjóna enda viku þeir oft góðu að honum. Best mun honum þó hafa fallið við Janus Halldórsson. Hann var lengi á Hótel Borg, en síðar í Sjálfstæðishúsinu. Óli kallaði alla þjóna nafni Janusar. Það var alveg sama hvort það var Villi Schröder, Guðmundur H. Jónsson (Guðmundur Halli), allir voru þeir nefndir Janus þegar Óli ræddi við þá eða um þá.

 

Óli fæddist 13. október 1901. Hann lést 18. febrúar árið 1975.

 

Ludvig Hjálmtýsson segir að Gunnar Gunnarsson rithöfundur hafi skrifað smásögu á dönsku um Óla. Var það sagan Kommandanten.

 

Óli Maggadon tók þátt í fyrstu kröfugöngu verkalýðsfélaganna í Reykjavík 1. maí 1923. Hann lét sig ekki vanta þar. Oddur hinn sterki var þar líka eins og áður er getið.

[…]