Hvað gerist þegar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, skorar á þig í körfubolta í World Class? Ef þú ert Guðjón Hauksson, þá körfuboltamaður í Val á 24. aldursári, þiggurðu boðið og stendur þig jafnvel vonum framar. En það er aðeins byrjunin á sögunni. Spólum til baka um 15 ár og heyrum eina allra bestu Kárasögu sem til er. Og athugið, hún er dagsönn. 


„Þetta er sumsé árið 2005. Ég hafði verið að spila í körfubolta með Val og var þarna að byrja aftur eftir smá hlé. Ég var í World Class í Fellsmúla, en eins og þú manst þá var þar svona veggtennissalur sem var nú oftast notaður í körfubolta. Ég er á hlaupabrettinu og man að ég var klæddur í einhverja körfuboltatreyju og var í körfuboltaskóm, leit allavega mjög körfuboltalega út. En inni í salnum er Kári að taka skot.“

World Class í Fellsmúla, musteri heilsunnar. Skjáskot úr Helparpóstinum 1995.


Blaðamaður hafði samband við Guðjón, til að rifja upp þessa sögu, sem er orðin nokkurs konar urban legend meðal vina og vandamanna. Það skal einnig tekið fram, að Guðjón hafði líka sérstaklega samband við Kára, núna síðustu helgina í marsmánuði 2020, til að athuga hvort ekki væri í lagi að segja söguna. Svar hans má sjá á mynd neðar í textanum.


„Þannig þú sérð fyrir þér að Kári er þarna, horfir út yfir salinn og mælir fólkið út. Hann sér greinilega útganginn á mér, ég lít þarna út fyrir að spila körfubolta, og Kári labbar úr salnum, kemur upp að hlaupabrettinu og spyr „hvernig líst þér á að við tveir tökum smá one on one?“ Sem ég var alveg til í, ekkert mál, enda ekkert skemmtilegasta í heimi að vera á brettinu.“


Þetta er í byrjun árs 2005 en þá hafði World Class nýlega flutt höfuðstöðvar sínar frá Fellsmúla yfir í Laugardal. Mögulega fóru því í hönd tveir af allra síðustu körfuboltaleikjum sem fóru fram í World Class, sem hefur ekki haft veggtennis/körfuboltavöll síðan. Körfuboltafólki til lítillar gleði. 


„Já, ég fæ að skjóta um hvor hefji leik og ég hitti. Og það sem gerðist þá er að Kári fékk ekkert boltann. Ég vann bara 11-0. OK, ég er ekki að gera eitthvað mikið úr þessu. Ég var ungur maður, ég var að æfa körfubolta og bara þokkalegur. [Guðjón var byrjunarmaður í Val, í 1. deild, sem er nokkuð gott level]. En það fýkur dálítið í Kára. Ég meina, þessi maður er með keppnisskap.“

Valsblaðið, 2005. Guðjón er í efri röð, annar frá vinstri.


Kári fær smá útrás með því að negla bolta í gólfið og er bersýnilega pirraður yfir tapinu. Þannig hann skorar á Guðjón að nýju, vill fá annan leik.


„Þannig Kári segir við mig að nú ætlum við að veðja, við ætlum að veðja upp á 500 þúsund kall. Hálfa milljón. Ég segi honum að ég er bara nemi í hjúkrunarfræði, að vinna aðra hverja helgi, ég hafi enga hálfa milljón til að veðja. En ég segi honum að ég sé til í að veðja 10% af mínum launum gegn 10% af hans launum, en Kári stendur fast á sínu, við veðjum upp á 500 þúsund eða ekki neitt. En úr verður að við spilum aftur og ég vinn hann aftur. Kári er þá öllu rólegri en hann spyr mig strax um símanúmerið mitt. Ég var alveg til í að gefa honum það, vissi ekkert hvað hann ætlaði að gera með það en gott og vel. Hann fær númerið, skrifar það ekkert niður, segist bara muna það, og arkar svo út. Hann fer inn í klefa og já, er búinn á sinni æfingu þennan dag.“


Guðjón heldur aðeins áfram að skjóta á körfuna í salnum en heldur síðan á brott. 


„Ég dríf mig síðan í vinnuna en ég er þarna í verknámi á slysadeild Landspítalans og skil símann minn þar af leiðandi eftir úti í bíl. Ég man ekki alveg hvaða dagur þetta er en mér finnst líklegt að þetta hafi verið þriðjudagur. En þegar ég kem í bílinn sé ég að það eru alveg nokkuð mörg missed calls á símanum, allt úr sama númerinu. Nú, ég hringi í númerið og það er ekkert um að villast, þetta er Kári Stefánsson. Hann kemur sér strax að efninu, spyr hvort mig langi ekki að fara á NBA-stjörnuleikinn.“


Samkvæmt útreikningum Guðjóns mun þetta símtal, og körfuboltaleikirnir í World Class, því hafa farið fram þriðjudagseftirmiðdegi 15. febrúar.


„Ég spyr á móti, er hann ekki bara um helgina? Og Kári svarar, „jú, og ef þú vilt fara, þá ferðu út í Íslenska erfðagreiningu núna strax.“ Hann gaf mér nafn á húsverði, ég fer þangað, húsvörðurinn tekur á móti mér, veit hver ég er, segist vera með umslag handa mér. Og í því umslagi eru bara miðar á alla stjörnuhelgina. Það er búið að græja fyrir mig hótel og flug, fram og til baka til Denver, í gegnum Boston. Allt í boði Kára.“


Guðjón dreif sig í að fá frí í vinnunni og pakkaði nærbuxum í tösku.


„Það kom svo í ljós, þegar út var komið, að þetta hótel, sko, þetta var greinilega ekkert hótel fyrir Pétur og Pál, skilurðu? Þarna var fjöldinn allur af NBA-leikmönnum, af gömlum NBA-leikmönnum… Julius Erving var á þessu hóteli, Jabbar og Detlef Schrempf var þarna, sem ég man eftir bara í svipinn, það var fullt af þeim. Ég man til dæmis, að þegar ég er þarna eitt skiptið að fara í morgunmatinn á hótelinu, þá kemur maður aftan að mér þegar ég er að hlaða einhverju á diskinn, segir „good morning“ og ég lít við, og þarf að líta ansi hátt, og þá er það Kareem Abdul-Jabbar! Sem er stigahæsti leikmaður NBA frá upphafi. Og ég þarna, skjálfandi á beinunum að hósta upp úr mér á móti „yes, good morning“. Og bara, vá! Þetta var svo ruglað. Að sitja þarna og horfa yfir þennan sal í morgunmat á hóteli, þarna eru allir uppáhaldsíþróttamennirnir, menn sem maður hefur litið upp til næstum allt sitt líf. Þetta var svo súrrealískt, algerlega ótrúlegt!“


Sjörnuleikurinn sjálfur var ekkert slor heldur. Þetta ár sigraði lið Austursins og var það leikmaður Philadelphia 76ers, Allen Iverson, sem var valinn MVP, verðmætasti leikmaður leiksins. 

Vídjó

Hér má sjá helstu tilþrif stjörnuleiksins í Denver, 20. febrúar 2005.


„Ef ég man þetta rétt þá var einmitt nýliðaleikur á föstudagskvöldi, troðslukeppni á laugardegi og síðan sjálfur leikurinn á sunnudegi. Og ef þú horfir á byrjunarliðin í þessum leik, þarna eru Kobe Bryant, Shaq, Allen Iverson, LeBron James, Kevin Garnett, Dirk Nowitzki… þetta eru hreinlega bestu leikmenn veraldar sem spila íþróttina á þeim tíma. Það sem var líka magnað, þessi miði hann tryggði mér aðgang að alls konar viðburðum, eftirpartýum eða kokteilboðum, þar sem allir þessir gaurar voru hangandi, sem var líka auðvitað alveg ótrúlegt.“


En þar með er ekki öll sagan sögð.


„Á þessum tíma fannst mér smá leiðinlegt, að eini leikmaðurinn sem ég var ekki búinn að sjá var Charles Barkley, sem var alltaf svona minn maður. Alveg, uppáhaldsleikmaður allra tíma án nokkurs vafa. En ég náði myndum af hinum og þessum samt. Það voru reyndar alls konar reglur um að það mætti ekki taka myndir, mætti ekki vera flass og svoleiðis. Ég á einhvers staðar mynd af Dr. J að spjalla við Jabbar sem er svona laumumynd, var alltaf að laumast þarna á fullu. En síðan gerist það að ég er á flugvellinum í Denver, á heimleið, að fá mér að borða. Er að gúffa í mig hamborgara á einverjum skyndibitastað. Þá sé ég greinilega að Barkley er að labba í áttina framhjá þessum hamborgarastað. Ég þekki hann strax, hann er í Air Jordan-galla, með derhúfu og er að reyna að láta lítið fyrir sér fara. Ég fer strax í smá panic, hafði langað alla helgina að hitta hann, hvað á ég að gera? En ég ákvað bara, jæja, nú er að duga eða drepast. Þetta er mitt stærsta átrúnaðargoð í íþróttum og ég læt vaða, annars mun ég sjá eftir því alla ævi. Þannig ég stend upp, labba í smá stund fyrir aftan hann á meðan ég safna kjarki og pikka svo í öxlina á honum, segi „Sir Charles?“ Og spyr hvort ég megi fá mynd með honum. Hann tók því bara vel, sagði strax „that’s COOL man,“ þegar ég sagðist vera frá Íslandi. Þannig ég fékk myndina og allt gott með það. Nema, þegar ég kom þarna auga á hann þá gerði ég honum smá óleik. Þá fattaði allt annað fólk það líka, og vildi auðvitað líka mynd. Þannig ég gekk þarna í burtu, drulluánægður með að fá mynd en um leið skammaðist ég mín dálítið fyrir að skilja Barkley eftir í hafsjó af fólki.“

Guðjón Hauksson og Sir Charles Barkley á flugvellinum í Denver, 21. febrúar 2005. Mynd úr einkasafni.

Guðjón starfar í dag sem forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Neskaupstað. Innan heilbrigðiskerfisins, á svipuðum slóðum og Kári. Þannig það liggur beint við að spyrja, hvort þeir hafi haldið sambandi síðan árið 2005? 


„Það er það fyndna við þetta. Ég stend auðvitað í ævinlegri þakkarskuld við Kára, að hafa leyft mér að upplifa þetta öskubuskuævintýri, ég veit ekki hvernig á að lýsa þessu öðruvísi. Að ég hafi verið svo heppinn að fá að upplifa þetta. Og það er allt Kára að þakka. Hann stóð þarna við sitt. Ég hitti hann eitthvað seinna og hann spurði hvernig þetta hafi verið og ég sýndi honum einhverjar myndir. En í kjölfarið var þetta búið. Í raun og veru erum við bara málkunnugir og ekkert meira. 


En svo er auðvitað helvíti gott að þegar ég hafði samband við hann núna um helgina, þá sagði Kári að ég væri augljóslega með einhver minnisglöp. Hann kannaðist ekkert við þetta og það væri ekki möguleiki að ég hafi unnið hann nokkurn tímann í körfubolta. En hann sagði bara endilega, ég mætti „segja þessa lygasögu því þetta væri ein af fáum sögum sem láta mig líta þokkalega út.“ Og svo var eiginlega best, hann sagði að lokum að honum þætti vænt um þetta. En bætti svo við „næst þegar þú kemur í bæinn, þá skulum við taka one on one, og þá mun koma í ljós, að þú ert orðinn gamall karl, en ekki ég.“

„Næst þegar þú kemur í bæinn, þá skulum við taka one on one, og þá mun koma í ljós, að þú ert orðinn gamall karl, en ekki ég.“ Kári Stefánsson árið 2015. Skjáskot frá myndskeiði Nútímans.


Ég er einfaldlega rosalega þakklátur fyrir þetta. Þetta var ótrúlegt. En svo er gaman að segja frá því að nú þegar við erum í gríðarlega mikilli undirbúningsvinnu vegna covid 19, þá ákvað ég að fyrst ég væri á annað borð að hringja í Kára Stefánsson, þá spurði ég hvort ekki væri hægt að redda skimun Íslenskrar erfðagreiningar á Austurlandi. Við erum að rigga því upp í þessum töluðu orðum. Þannig þessi upprifjun hefur alveg raunverulegt gildi fyrir miklu fleiri en mig og Kára.“

Guðjón fagnaði 39 ára afmæli þann 24. febrúar síðastliðinn.