Árið 1993 var spáð að geimverur myndu í fyrsta sinn í veraldarsögunni birtast mönnum opinberlega. Þetta átti að gerast við Snæfellsjökul á litla Íslandi 5. nóvember 1993 klukkan 21:07.

Í lok ágúst það ár var haldin ráðstefna um geimverur og fljúgandi furðuhluti í Háskólabíói. Fullt var út úr dyrum á ráðstefnunni sem tengdist að einhverju leyti sýningum á kvikmyndinni Fire in the Sky, eða Eldur á himni, sem að sögn byggir á sannsögulegum atburðum í Bandaríkjunum árið 1975.

radstefna


Á því ári var einstaklingur numinn á brott af geimverum og skilað til baka nokkru seinna. En í Bandaríkjunum er nokkuð þekkt fyrirbæri að fólk segist hafa verið rænt af geimverum sem gert hafi furðulegar tilraunir á því í fljúgandi diskum.

Allmargir þeir sem segja sögur sem þessar lýsa geimverunum á sama hátt: Sem gráleitum, hárlausum, smávöxnum, hausstórum verum með skásett svartleit augu. Sú tegund af geimverum er nokkurs konar staðalímynd geimvera í Bandaríkjunum sem birtist stöðugt í bíómyndum, sjónvarpsþáttum og bókum og eru kallaðar „greys“, eða gránur. Og það má segja að þetta geimveruútlit, sem allir þekkja, hafi verið eitt af mest áberandi táknum í fjöldamenningu tíunda áratugarins.

Á áðurnefndri ráðstefnu var rætt um slíkar geimverur og margir töluðu um að koma út úr skápnum hvað varðar trú á geimverur. Einna mesta athygli vakti frásögn manns sem sagðist hafa séð geimfar lenda þegar hann var í berjamó á Snæfellsnesi. Nokkrar kindur urðu vitni að þessu ásamt honum. „Ég hugsaði nú með mér að það hlyti eitthvað að vera bilað hjá karlagreyjunum,“ sagði maðurinn um litlu, grænu mennina sem stigu út úr farinu.

Fyrirsögn í DV.
Fyrirsögn í DV.


En langmesta athygli á ráðstefnunni vakti annað mál. Sagt var að fjöldi fólks víðsvegar í veröldinni væru í beinu eða huglægu sambandi við verur frá öðrum hnöttum og sólkerfum. Og geimverur hefðu nú, í gegnum þetta fólk, boðað komu sína til Íslands, í nóvember þetta sama ár. Þetta kallaði á flennifyrirsagnir í blöðunum. Geimverur væntanlegar til Íslands í nóvember stóð í DV. Og í Tímann var skrifað:

Geimverur hafa boðað komu sína til Íslands þann 5. nóvember næstkomandi og munu þær lenda fari sínu á Snæfellsjökli. Svo virðist sem tilgangurinn með ferð þeirra hingað til lands sé fyrst og fremst að sýna sig opinberlega. Ástæðan fyrir því að Snæfellsjökull þykir hentugur staður er hversu gott orkusvið er frá jöklinum. Magnús Skarphéðinsson, sagnfræðinemi og hvalavinur, segir að í athugunum sínum á frásögnum um dulræn fyrirbrigði sé að finna mörg dæmi þar sem greint sé frá geimverum og geimskipum sem sótt hafa Íslendinga heim. Elsta dæmið sem Magnús hefur rekist á er frá 16. öld og það yngsta frá árínu 1990 þegar þrír jarðfræðingar á leið til Þingvalla sáu geimskip.


„Þær koma“. Michael Dillon var sannfærður.

(Pressan 1995)
(Pressan 1993)


Eftirvæntingin var mikil þó efasemdir væru líka til staðar. Í Pressunni birtist grein eftir Dr. Gunna um ráðstefnuna.

Eftir kaffihlé komu nokkrir menn upp á svið og lýstu kynnum sínum af geimverum. Einn sagðist hafa séð geimskip lenda á Snæfellsnesi um það leyti er lent var á tunglinu. Hann var ekki einn um að sjá geimskipið, því rollurnar allt í kring horfðu líka á tvo furðulega menn stíga út úr skipinu, líta í kringum sig og fljúga svo í burtu. Annar lýsti kynnum sínum af huglægum geimverum, sem í þetta skiptið líktust einna helst draugum, og sá þriðji sagði frá dularfullu ljósi sem hafði sést á himninum yfir Snæfellsjökli um það leyti er hann og félagar hans voru að koma úr transi, en þeir stunduðu það um helgar að hjálpa hver öðrum í trans. Náðust myndir af fyrirbærinu og var upptakan sýnd í matarhléinu. Líktist geimskipið einna helst vasaljósi sem skjálfhentur maður hélt á í nokkurra metra fjarlægð, en kannski kemur annað í ljós ef myndin er athuguð betur.

Ekki voru allir sáttir með yfirvofandi komu hinna tignu gesta. Snorri Óskarsson, safnaðarhirðir hjá Betelsöfnuðinum í Vestmannaeyjum, sagði að geimverurnar, væru útsendarar djöfulsins og varaði kristna menn við því að taka á móti þeim. En hvernig sem því leið var ljóst að talsverður fjöldi manna myndi ferðast til Snæfellsnes til að taka á móti geimverunum.

Hótel Búðir sló upp mikilli dagskrá og blaðaauglýsing frá fyrirtækinu var í skemmtilegum stíl:

1240390_689545904400642_803909023_n


Ekki amalegt að hlusta á Súkkat og bíða eftir geimverum. En svo rann stóri dagurinn upp. Eins og búist var við var talsverður fjöldi manna undir Jökli hinn 5. nóvember 1993 og fjölmargir erlendir gestir. Sumir efasemdarmenn þorðu ekki að afskrifa spádómana. Forvitnin hvatti marga áfram.

1503811_689545944400638_1876182678_n


Í DV var skrifað:

Bandarísk kona, búsett í Noregi, segir 51 prósents líkur á heimsókn geimveranna og annar útlendingur bætti við að þær þyrftu ekki endilega að sjást, fólk mundi finna nærveru þeirra. En það voru ekki allir jafn hrifnir af væntanlegri heimsókn geimveranna. Kona í Grundarfirði sagði: „Ég vil allavega ekki mæta svona verum ef þær koma. Maður getur átt á hættu að vera numinn á brott. Ég er hálfhrædd.“

En konan þurfti ekki að vera hrædd. Engar geimverur létu sjá sig. Yfir 500 manns biðu í kulda og éljagangi talsvert lengi. Sumir sögðust sjá einhver ljós á himnum en ekkert geimfar kom á áætluðum tíma klukkan 21:07 og ekki síðar heldur. Hjá hópnum var mikið húllumhæ, flugeldum var skotið á loft og flestir skemmtu sér vel þrátt fyrir þessi vonbrigði. Nokkrir urðu þó fúlir og töldu að fjölmiðlafár og ljósagangur hafi valdið því að engin geimför lentu á jöklinum þetta kvöld.

geimverur2


Sagt var frá málinu í útvarpsþætti Lemúrsins á Rás 1. Hlustið á hann hér.