Nú þegar runnin er upp fyrsti sunnudagur í aðventu er ekki úr vegi að huga aðeins að jólum og jólamat. Margir eru enda komnir í jólaskap eftir að útvarpsstöðvar og verslanir byrjuðu að auglýsa komu jólanna í byrjun nóvember. En nóg um það.

 

Á meginlandi Evrópu er fátt jólalegra en hinir svokölluðu jólamarkaðir. Hafa þeir reyndar rutt sér til rúms á Íslandi á undanförnum árum, bæði í Hafnarfirði og við Hljómalindarreitinn í Reykjavík, og því ber að fagna.

 

Eitt er það þó sem vantar á þessa íslensku jólamarkaði, eitthvað sem þeir sem hafa kynnst evrópsku mörkuðunum sakna væntanlega sárlega. Þar er átt við jólaglöggið, eða það sem Frakkar kalla einfaldlega „vin chaud“ og Þjóðverjar kalla ,,Glühwein.“ Það er alveg einstaklega notalegt að fá heitt vínið í kroppinn þegar kalt er í veðri svo ekki sé minnst á ilminn sem dreifir sér langt fyrir utan mörk markaðarins sjálfs. Yndisleg angan af kanil, negul og appelsínuberki sem kveikir óumdeilanlega í jólaskapi bragðlaukanna.

 

Annað sem einkennir jól á meginlandinu er sú ríka áhersla sem lögð er á árstíðabundna matreiðslu (seasonal cooking). Þar með er einfaldlega átt við það, að matreiða og borða sem mest þær afurðir sem eru ferskar – nýskornar upp eða nýslátrað.

 

Perur teljast til þessara afurða sem eru bestar nú um stundir og því mun hér fylgja uppskrift af perurétti, sem er reyndar byggð á uppskrift fransk-breska matreiðslumeistarans Michel Roux yngri, sem starfar á veitingastaðnum Le Gavroche í Lundúnum. Le Gavroche var einmitt fyrsti veitingastaðurinn á Bretlandseyjum til að hljóta þrjár Michelin-stjörnur.

 

Til eru um 30 tegundir af perum sem eru taldar ætilegar, en ef til vill óþarfi að lengja það mál hér. Í Evrópu er vinsælasta perutegundin einfaldlega kölluð Evrópska peran, en slíkar perur má auðveldlega finna í íslenskum stórverslunum. Uppskerutími þeirra er á haustin, en strax í byrjun september fyllast matarmarkaðir af gómsætum perum. Gæði þeirra eru í hámarki í mánuðunum sem enda á –ber, og því eru þær tilvalið jólagóðgæti. Eru perur oftar en ekki soðnar upp úr rauðvíni, en það er einmitt það sem hér verður stungið upp á.

 

Í þessa uppskrift er betra að nota perur sem eru nokkuð harðar þegar þreifað er á þeim, vanþroskaðar ef svo má að orði komast (svona eins og Kexvexmiðjan). Séu þær of mjúkar myndast hætta á að þær maukist hreinlega niður.

 

Það sem þarf (fyrir 4):

2 perur

hálf flaska af rauðvíni

kanilstöng

negulnagli

appelsínubörkur

100-150 gr sykur

smjördeig

gráðaostur (roquefort, stilton eða gamli íslenski)

 

Aðferð:

Afhýðið perurnar en skiljið stikilinn eftir. Leggið þær í meðalstóran pott og hellið rauðvíninu yfir. Vínið þarf ekki að þekja perurnar alveg. Hendið kanilstöng, negulnagla og appelsínuberki (um 4 cm stykki, flysjað)út í og þvínæst sykrinum. Þessi blanda má malla við lágan hita í ca. 30 min með lokið á pottinum. Athugið að snúa perunum reglulega svo þær dragi í sig sem mest af víninu.

 

 

Á meðan perurnar malla í jólablönduni er gott að fletja út smjördeigið. Gott er að hafa deigið ferhyrnt og munið að gata það vel með gaffli, svo það blási ekki út í ofninum. Bakið deigið við 200° C, uns það tekur á sig gullinbrúnan lit.  Skerið deigið í um 15×10 ca. plötur – ekki ósvipaðar þeim sem Bandaríkjamenn kalla „pop-tart.“

 

Perurnar ættu þá að vera tilbúnar. Dragið þær upp úr og skerið í helminga, og fjarlægið því næst kjarnan og stikilinn. Helmingarnir eru því næst skornir í um 1 cm sneiðar og eru þeir lagðir á smjördegisplötunar. Dreifið síðan gráðaosti yfir perurnar og skreytið diskinn með gáðu káli, fersku spínati til dæmis. Ef vill má dreifa muldum hnetum, valhnetum eða pistasíum, en þær fara einstaklega vel með bæði perum og gráðaosti. Að lokum er sýrópinu sem myndaðist úr vínblöndunni dreift yfir allt saman.

 

 

Þetta er einstaklega heppilegur jólaréttur, þó ekki væri nema bara til að fá unaðslega jólalyktina í eldhúsið og út á götu.