Loksins er komið að því. Bestu ferða-og matarþættir veraldar, No Reservations, eru komnir í loftið á ný. Áhugafólk um ferðalög sem og matarperrar um víða veröld fagna, og það gerir Mahlzeit svo sannarlega líka. Fyrsti þáttur 8. seríu af No Reservations fór í loftið síðastliðið mánudagskvöld, annan dag páska, en þættina má auðveldlega nálgast á youtube myndbandavefnum. Þeir sem eru svo heppnir að vera með aðgang að Travel Channel geta svo einfaldlega límt sig fyrir framan sjónvarpsskjáinn á mánudagskvöldum.

 

Eilífðartöffarinn Anthony Bourdain er sem fyrr hjartað og höfuðið á bak við þessa frábæru þætti. Í tilefni þessarra gleðifrétta mun Mahlzeit velja fimm bestu þætti No Reservations frá upphafi, svona til léttrar upphitunar.

 

Quebec, Kanada.

 

Tony heimsækir frönskumælandi hluta Kanada og hittir fyrir Martin Picard, kokk og einn mesta hedónista sem gengið hefur á þessari jörð. Á veitingastað Picards, Au Pied de Cochon í Montreal, snæðir Bourdain máltíð sem er í senn ein sú girnilegasta sem sést hefur – en einnig sú ógeðfelldasta… eða, segjum frekar hættulegasta. Foie Gras erótík í sinni hreinustu mynd.

 

Vídjó

 

Cleveland, Ohio. Bandaríkjunum.

 

Tony fer með „erkióvini“ sínum, matargagnrýnandanum Michael Ruhlman, á heimaslóðir hins síðarnefnda. Bourdain á erfitt með að trúa því að einhvers konar matarmenning þrífist í iðnaðarborginni Cleveland, enda hefur borgin oft verið á listum þeirra borga sem þykja hvað síst eftirsóknarverðar til að búa í – eða ferðast til. En viti menn, ævintýrin leynast víða – jafnvel í Cleveland. Tony hittir fyrir Harvey Pekar, sem skrifaði teiknimyndasögurnar American Splendor. Margir muna eflaust eftir því þegar Paul Giamatti gerði Pekar ódauðlegan í samnefndri kvikmynd frá árinu 2003. Tony fer einnig í Frægðarhöll rokksins, sem er af einhverjum ástæðum í Cleveland. Þar fylgist hann með því þegar uppáhaldshljómsveitin hans, The Ramones, er tekin inn í frægðarhöllina og hittir fyrir Marky Ramone, eina „bróðirinn“ sem er enn á lífi. Ramone fer svo létt með að borða Bourdain undir borðið, sem er sko ekki heiglum hent.

 

Vídjó

 

Food Porn. 

 

Tony hefur gert fjölmarga þætti sem eru hugsaðir út fyrir kassann. Í þessum þætti leiðir hann okkur í sannleikann um það sem titillinn gefur til kynna, að matur og matarafurðir hafa í raun svipuð, eða sömu, áhrif á líkama okkar og þegar ástarleikir eru stundaðir. Í þessum þætti má sjá bókstaflega unaðslega rétti, syndsamlega dýrar og eftirsóttar afurðir, framreiddar af nokkrum af helstu snillingum eldhússins í dag.

 

Vídjó

 

Prag, Tékklandi.

 

Það er eitthvað svo heimilislegt og huggulegt við þáttinn þegar Bourdain heimsækir Prag, höfuðborg Tékklands. Það sem ber hæst er auðvitað bjórinn, en Tékkar eru sérfræðingar þegar kemur að bjórframleiðslu… og bjórdrykkju, auðvitað. Þar er svínakjöt aðalmálið, í hvaða formi og mynd sem er. Bourdain er sumsé á heimavelli með sínar tvær eftirlætisafurðir, áfengi og svín. Er hann nokkuð einn um það? Svo má auðvitað ekki gleyma að Prag er ævintýralega falleg útaf fyrir sig. Og já, við fáum að vita að Vaclac Havel var aðdáandi Velvet Underground. Sem er gott fyrir alla.

 

Vídjó

 

Cajun Country, Louisiana. Bandaríkjunum.

 

Þessi þáttur lætur kannski ekki mikið yfir sér. Bourdain heimsækir New Orleans, djassborgina sem er enn að jafna sig eftir Katrínu, fellibylinn og flóðið sem fylgdi í kjölfarið árið 2005. Tony hittir leikarann Wendell Pierce, sem margir muna eftir sem Bunk úr tímamótasjónvarpsþáttunum The Wire. Pierce er alinn upp í New Orleans og þekkir borgina eins og lófann á sér, og það sama má segja um djassinn. Hann útskýrir uppruna djassins, og Tony kemst að því að matarmenning New Orleans hafi líklega orðið til með sama hætti – úr suðupotti blandaðra menningarheima. Tony fer einnig út í sveit, og fer á sveitaball. Veislugestir hefja daginn með því að slátra svíni og eyða síðan deginum í því að vinna svínið… ALLT svínið. Um kvöldið er bragðað á landa (moonshine), borðað, skálað, spilað, sungið og dansað. Þvílík veisla!

 

Vídjó

 

 

Muna svo, No Reservations með Anthony Bourdain. Bestu „lífsstílsþættir“ veraldar. Ganz klar, keine Frage.