Þeir sem séð hafa meistaraverk á borð við Dr. Strangelove, 2001: A Space Odyssey og A Clockwork Orange ættu ekki að vera ókunnugir hinu einstaka sjónræna næmi og hugmyndaflugi sem einkennir höfundarverk Stanley Kubrick.

Því kemur það lítt á óvart að áður en að leið hans lá í kvikmyndagerð hafi hinn ungi Kubrick unnið sem ljósmyndari, bæði sjálfstætt starfandi en einnig á vegum tímaritsins Look.

Eftirfarandi ljósmyndir í svarthvítu gefa forsmekkinn að útliti og yfirbragði fyrstu kvikmynda hans, ekki síst Killer’s Kiss (1955) og The Killing (1956).

 

Reipin utan um boxhringinn beina augunum að miðju myndarinnar – hinum samankreppta líkama boxarans Walter Cartier. 1948, Museum of the City of New York.

 

Hinn danski sirkúsmaður Rasmus Nielsen, sem kom fram undir nafninu Tough Titty. 1948, Museum of the City of New York

 

Ung stúlka með dúkku - hluti af seríunni New York Life. 1947, Museum of the City of New York.

 

Ungur drengur klifrar yfir girðingu - hluti af seríunni Shoeshine Boys. 1947, Museum of the City of New York.

 

Rosemary Williams undirbýr sig fyrir sýningu - Kubrick fylgist með líkt og fluga á vegg. 1948, Museum of the City of New York.

 

Næstu ljósmyndaseríu vann Kubrick árið 1949 fyrir tímaritið Look. Heiti greinarinnar var Chicago – borg andstæðnanna (myndir í eigu Library of Congress).

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Næsta rökrétta skrefið í átt að kvikmyndagerð var síðan gerð heimildamynda, sem gaf svo góða raun að Kubrick sagði upp starfi sínu sem ljósmyndari hjá Look. Fyrsta leikna kvikmynd hans var Fear and Desire (1953), en fyrir hana skammaðist hann sín svo að seinna meir neitaði hann að leyfa sýningu hennar á kvikmyndahátíðum og kom í veg fyrir dreifingu hennar. Eitt eintak varðveittist þó í safni fyrirtækisins sem sá upprunalega um framköllun myndarinnar og hafa ólögleg eintök svo gengið manna á milli undanfarna áratugi.

Íslenskum kvikmyndaunnendum til ómældrar ánægju var hún sýnd á (ólöglegu) Kubrick-maraþoni samtakanna sálugu Bíó-Reykjavík í Loftkastalanum árið 2003. Myndin var síðan sýnd í fyrsta sinn í sjónvarpi nú í desember, á stöðinni Turner Classic Movies.