Uppfinningamaðurinn Thomas Edison (1847-1931) á heiðurinn af nær óteljandi uppfinningum. Auk þess að vinna ómetanlegt starf í þróun rafmagnsveitu og raflýsingar hafði hann mikinn áhuga á ljósmyndun, kvikmyndun og ekki síst hljóðritun.

 

Edison smíðaði árið 1877 fyrsta hljóðritann, sem hann nefndi „phonograph“. Það er þessi furðulega vél sem uppfinningamaðurinn stillir sér upp með á ljósmyndinni hér að ofan.

 

Þó hljóðgæðin hefðu ekki verið upp á marga fiska var það gífurlega mikilvæg uppfinning því hún leyfði mönnum loksins að geyma hljóð; raddir, tónlist, fuglasöng og hvað sem er. Ein elstu skrifin sem til eru á íslensku um þessa ótrúlegu nýju tækni er grein sem birtist í Þjóðólfi 15. febrúar 1879, um tveimur árum eftir að Edison fann upp hljóðritann. Í henni var hljóðritinn sagður ný undravél sem „geymi bergmálið“:

 

Nýar uppgötvanir  

Sá, sem nú er frægastur allra ýngri hugvitsmanna er Edison, maður miðaldra í Bandaríkjunum. Á fáum árum hefir hann uppgötvað ótal undravélar. Meðal þeirra eru merkastar: telefóninn, fónografinn og míkrofóninn.

 

Telefóninn er málþráður, sem ekki einungis flytur milli tveggja staða hristinginn, svo vélin, sem tekur við, rispi orðin, heldur hljóðið sjálft. Á þennan hátt geta menn nú heyrt hver annars málróm, þó sinn sé í hvoru héraði.

 

Fónografinn er ekki rafvél, heldur einskonar hljóðvél, sem talað er í, og sem tekur við orðunum og gefur þau aptur eins og skýrt bergmál, en þó ólík klettunum að því, að hún getur geymt bergmálið, ef „dregið er fyrir“, þó menn vildu í þúsund ár. Ef þá er dregið frá, hleypur sama hljóðið eptir sama tónstiga út úr vélinni aptur talandi sömu orð og í sama rómi sem áður var talað inn.

 

List þessi er byggð á næmri hljóðhimnu í vélinni, sem má hreifa og stöðva eptir vild þess er á hana. Míkrófóninn eykur hljóðið (heyrnina) á sinn hátt eins og stækkunarglerið stækkar mynd hlutanna fyrir auganu. Gangur melflugunnar eptir gleri heyrist gegnum þá vél eins skýrt og gangur hests á grjóti. Báðar hinar síðarnefndu vélar eru að sögn bæði einfaldar og ódýrar.

 

Upptökurnar sem gerðar voru með hljóðritanum voru geymdar í vaxhólkum. Margt hefur varðveist en hljóðgæðin eru afar léleg fyrir smekk okkar nútímamannanna. En það er engu að síður mjög áhugavert að hlusta á þær. Að heyra hljóð frá nítjándu öldinni færir okkur nær henni, rétt eins og ljósmyndir gera.

 

Edison sendi menn sína út um allar trissur og lét taka upp merka atburði og raddir frægra manna. Hér eru nokkur dæmi.

 

 

Vídjó

4000 manna kór syngur „Ísrael í Egyptalandi“ eftir Georg Friedrich Händel í Crystal Palace í London hinn 29. júní 1888. Upptaka gerð með hljóðrita Edison.

 

 

Vídjó

Elsta upptaka sem vitað er um með rödd Bandaríkjaforseta. Hér talar Benjamin Harrison, forseti frá 1889 til 1893, í hljóðrita.

 

 

Vídjó

Ungverskir dansar Jóhannesar Brahms (1833–1897) eru með frægustu verkum vestrænnar tónlistarsögu. Dansana samdi Brahms árið 1869. Hér er upptaka á frá árinu 1889 þar sem tónskáldið sjálft spilar brot úr fyrsta dansinum á píanó. Lesið nánar um það.

 

 

Vídjó

Rússneska tónskáldið Pjotr Tsjaíkovskíj og vinir hans bregða hér leik. Upptakan er frá 1890.

 

 

Rödd járnkanslarans

Vídjó

Járnkanslarinn Otto von Bismarck, sem sameinaði Þýskaland undir stjórn Prússa, var einn sögufrægasti maður nítjándu aldarinnar. Og nú getum við heyrt hann tala þökk sé vaxhólkum sem nýlega fundust með upptöku af járnkanslaranum að tala í Edison-hljóðrita.

 

Theo Wangemann, aðstoðarmaður Edison, fór til Evrópu árið 1889 og gerði þar áðurnefnda upptöku með rödd Brahms. Hann fór líka í kastala Bismarcks í Friedrichsruh nálægt Hamborg.

 

Eiginkona kanslarans heillaðist af hljóðritanum og manaði húsbóndann til að láta taka upp rödd sína. Bismarck fór með línur úr þekktum kvæðum og söngvum, til dæmis In Good Old Colony Times á ensku og Gaudeamus Igitur. Og líka línur úr ljóðinu Als Kaiser Robart lobesam og franska þjóðsönginum La Marseillaise.

 

Þetta er það sem Bismarck segir:

In good old colony times,

When we lived under the King,

Three roguish chaps fell into mishaps

Because they could not sing.

 

Als Kaiser Rotbart lobesam

Zum heil’gen Land gezogen kam,

Da mußt er mit dem frommen Heer

Durch ein Gebirge wüst und leer.

 

Gaudeamus igitur,

juvenes dum sumus.

Post jucundam juventutem,

post molestam senectutem

nos habebit humus.

 

Allons enfants de la Patrie

Le jour de gloire est arrivé

Contre nous de la tyrannie

L’étendard sanglant est levé.

 

Treibe alles in Maßen und Sittlichkeit, namentlich das Arbeiten, dann aber auch das Essen, und im Übrigen gerade auch das Trinken.

Rat eines Vaters an seinen Sohn.