Ung sænsk kona, Berit Wallenberg, tók merkilegar ljósmyndir á Alþingishátíðinni 1930 – sem haldin var á Þingvöllum í tilefni af því að 1000 ár voru liðin frá stofnun Alþingis.

 

Ein þessara mynda sýnir tvö hross glíma – þau virðast jafnvel faðmast. Ljósmyndin er frábær heimild um mjög umdeildan atburð sem varð á þjóðhátíðinni 1930. Það var hestaatið sem fór fram á Þingvöllum hinn 27. júní.

 

Hestaat? Hvað er nú það?

 

Sá siður að etja saman hestum á sama hátt gert er með hana í hanaati var útbreiddur á Norðurlöndum á víkingatímum. Hér á landi virðist hestaat eða „hestaþing“ hafa verið vinsælar skemmtanir. Í Njálu er sagt frá hestaþingum og voru hestarnir sem kepptu kallaðir víghestar. Gunnar á Hlíðarenda var til dæmis stoltur eigandi víghests.

 

Mun orðtakið að leiða saman hesta sína vera dregið af þessu.

 

Með tímanum hættu Íslendingar að stunda hestaþing – þau voru ekki vel séð af kirkjunnar mönnum – og skráir Jón Espólín sagnaritari að síðasta hestaat Íslandssögunnar hafi farið fram í Vindhólanesi í Fnjóskadal um 1625.

 

Mynd Berit Wallenberg af hestaatinu á Þingvöllum.

 

En árið 1930 stóð Daníel nokkur Daníelsson fyrir því að endurvekja þennan löngu horfna sið og skipulagði hestaat á sjálfri Alþingishátíðinni. Það fór fram að loknum kappreiðum. Morgunblaðið flutti fregnir af þessu:

 

Hlakkaði fólk mikið til að sjá það og hafði þegar áður en seinasta hlaupi lauk valið sjer staði í brekkunum þar í grend. En atið mishepnaðist að mestu, og verði háð hestaat aftur, þá þarf að haga því á annan hátt en hjer var gert.

 

Daníel Daníelsson var harðlega gagnrýndur í ræðu og riti fyrir þetta uppátæki. Gagnrýnin byggðist ýmist á dýraverndunarsjónarmiðum eða því að hestaöt væru ekki „samboðin kristnum mönnum“.

 

Daníel svaraði með varnargrein  sem birtist í Fálkanum nokkrum misserum síðar og birti mynd með.

 

Myndin sem Daníel birti til að sýna fram á fegurð hestaatsins.

 

„Myndin, sem hjer er sýnd af hestaati, er tekin i Bolabás, af folum þeim sem þar áttust við. Eins og sjá má á myndinni eru hestarnir að rísa upp til atlögu, en ekki farnir að bítast, en stilling sú, sem þeir eru í er það fögur, að hún verður aðkoma fyrir almenningssjónir.

 

Það hafa verið skiftar skoðanir manna um hestaat þetta. […]

 

Gamalt máltæki segir: „Það er vandratað meðalhófið“.

 

Og af því jeg hafði það hugfast þá eg kom með folana i Bolabás í sumar, duldist mjer ekki að hvorki jeg nje folarnir mundu gera það sem öllum líkaði, enda kom það á daginn.

 

Þar voru menn, sem heimtuðu að sjá folana bítast og berjast svo þeir yrðu flakandi í sárum og blóði drifnir, og töldu alt annað kák og hjegóma.

 

Þar voru aðrir sem mótmæltu atinu, og töldu það glæpsamlegt og á móti guðs og manna lögum.

 

Sanngjarnir menn hljóta því að sjá, að jeg átti í vök að verjast, og fyrir mig var því vandratað meðalhófið.

 

Jeg tók því það ráð, að knýja folana lítið fram, en láta þá sem mest eigast við eftir eigin geðþótta.

 

Mörg af áhlaupunum sem folarnir gerðu voru prýðisfalleg, en lýstu ekki mikilli grimd.

 

Það er talið ljótt af glímumönnum að sýna fautaskap í glímu; eins tel jeg ljótt, að etja graðhestum það mikið saman, að þeir rifi og berji hver annan til stórskemda.

 

Til þess að unun sje að horfa á hestaöt þurfa hestarnir að vera sem jafnastir, því þá rísa þeir mest upp, en sjeu þeir ójafnir, rennur sá, sem er minni máttar og leitast aðeins við að berja með afturfótunum og er það ljót sjón.

— Hjer tala jeg af reynslu, því jeg varð fyrir fola af því tagi í vetur.

 

Hefði jeg haft þann fola á atinu í Bolabás mundi hann hafa orðið þar mörgum manninum skeinuhættur, því svo tróðst fólkið að folagirðingunni, en hún var ekki þann veg gjörð, að hún þyldi stór og tíð högg.

 

Það er enginn vandi, að fá graðhesta til að bitast og berjast, til þess þarf ekki annað en hafa hryssur nálægt, eða berja folana, þá stendur ekki á því, að þeir sýni grimd, en þá er leikurinn orðinn ljótur. Fallegt at getur aðeins fengist með því að æfa jafna fola saman, þvi þá fyrst sýna þeir list en ekki grimd.

 

En til þess, að það megi takast þarf að velja úr mörgum folum, og hafa hentugt svæði til að æfa þá á, þá getur leikurinn vakið aðdáun hjá sæmilega vitibornum áhorfendum.

 

Hvort þetta verður síðasta at, sem háð verður hjer á landi, skal jeg ekki leiða getur að, en hinsvegar tel jeg þau holla hestaíþrótt.

 

Dan. Daníelsson.“

 

Efsta myndin er klippt úr Æskunni, árg. 1982.