Í fjarlægri framtíð rekur ónefndur geimsiglingafræðingur raunir sínar eftir nöturlega geimferð. En ekki er allt sem sýnist.
Lesið íslenska „smásögu úr framtíðinni“ hér fyrir neðan. Tímaritið Fálkinn birti hana í júní 1964 með viðvörun um „að taugaveiklað fólk ætti að láta þessa sögu alveg eiga sig“.
Ingibjörg Jónsdóttir (1933-1986) var afkastamikill rithöfundur og þýðandi. Hún sendi meðal annars frá sér ástar- og spennusögur, barnabækur og þýddi fyrstu 30 bindi norska sagnaflokksins Ísfólksins eftir Margit Sandemo, þess mikla bálks sem fjallar um norrænt fólk í yfirnáttúrulegri fyrndinni.
Með sögunni sem við sjáum hér, Síðustu ferðinni, og fleiri verkum, hellti Ingibjörg sér einnig út í vísindaskáldskap. Og ekki bara fyrir fullorðna. Hún skrifaði líka leikritið Ferðina til Limbó sem var sýnt á fjölum Þjóðleikhússins 1966 og fjallar um tvær mýs sem sendar eru til plánetu á milli jarðarinnar og tunglsins.
Kjarnorkusprengju varpað á Reykjavík
Lítið var um útgáfu íslensks vísindaskáldskapar lengst af á 20. öldinni og langt leið á milli þeirra. Og sama gildir um furðusagnir almennt, til dæmis hrollvekjur og fantasíur. Á 21. öldinni hefur útgáfu íslenskra vísindaskáldsagna fjölgað. Ef til vill má spyrja hvers vegna ekki sé enn meira á boðstólum af slíku efni, nú þegar vísindaskáldskapur almennt litar menningu okkar sem aldrei fyrr, á sjónvarpsskjánum og náttborðinu. Finnst okkur kannski bjánalegt að lesa um geimferðir, vélmenni og gervigreind á okkar ástkæra ylhýra máli?
Vísindaskáldsögur skipuðu löngum lægri sess í heimsbókmenntunum. Þegar Síðasta ferðin birtist árið 1964 hafði það þó breyst. Geimkapphlaupið og tækniframfarir í hversdagslífi hins almenna borgara hjálpuðu til við að skjóta slíkum sögum í meginstraum vestrænnar menningar.
Bandaríski vísindaskáldsöguhöfundurinn Isaac Asimov sagði að kjarnorkusprengjurnar í Hiroshima og Nagasaki 1945 hefðu loksins gert sviðið virðingarvert. Og á sjöunda áratugnum blómstraði vísindaskáldskapur sem aldrei fyrr með bókum Arthur C. Clarke, Philip K. Dick, Robert Heinlein, Kurt Vonnegut, Ursula Le Guin, Stanislaw Lem og fleiri „alvöru“ höfunda.
Þó íslenskir rithöfundar hætti sér lítt inn á sviðið á tímabilinu má nefna þrjár bækur í flokki dystópía — það eru sögur um óhugnanlega framtíð — sem út komu með stuttu millibili. Snaran eftir Jakobínu Sigurðardóttur frá 1968 fjallar um Ísland í framtíðinni, landi sem er stjórnað af erlendum öflum og þar sem stóriðja helsti atvinnuvegurinn. Í Leigjandanum dregur Svava Jakobsdóttir upp dökka mynd af veru Bandaríkjahers á Íslandi, með myndlíkingu manns sem flytur inn á heimili ungra hjóna.
Bók Ingibjargar Jónsdóttur, Konurnar pukruðu og hvísluðust á frá 1971, hefur litla umfjöllun fengið, eins og Harpa Rún Kristjánsdóttir rekur í meistararitgerð sinni um íslenskar dystópíur. Verkið siglir undir „fölsku flaggi“ sem ástarsaga en sagan gerist eftir að kjarnorkusprengju hefur verið varpað á Reykjavík og borgarbúar streyma út á land. Sagan er til á bókasöfnum víða um land og við mælum með henni.
Sunnlendingar verða að plágu fyrir norðan, þeir búa í tjaldbúðum og draga fram lífið á nábjörgum. Yfir vofir óttinn við afleiðingar sprengjunnar, sjúkdóma, náttúruvá og vansköpuð börn. Sagan fylgir tveimur pörum sem eiga í flóknum ástarþríhyrningi, en lausung þeirra er eitt af upphafstáknum ógnarinnar sem seinna dynur á. Fólkið er óhamingjusamt og kalt og ástin sem sagan kennir sig við virðist í besta falli holdleg, ef nokkur. Aftur á móti er í bókinni að finna hatramma ádeilu á kjarnorkustríð og afleiðingar slíkrar ógnar. Samfélagið sem birtist í bókinni er sundrað og jaðrar við stjórnleysi hungurs og örvæntingar.
Harpa Rún Kristjánsdóttir, Er mannskepnan missir völdin, 2018.
Geimverur á Esjunni
Ferðin til stjarnanna, sem Kristmann Guðmundsson sendi frá sér undir dulnefni árið 1959, fjallar um miðaldra framhaldsskólakennarann Inga Vítalín sem numinn er brott af geimverum, var líklega þekktasta íslenska vísindaskáldsagan á síðustu öld.
Eins og Ármann Jakobsson rakti í fróðlegum formála þegar Ferðin til stjarnanna var endurútgefin hjá Lesstofu árið 2012, voru geimferðir árið 1959 á hvers manns vörum. Sovétmenn höfðu sent tíkina Laiku út í geim nokkrum misserum fyrr og áhugi fyrir slíkum frásögnum mikill. Bókin hlaut þó minni velgengni en Kristmann vonaði, en efnistök hennar komu íslenskum lesendum líklega allfurðulega fyrir sjónir.
[Ingi Vítalín] finnur hjá sér óstjórnlega þörf til að ganga á Esjuna. Hún reynist vera viðkomustaður lífvera á hærra vitundarstigi, frá jarðstjörnunni Laí. Ingi ferðast síðan með Laímönnum um geiminn, sækir heim ýmsa hnetti og samfélög […] Aðalsögusviðið bókarinnar er fyrirmyndarsamfélagið á Laí þar sem glæpir og sjúkdómar eru útlægir. Laíbúar eru herraþjóð og ráða yfir frumstæðum samfélögum á öðrum hnöttum en íbúarnir sýna þeim fullkomna undirgefni. Þannig er þessi heimur samt sem áður stéttskiptur þó að græðginni hafi verið útskúfað. Eins og búast mátti við af Kristmanni skipta ást og kynlíf talsverðu máli í bókinni og þannig séð mætti flokka hana með rómantískum vísindaskáldskap.
Ármann Jakobsson, Ferðin til stjarnanna, formáli, 2012.
Kristinn skrifaði framhaldsverkið Ævintýri í himingeimnum 1960 og sjálfstæða vísindaskáldsögu Stjörnuskipið: Geimferðasaga, en hvorug bókin sló í gegn, frekar en sú fyrsta.
Nær óþekktar fyrri sögur
Ein allra fyrsta íslenska vísindaskáldsagan var Frá öðrum hnetti eftir Þorstein Stefánsson, sem út kom 1935. Höfundur segir frá lífi við íshaf á annarri plánetu sem líkist mjög jörðinni. Smásagan Norðanveðrið eftir Ólaf við Faxafen frá 1940 lýsir tímaferðalagi til ársins 1991 þegar íbúar Íslands eru orðnir 500 þúsund.
Eins og þetta stutta yfirlit sýnir voru bókaskápar ekki troðfullir af íslenskum vísindaskáldsögum þegar Ingibjörg skrifaði söguna hér fyrir neðan árið 1964.
Rétt er að taka fram að hinn dularfulli Þórarinn Gunnarsson er ekki íslenskur.
En hvernig finnst ykkur smásaga Ingibjargar?
Svipmyndir frá ritunartíma Síðustu ferðarinnar. Bandarísk sprengjuflugvél lendir á Keflavíkurflugvelli, mynd könnunarfars af tunglinu og stofnun Ríkissjónvarpsins. Og fyrsta tölva Háskóla Íslands árið 1964.
Síðasta ferðin eftir Ingibjörgu Jónsdóttur
Mér er svo sem sama, þó ég tali um þetta við ykkur. Ég… já, ég vil gjarnan segja ykkur, hvað skeði. Kannski mér líði betur á eftir.
Kannski ég segi ykkur það allt saman. Það er gott að létta á hjarta sínu, þó það sé svo sem ekkert áunnið við það.
Ég veit að þið hlæjið bara að mér.
Og þó… Kannski tekst mér að sannfæra ykkur. Þá verð það ég, sem hlæ.
Já, þá skal ég hlæja — mikið og lengi.
Eða gráta… kannski ég gráti heldur.
Ég veit vel, að það er heimskulegt að segja lausu starfi sínu eftir rúmlega tuttugu ára þjónustu, samt get ég ekki annað. Nei, ekkert, sem þið segið eða gerið getur breytt þessari ákvörðun minni.
Ekkert.
Jú, ég get vel skilið, að ykkur langi til að vita orsakirnar fyrir uppsögninni.
Auðvitað finnst ykkur einkennilegt, að maður, sem hefur verið svo lengi ánægður með starf sitt skuli allt í einu vilja breyta um og setjast í helgan stein.
Ég skil það eins og ég sagði áðan.
Það er bara ekki svo auðvelt að segja ástæðurnar fyrir uppsögninni. Það er nefnilega ekki neitt sérstakt — ekki neitt áþreifanlegt — það er bara eitthvað svona innra með mér, sem krefst þess að ég segi upp.
Mér fannst ég mega til.
Jú, ég geri mér ljóst, að ég fyrirgeri rétti mínum til eftirlauna með því að segja upp. Ég veit líka, að það verður erfitt fyrir mann á mínum aldri að fá jafn vel launað starf og þetta er. Og ég á það stóra fjölskyldu, að ég hef ekkert lagt fyrir.
Ekki baun.
Kannski var það fyrirhyggjuleysi, en ég hef alltaf verið því fylgjandi að lifa í dag en ekki á morgun. Ég tek ekki peningana með mér í gröfina og krakkarnir bjarga sér einhvern veginn.
Þau hafa ekki gott af því, að allt sé lagt upp í hendurnar á þeim síðar meir. Þau verða bara sterkari á að berjast sjálf.
Það er alls ekki ykkur að kenna, að ég skuli segja upp. Það segi ég dagsatt. Þið hafið alltaf komið vel fram við mig. Vitanlega er ég ekki svo lítill karl, að ég ætli að fara að vinna hjá einhverjum keppinaut ykkar.
Slíkt gerir maður ekki.
Ég er að segja upp til að hætta alveg.
Já, ég ætla að setjast í helgan stein eins og þið sögðuð svo fyrirlitslega áðan. Ég fer ekki í aðra langferð eftir það sem skeði í þessari.
Nei, ferðin var ekki svo mikið erfiðari en margar aðrar, sem ég hef farið í og þó…
Eitt er að berjast við erfiðar aðstæður og annað að eiga i stríði við félaga sína. Og ég reifst bæði við skipstjórann og lækninn.
Jú, þið hafið alltaf greitt mér góð laun fyrir mín störf enda veit ég ekki til þess að neinn hafi kvartað undan því, hvernig ég vann þau.
Ég held ég hafi bara staðið mig vel.
Svo það er þess vegna, sem ykkur er svona illa við að missa mig. Einmitt það já.
Jú, reyndir geimsiglingafræðingar eru ekki á hverju strái, en einhvern tíma þurfa þeir ungu og óreyndu að fá reynsluna.
Ráðið þá. Ætlið þið að hækka við mig kaupið? Hvers vegna haldið þið eiginlega, að ég hafi gefið mig í þetta? Haldið þið, að það hafi verið peningarnir — áhættuþóknunin og allt það, sem lokkaði mig?
Þá skjátlast ykkur illilega.
Ég hugsa, að enginn okkar myndi gefa sig í þetta vegna peninganna einna. Nei, það er ævintýralöngunin, sem knýr okkur áfram. Útþráin, sem er okkur öllum í blóð borin. Ykkur ekki síður en mér, þó þið hafið hamlað gegn henni, en ég látið undan.
Hvað lokkar jafn mikið og ókunn lönd?
Konan mín kvartaði oft undan þessu fyrst eftir að við giftum okkur. Svo vandist hún því.
Hún sagði stundum, að það hefði verið bærilegra að bíða ósigur fyrir annarri konu en fyrir geimnum, köldum og myrkum.
Kannski var það líka rétt, að geimurinn og geimferðirnar væru mín eina sanna ást. Kannski var allt hitt hjóm.
En þið ættuð að skilja það, herrar mínir, að mér er alvara, þegar ég segi ykkur í dag, að ást mín er horfin og ekkert er eftir.
Ekki neitt.
Mér finnst ég vera tómur, mig vantar eitthvað. Ég veit hvað það er, sem mig vantar, en ég get aldrei öðlast það aftur og ég verð að lifa það, sem eftir er sem hálfur maður. Innantómur.
Ég er orðinn heimakær.
Nei, ég tek ekki þessa ákvörðun vegna þess að skipstjórinn varð óður. Það getur komið fyrir beztu menn. Það gæti komið fyrir mig og ykkur.
Stundum finnst mér nú orðið, að ég eigi eftir að fara sömu leið og hann.
Nei, nei, nei. Ekki af sömu ástæðu og hann. Karlinn var skrítinn. Hann er alltof næmur sá maður.
Sjúklega næmur.
Jú, við neyddumst til að setja hann í bönd á heimleiðinni. Hann varð bandóður.
Má ég annars ekki segja ykkur alla söguna eins og hún er?
Sko, þetta hófst allt eftir að við kortlögðum þriðja sólkerfið okkar.
Við kortleggjum þrjú sólkerfi í hverri ferð. Ég veit, að þið vitið það, en þið megið ekki vera óþolinmóðir herrar mínir. Þetta kemur allt með tímanum.
Leyfið þið mér að segja söguna með mínum orðum og eins og mér hentar.
Það gengur bezt.
Þetta var ósköp venjulegt sólkerfi — eiginlega frekar ómerkilegt. Alls ekki á neinn hátt frábrugðið mörgum öðrum.
Það voru aðeins níu plánetur og nokkur tungl. Gul sól.
Við fundum fjölskrúðugt dýralíf á einni plánetunni. Á hinum fundum við bara þennan venjulega mosa, smávegis plöntugróður, bakteríur og annað álíka.
Ekkert, sem var þess virði að taka það með sem sýnishorn.
Sko svo rákumst við á dýrin. Þið hafið séð myndir af þeim og vitið því, að þau voru ekki ósvipuð okkur í útliti.
En alls ekki vitsmunaverur.
Nei, alls ekki. Það megið þið ekki halda, þó skipstjórinn hafi sagt eftir að hann varð óður… þó ég ímyndi mér stundum… nóg um það.
Við lentum á hálendinu. Á eyju. Það var fallegt þar. Hrikaleg fegurð. Há fjöll. Djúp vötn.
Við fundum dýrin við eitt vatnið. Sennilega voru þau að hvíla sig eftir að þau voru búin að drekka. Þau lágu þarna grafkyrr á bakinu og við höfðum lítið fyrir að handsama þau.
Skipstjórinn sá um það allt saman með sinni alkunnu snilld.
Hann firðflutti þau í búrin — öll á einu bretti — eins og ég sagði áðan er hann næmur karlinn. Næmari en gengur og gerist. Það eru ekki allir, sem hafa þann hugans kraft að geta firðflutt fjögur fullvaxta dýr í einu.
Ég hefði þurft að taka þau í tveimur ferðum.
Svo tókum við með okkur vatn handa þeim.
Nei, við gátum ekki notað okkar vatn handa þeim. Læknirinn efnagreindi vatnið og sagði að okkar vatn myndi drepa þau á skömmum tíma.
Ég veit ekki hvers vegna hann fann það út — ég er enginn efnafræðingur — sjálfsagt hafa verið í því einhver eiturefni, sem dýrin hefðu ekki þolað.
Læknirinn var sérfræðingurinn en ekki ég. Þetta voru annars einkennileg dýr. Það hefði mátt álíta, að þau væru ekki sem vitlaus.
Þau þutu alltaf upp að rimlunum, þegar við komum inn til þeirra. Stóðu þar og héldu utan um rimlana með krumlunum og gáfu frá sér undarleg hljóð með munninum.
Ég veit að það er sameiginlegt einkenni allra dýra að gefa frá sér undarleg hljóð með munninum. Það eru bara menn eins og við, sem tala saman með því að lesa hugsanir hvers annars.
Það eru líka aðeins dýr, sem láta rimla og veggi hindra sig í að fara allra sinna ferða.
En tók það okkur mennina ekki langan tíma að þroskast? Voru ekki forfeður okkar eins og þessi dýr? Gátu þeir flutt hluti borga á milli með huganum einum saman?
Nei, það gátu þeir ekki. Slíkt sanna sögurannsóknir okkar. Þeir notuðu bifreiðar, lestir og flugvélar.
Það er tiltölulega stutt síðan við urðum eins og við erum. En notum við eyrun til að hlýða á hljómlist og annað slíkt. Við tölum að vísu ekki lengur, en við myndum ekki hafa heyrn, ef við hefðum ekki einu sinm framleitt hljóð eins og þessi dýr til að tjá okkur hvort öðru.
Kannski var það geislavirknin eftir styrjöldina miklu, sem orsakaði þetta.
Ekki veit ég það. Ég er ekki sagnfræðingur og heldur ekki erfðafræðingur.
Ég er aðeins geimsiglingafræðingur.
Hins vegar fer ég ekki aftur með það, að mér fannst læknirinn óþarflega harður. Ég kenni honum satt að segja hvernig fór með skipstjórann.
En læknirinn áleit það skyldu sína að rannsaka dýrin eins vel og honum var unnt. Svona ef þau skyldu ekki lifa ferðina af.
Hann bauð okkur skipstjóranum að vera viðstaddir kvikskurð annars kvendýrsins.
Þetta skeði daginn áður en skipstjórinn missti vitið.
Nú, við stóðum þarna og horfðum á hann. Fyrst eftir að við komum inn þyrptust dýrin að rimlunum og ýlfruðu og öskruðu.
Óþægilega hátt. Alveg eins og þau væru að reyna að tala við okkur.
Læknirinn firðflutti annað kvendýrið — þau voru tvö og tvö karldýr — yfir á skurðborðið og ólaði það þar niður.
Svo hóf hann kvikskurðinn.
Fyrst í stað veinaði kvendýrið afskaplega og mér finnst satt að segja enn þá að læknirinn hefði átt að gefa því eitthvað svæfandi. Það er ekki skemmtilegt að hlusta á dýr kveljast svona.
En læknirinn benti mér á að þetta væri aðeins skynlaus skepna. Hann sagðist læra meira á því að deyfa ekki neitt.
Smátt og smátt urðu hljóðin í kvendýrinu veikari og veikari.
Loks hættu þau alveg.
Skipstjórinn varð eitthvað ókyrr. Hann er svo næmur fyrir tilfinningum annarra. Það fylgir með þegar menn eru móttækilegir eins og hann.
Stundum hefur hann lesið hugsanir dýra. Já, það er ótrúlegt en engu að síður satt.
Ég trúi því að minnsta kosti, þó enginn annar hafi fengist til að trúa honum.
En hann hafði verið viðstaddur kviðskurði fyrr.
Ég skil þetta eiginlega ekki. Ég á við, hvers vegna hann sleppti sér daginn eftir.
Hann reyndi að kyrkja lækninn. Hrópaði að hann hefði myrt konuna sína.
Ég varð að slíta hann af lækninum og við hjálpuðumst að við að leggja karlinn í bönd.
Hann veinaði og grét alla heimleiðina og mér skilst að hann veini enn.
En læknirinn getur gefið ykkur nákvæmari skýrslu um þetta en ég. Hann er sérfræðingurinn. Því ég segi þetta með svo mikilli fyrirlitningu. Hvort mér sé illa við lækninn eða hvað?
Ja, mér er að minnsta kosti ekki vel við hann. Ég veit eiginlega ekki hvers vegna, en mér er ekki beint hlýtt til hans sem stendur.
Kannski er það vegna þess hvernig hann lét, þegar ég…
Já, það er annað, sem ég verð að segja fyrst. Daginn eftir, þegar ég ætlaði að gefa dýrunum að drekka voru vatnsgeymarnir tómir.
Ég veit að fullir vatnsgeymar tæmast ekki af sjálfu sér og eftir að ég hafði gengið úr skugga um að þeir lækju ekki, talaði ég við messastrákinn.
Hann var eitthvað svo undurfurðulegur og sakbitinn á svipinn.
Strákræfillinn hafði verið forvitinn og legið á skráargatinu meðan læknirinn krufði kvendýrið.
Það var líka ógætni af lækninum að hafa ekki innri hurðina fyrir svo herbergið væri hljóðeinangrað. Hann hefði mátt vita að strákurinn gæti ekki á sér setið.
Og hann er bara unglingur. Og dýravinur eins og margir drengir.
Hann sagði mér, að hann hefði heldur viljað dýrin dauð en svona farið með þau.
Ég bið ykkur um að taka ekki hart á drengnum. Hann er ekki nema barn.
Hann hafði ekki enn nægilegan kraft til að flytja dýrin út í geiminn en vatnið gat hann flutt.
Hann vissi að engin dýr gætu lifað án vatns í hálfan mánuð og þá áttum við hálfsmánaðar ferð heim. Hann flutti vatnið út í geiminn í smáslöttum og við vorum alveg hjálparlausir.
Hérna heima hefðum við getað eimað eiturefnin úr vatninu, en um borð í skipinu höfðum við engin tæki til þess.
Læknirinn vildi rannsaka dýrin betur áður en við dræpum þau. Það var ekkert vit í að láta þau drepast úr þorsta.
En ég gat ekki hugsað mér að kvelja þau.
Ég laumaðist inn til þeirra meðan læknirinn svaf. Satt að segja var engu líkara en blessaðar skepnurnar skildu, hvað var á seyði.
Þau öskruðu ekki og ýlfruðu heldur stóðu grafkyrr upp við rimlana meðan ég firðflutti þau út fyrir skipið.
Þau frusu vitanlega í hel á örfáum sekúndum úti í helkulda geimsins.
En það var þó hreinlegur dauðdagi.
Ég byrjaði á kvendýrinu.
Læknirinn ætlaði að tryllast, þegar ég sagði honum, hvað ég hefði gert.
En mér stóð á sama. Ég sagði honum mína meiningu umbúðalaust.
Ég skal nefnilega segja ykkur eins og er. Því er þannig varið að enn þann dag í dag heyri ég hljóðin í karldýrinu meðan læknirinn kvikskar maka þess og gerði ekkert til að lina þjáningar hennar.
Ég vakna stundum í svitabaði og hugsa um það, hvernig mér hefði liðið, ef einhver hefði farið þannig með konuna mína.
Þó þetta séu skynlausar skepnur, þá eru takmörk fyrir öllu…
Ég ætla að spila fyrir ykkur af segulbandi hljóðin, sem karldýrið gaf frá sér.
Sko, þarna heyrið þið, hvernig þau ýlfra og öskra, þegar við komum inn og nú kemur þögnin, sem varð fyrst eftir að lækinirinn firðflutti kvendýrið yfir á skurðarborðið og nú fer kvendýrið að veina og nú — nú heyrið þið í karldýrinu: „INGA, INGA, Ó, GUÐ MINN GÓÐUR — INGA.“
Heimild: Fálkinn, 22. júní 1964. Myndskreytingu við söguna gerði Ragnar Lár.