Hvað ef Alþingishúsið hefði risið í Bankastræti? Hvað ef járnbrautarstöð væri á Snorrabraut? Og hvað ef „háborg íslenskrar menningar“ hefði risið á Skólavörðuholtinu?

 

Ein helsta þverstæða sögunnar er að áður en atburðir gerast finnst okkur ómögulegt að spá hvað gerist næst. En þegar þeir eru liðnir finnst okkur allt saman hafa verið óumflýjanlegt. Þetta hlaut bara að fara svona!

 

Þegar sagan er svo nánar skoðuð kemur í ljós að margt gerðist fyrir einskæra tilviljun eða vegna tíðaranda á einstökum tíma.

 

Slíkar bollaleggingar eru fljótar að vakna við lestur á glæsilegri nýrri bók: Reykjavík sem ekki varð eftir Önnu Dröfn Ágústsdóttur og Guðna Valberg. Þau hafa kafað ofan í skipulagssögu höfuðborgarinnar og dustað rykið af ýmsum skipulagshugmyndum fortíðarinnar sem komust aldrei af teikniborðinu.

 

LEMÚRINN settist niður með Önnu Dröfn og Guðna og fékk að heyra eitt og annað um Reykjavík, og hvernig hún hefði getað orðið.

Reykjavik-sem-ekki-vard kapa

 

Anna Dröfn er sagnfræðingur og Guðni er arkitekt og þau mynda því sniðugt teymi í þessum rannsóknum. Þau hafa viðað að sér miklum upplýsingum, teikningum og ljósmyndum sem gera bókina einstaklega læsilega og forvitnilega.

 

Í bókinni eru líka snilldarlega gerðar þrívíddarmyndir af byggingum sem aldrei risu. Þessar myndir, sem eru nánast óhugnanlega raunverulegar, valda furðulegum hughrifum. Lesandanum finnst nánast eðlilegt að stór stjórnarráðsbygging í steinsteypukubbastíl sé á Bernhöftstorfunni og að Alþingishúsið standi í Bankastræti.

 

Lemúrinn birtir efst í greininni eina af þessum frábæru myndum. Hin svokallaða „háborg íslenskrar menningar“ með stórum opinberum byggingum í nýklassískum stíl umkringja Skólavörðuholtið og í miðjunni er stór kirkja sem lítur út fyrir að vera nokkurra alda gömul. Smellið á myndina til að sjá hana stærri.

 

Vatnslitateikning Haborgin

 

Hér fyrir ofan má sjá hvernig Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, sá fyrir sér „háborg íslenskrar menningar“ á Skólavörðuholti. Teikningin er frá árinu 1924 og titluð Skipulag Reykjavíkur – Skólavörðuhæðin.

 

Anna Dröfn og Guðni benda á að sambærileg torg megi finna á Norðurlöndunum, til að mynda Senatstorgið í Helsinki en auk þess megi greina áhrif frá Amalíuborg í Kaupmannahöfn. Þau segja að nýklassísk áhrif megi hugsanlega rekja til þess að nánast engin slík hús var að finna á Íslandi. Þrátt fyrir að stefnur og straumar í evrópskum arkitektúr væru ef til vill að færast í nútímalegri átt vildi Guðjón bæta borgarlandslagið með byggingum í stíl sem þekktist í velflestum borgum á meginlandinu.

 

Sýn Guðjóns snerist að miklu leyti um hugmyndina um að helstu stofnanir Íslands ættu að vera nokkurn veginn á sama stað. Á myndinni horfum við frá Skólavörðustíg, þar sem má sjá myndarlegt bæjarhlið með súlum.

 

Beggja vegna við súlnagöngin eru sýnd íbúðarhús en í dag er hótelið Leifur Eiríksson vinstra megin við Skólavörðustíginn en íbúðarhús hægra megin. Efst á teikningunni má sjá stúdentagarð og Háskóla Íslands.

 

Guðni segir að húsið sem má sjá efst hægra megin, hafi átt að hýsa öll helstu söfn landsins. „Safnahúsið átti að geyma Listasafn Íslands, Þjóðminjasafn og Náttúrugripasafn. Í dag er leikskóli á sama svæði, Grænaborg, en hugmyndir voru uppi um tíma að reisa þar borgarbókasafn og Kjarvalshús.“

 

Neðst hægra megin er Listasafn Einars Jónssonar sýnt í stækkaðri mynd. Anna segir að Einar hafi gjarnan verið kallaður frumbyggi á holtinu. „Listasafnið opnaði 1923 og var það þá eina húsið á háholtinu. Átta árum áður hafði Guðjón gert tillögu að safnhúsi fyrir Einar á öðrum stað á holtinu en upp úr því samstarfi slitnaði vegna ágreinings. Einar leitaði því á náðir nafna síns Einars Erlendssonar sem teiknaði húsið eins og við þekkjum það í dag í samstarfi við myndhöggvarann.“

 

Vinstra megin á myndinni má sjá Listvinafélagshús, samkomuhús og barnaskóla. Samkomuhúsið gat samkvæmt Guðjóni einnig verið leikhús og má sjá nokkur líkindi þess við Þjóðleikhúsið.

 

Haborgin skipulag 1925
Hér má sjá skipulag Skólavörðuholtsins frá árinu 1925 eftir Guðjón Samúelsson. Á þessum tíma var lítil sem engin byggð á því svæði sem hér sést. Athygli vekur að sjá hugmynd um Hringbraut, sem átti, eins og nafnið gefur til kynna, að vera braut umhverfis Reykjavík – ekki ólíkt því sem þekkist í mörgum stórborgum Evrópu eins og París eða Vín.

 

Lengst til hægri má sjá nokkuð sem gaman hefði verið að sjá rísa, en það er brautarstöð við götuna sem í dag heitir Snorrabraut. Brautarstöðin var hluti af járnbrautakerfi sem náði frá Öskjuhlíð til Reykjavíkurhafnar, en frá Öskjuhlíð var flutt grjót til hafnarbyggingar.

 

Farþegalest átti að leysa þessa lest af hólmi og voru hugmyndir uppi um að lestarteinarnir áttu að ná alla leið í Hafnarfjörð frá Öskjuhlíðinni. Guðni segir að þessi hugmynd hafi verið langt á veg komin, en forgangsröðun yfirvalda hafi að lokum komið í veg fyrir að draumurinn um íslenskt lestarkerfi yrði að veruleika. „Það er athyglisvert að við Skemmuveg í Kópavogi má enn finna steina sem voru höggnir fyrir járnbrautateina. Verkamenn fengu það verkefni að höggva þessa steina í atvinnubótavinnu á kreppuárum fjórða áratugarins.“

 

Á myndinni má einnig sjá hugmynd að íþróttavelli, skammt frá þar sem senn mun rísa viðbót við Sundhöll Reykjavíkur við Barónsstíg. Sundhöllin átti hins vegar að rísa ögn ofar við sömu götu, milli Leifsgötu og Egilsgötu, eða þar sem í dag er Barónsstígur 49 til 57. Sundhöllin átti upphaflega að vera í burstabæjarstíl, en fjallað er nokkuð ítarlega um sögu hennar í bókinni. Þar sem Heilsuverndarstöðin er í dag var gert ráð fyrir íþróttasvæði, tennisvelli og tveimur knattspyrnuvöllum.