Sjálfsmynd da Vincis.

Sjálfsmynd Da Vincis.

Leónardó Da Vinci (1452–1519) er ef til vill flestum kunnur fyrir að hafa málað Mónu Lísu, eitt þekktasta málverk sögunnar. En þessi merki hugvitsmaður fékkst einnig við allar helstu listir og fræði síns tíma. Hann var í senn málari, myndhöggvari, arkítekt, tónsmiður, stærðfræðingur, verkfræðingur og líffræðingur, og svo einstaklega framsýnn uppfinningamaður — hinn sannkallaði endurreisnarmaður.

 

Gríðarlegt magn af skrifum, skyssum og teikningum meistarans var tekið saman í tólf bindi á síðari hluta 16. aldar og nefnist safnið Codex Atlanticus.  Í Codex Atlanticus er meðal annars að finna teikningar af sérkennilegu hljóðfæri úr hugarheimi Da Vincis sem hann nefndi viola organista — víóluorgel. Víóluorgelið átti að vera eins konar fótknúið orgel sem lék á strengi líkt og fiðla, en eftir því sem heimildir geta var það aldrei smíðað á lífsskeiði Da Vincis.

Teikning af víóluorgeli eftir Hans Haiden, frá árinu 1575.

Teikning af víóluorgeli eftir Hans Haiden, frá árinu 1575.

 

Árið 1575 var svipað hljóðfæri smíðað af Hans Haiden, þýskum hljóðfærasmið frá Nuremberg. Haiden nefndi hljóðfærið Geigenwerk og þess er getið í heimildum frá 17. öld. Engin slík hljóðfæri hafa þó varðveist fram á okkar tíma.

 

Pólski píanóleikarinn og hljóðfærasmiðurinn Slawomir Zubrzycki hefur nú látið af því verða að búa til þetta hljóðfæri eftir þessum gömlu teikningum. Smíðin tóku hann þrjú ár og meira en fimm þúsund klukkustundir af striti.

 

Forvitnir hlustendur fengu loksins að njóta afraksturs vinnu hans á tónleikum í Kraká í Póllandi í október 2013. Útkoman olli ekki vonbrigðum — hljóðfærið gefur frá sér undurfagra tóna og hljómar eins og sérkennileg blanda af sembali, sellói, víólu og orgeli. Á tónleikunum flutti Zubrzycki nokkur vel valin barrok-verk eftir Carl Friedrich Abel, en þá má sjá hér:

 

Vídjó

 

Hér sjást hjólin sem strengirnir snerta.

Hér sjást hjólin sem strengirnir sem snerta.

Víóluorgelið er knúið með fótafli. Pedalar að neðan snúa fjórum hjólum með hrossahárum, en þau hafa áferð sem svipar til fiðluboga. Fyrir ofan þau hvíla rúmlega sextíu strengir. Þegar slegið er á nótu á hljómborðinu ýtist viðkomandi strengur niður á hjólin og úr verður þessi einstaki hljómur.

 

Hér er viðtal við Slawomir Zubrzycki um þetta merkilega hljóðfæri og eiginleika þess. Viðtalið er á pólsku en hægt er að kveikja á enskum texta með því að smella á CC í spilaranum.

 

Vídjó

 

Að neðan má svo sjá teikningar af víóluorgeli Da Vincis úr Codex Atlanticus:

 

 

 

Violaorganista

 

Teikning af víóluorgeli eftir Hans Hyden, frá árinu 1575.

Teikning af Nürmburger Geigenwerk eftir Hans Haiden, frá árinu 1575.