Árið 1704 var óhugnanlegt morð framið í grennd við Reykjavík. Morðingjarnir, Sigurður og Steinunn, voru dæmd til dauða. Hann var hálshöggvinn og höfuð hans sett á staur öðrum til viðvörunar. Henni var drekkt. 

 

Gegnt Bústaðakirkju var eitt sinn bærinn Bútsstaðir. Raunar heitir Bústaðahverfið, og kirkjan þar með einnig, eftir Bútsstöðum en einhverntímann á seinni árum hafa t og s víxlast. Til er þjóðsaga um Þorgarð nokkurn, vinnumann á bænum Bútsstöðum.

 

Segir þjóðsagan að vinnumaðurinn Þorgarður hafi haldið við konuna á bænum Bútsstöðum. Eitt vetrarkvöld sneri bóndinn ekki heim en fannst látinn nokkru seinna við Elliðaár og er talið næsta víst að Þorgarður hafi ráðið honum bana. Þorgarður var dæmdur til lífláts en með því ákvæði að geta keypt sér líf gegn hárri fjárhæð.

 

Þá var sagður hafa búið á Seli á Seltjarnarnesi mjög ríkur maður Jón að nafni sem Þorgarður á að hafa leitað til til að greiða lausnargjaldið. En einmitt þegar er Jón taldi peningana við eldhúsborðið kom kona Jóns inn og sagði þarfari hluti við peningana að gera en gjalda fyrir líf Þorgarðs. Varð úr að gjaldið var ekki greitt og Þorgarður þá fluttur úr landi á báti. Báturinn fórst fyrir Austfjörðum og komst enginn af. Er Þorgarður sagður ganga aftur og ásækja afkomendur Jóns og konu hans.

 

Skýringin á þjóðsögunni

Handan Elliðaárdalsins við tvíbýlið Árbæ er uppruna þjóðsögunnar að finna – og hún er ekki svo gömul. Árið 1704 bjuggu á öðrum hluta landsins Sæmundur Þórarinsson, um fertugt ættaður fra Grímsnesi, og kona hans Steinunn Guðmundsdóttir, ríflega fertug.

 

Hún hafði verið tvígift áður, og var Sæmundur þriðji maður hennar. Fyrsti maður Steinunnar hét Bergur og með honum átti hún tvö börn, Guðmund, tvítugan og Guðrúnu, 19 ára. Miðmaður hennar hét Erlendur og eignuðust þau einn son Berg að nafni, sjö ára. Voru þessi þrjú börn hennar á heimilinu, en þeim Sæmundi hafði ekki orðið barna auðið. Á hinum hluta jarðarinnar bjó Sigurður Arason, 26 ára gamall, og móðir hans Guðrún Grímsdóttir, um 65 ára, og unglingsstrákurinn Oddur Böðvarsson.

 

Vegalengdin milli Bútsstaða og Árbæjar. Mynd Google Maps.

Á milli Bútsstaða og Árbæjar þurfti að fara yfir Elliðaárdalinn. Mynd Google Maps.

 

22. september 1704 kom Sigurður að bæjunum Bútsstöðum og Breiðholti og sagði Sæmund hafa lagt af stað degi fyrr og ætlað að bænum Hraunsholti en ekki skilað sér þangað. Þá fóru fjórir menn af bæjunum með Sigurði að leita og fundu þeir lík Sæmundar undir Skötufossi í Elliðaánum: „var hann náfölur í andliti, sem þeir menn er á þurru deya, en eigi bólginn, sem druknaðir menn, og ekki rann heldur vatn úr munni honum.

 

Sigurður tilkynnti samferðamönnum sínum að Steinunn hafi óskað þess að ekki yrði snúið aftur til Árbæjar með líkið, skyldu þeir finna bónda hennar dáinn, heldur yrði það jarðsett svo fljótt sem auðið væri. Sæmundur var því grafinn skömmu síðar.

 

Ekki leið á löngu áður en orðrómur komst á kreik um að dauða Sæmundar hefði ef til vill borið að með saknæmum hætti. Sigurður á þá að hafa leitað til prestsins, Þórðar Konráðssonar að Mosfelli, og beðið hann að aðstoða sig við að hreinsa mannorð sitt. Sigurður og Þórður riðu saman til næstu bæja; Lambastaða, Skildinganess og að Nesi og töluðu máli Sigurðar. Að því loknu hélt Sigurður út í Örfirisey að róa á sjó.

 

Yfirvöld hefja rannsókn
Þann 17. október skrifaði Níels Kjær (d. 1730) sýslumaður Páli Beyer amtmanni (d. 1717) bréf og spurði hvort handtaka ætti Sigurð vegna orðrómsins. Sigurður var handtekinn degi seinna en neitaði að hafa haft nokkuð með dauða Sæmundar að gera. Hvergi var hægt að hafa hann í gæslu þannig að amtmaðurinn úrskurðaði að Sigurður skyldi fluttur milli bæja og vakað yfir honum hverja nótt.

 

Teikning af Jóni Vídalín (1666-1720) biskup.

Teikning af Jóni Vídalín (1666-1720) biskup.

 

Nokkrir dagar liðu og vildi Sigurður enga misgjörð viðurkenna. Þá brá Páll á það ráð að senda bréf til Jóns Vídalíns biskups (1666-1720) og biðja um leyfi til þess að grafa upp lík Sæmundar til frekari athugunar. Jón svaraði bréfinu 24. október. Í því gagnrýndi hann Þórð Konráðsson prest fyrir grandvaraleysi, sagði líklegt að Sæmundur hefði verið myrtur og veitti leyfi sitt fyrir því að líkið yrði grafið upp. Páll fór með þessi tíðindi til Sigurðar sem breytti framburði sínum og viðurkenndi að hafa orðið Sæmundi að bana.

 

Skissa úr Morgunblaðinu frá 1995.

Skissa úr Morgunblaðinu frá 1995.(Morð við Skötufoss, Helgi M. Sigurðsson. Lesbók Morgunblaðsins 21. október 1995)

 

 

Fyrir dómi viðurkenndi Sigurður að hafa myrt Sæmund með því að hafa sagst ætla með honum að veiða í hylnum við Skötufoss en þegar þangað var komið hrint honum út í með rúmfjöl sem hann hafði haft meðferðis. Sagðist hann hafa gert þetta að áeggjan Steinunnar. Þessi frásögn virðist þó stangast á við málsgögn sem þegar hafa komið fram, það er að Sæmundur hafi fundist náfölur en ekki bólginn líkt og drukknaðir menn. En hafi Sigurður barið Sæmund til dauða með rúmfjölinni ætti líkið að bera þess skýr merki. Því virðist sem að dánarorsök Sæmundar í raun verið drukknun.

 

Í fyrstu vildi Steinunn ekki viðurkenna þátt sinn en lét þó undan. Þá voru þau flutt saman í hlekkjum út á Seltjarnarnes og málinu vísað til dóms.

 

Refsing ákvörðuð
Páll Beyer amtmaður átti erfitt með að ákvarða hæfilegan dóm yfir Steinunni þar sem hún átti ekki beinan þátt í ódæðinu. Hann skrifaði því Jóni Vídalín biskup aftur en einnig Árna Magnússyni (1663-1730), sem þá var einnig á Skálholti og leitaði ráða þeirra. Svarbréf þeirra beggja eru dagsett 12. nóvember og eru þau sögð svo lík að víst megi vera að þeir hafi borið saman bækur sínar.

 

Árni Óla segir svo frá: „Biskup segir í bréfi sínu að hann trúi því ekki að nokkrum dómara komi til hugar að láta slíka glæpamanneskju lífs sem Steinunn sé. Hér sé ekki um venjulegt manndráp að ræða heldur viðbjóðslegt morð, sem mundi vera talið níðingsverk og óbótamál samkvæmt lagakaflanum um Mannhelgi. Það spilli málstað konunnar, að hún hafi lengi drýgt ljótan og viðurstyggilegan lifnað með morðingjanum. Hann telur ósæmilegt að slíkar manneskjur fái legstað í vígðri mold því það stríði mót Kristinrétti, sem harðlega banni að þjófar og morðingjar og þess háttar fólk fái kirkjuleg. Að lokum segir hann að líkamar þeirra ætti að urðast við alfaraveg, þar sem allir gæti séð dysjarnar.

 

Árni Magnússon handritasafnari (1663-1730).

Árni Magnússon handritasafnari (1663-1730).

 

Árni Magnússon segir orðrétt í svarbréfi sínu til Beyers amtmanns:

 

Jeg fæ ekki annað sjeð en að sú siðspilta kona, sem hefur fengið annan til að myrða mann sinn, eigi að dæmast til dauða, og ekki mundi jeg hika við það ef jeg væri dómari […]“

 

Svo kalla og íslensk lög það níðingsverk að drepa maka sinn, en það hefur þessi kona sannarlega gert, þótt hún notaði annars hönd til þess. Það spillir og málstað hennar að hún fyr og síðar (að því er mjer er tjáð) hefur haldið við banamanninn. Jeg fæ ekki skilið hvað getur fríað hana við að missa höfuðið.

 

og gæti dómarinn forsvarað í dómi sinum að dæma höfuð þeirra sett á stöng, öðrum til viðvörunar, eins og iðulega er gert í Danmörku. Því að þetta er ekki venjulegt manndráp. Konan hefur svo að segja með blíðu sinni keypt mann til að fyrirfara eiginmanni sínum alsaklausum.“

 

Sigurður Björnsson lögmaður (1643-1723) þingaði um málið 14. nóvember 1704. Sigurður og Steinunn voru bæði dæmd til dauða. Skyldi Sigurður hálshöggvinn og höfuð hans stjaksett en Steinunni drekkt. Bæði skyldu dysjuð við almannaveg. Sigurður var höggvinn „skamt frá túngarði, norður frá þinghúsinu“ en Steinunni var drekkt í Kópavogslæknum. Þau voru svo dysjuð skammt frá almannavegi þannig að vegfarendur gætu kastað steinum þangað. Höfuð Sigurðar var sett á staur við dys hans. Áður fyrr voru glæpamenn hafði til sýnis með slíkum hætti til þess að hræða aðra frá glæpum.

 

Fornleifarannsókn

Árið 1988 var gerð fornleifarannsókn vegna vegaframkvæmda á Hjónadysjum, sem svo voru kölluð, og eru við Hafnarfjarðarveg. Líklegt var talið að þar lægju Sigurður og Steinunn en engin rannsókn hafði farið fram.

 

Hjónadysjar 1988 fyrir uppgröft.

Hjónadysjar 1988 fyrir uppgröft. Ljósmynd úr Morgunblaðinu.(Sakamannadysjar í Kópavogi, Guðmundur Ólafsson. Lesbók Morgunblaðsins 23. mars 1996)

 

Mynd tekin á svipuðum stað 4. maí 2014.

Mynd tekin á svipuðum stað 4. maí 2014.

 

Kvenmannslíkið sem þar var grafið var „um 1,75 m langt, hafði verið lagt til í gröfinni með krosslagða fætur. Hendurnar voru í nokkuð óvenjulegum stellingum. Vinstri höndin lá aðeins á ská niður yfir magann. Hægri höndin hvíldi hins vegar upp að brjósti, hugsanlega með krepptan hnefa. Höfuðkúpan lá við herðar beinagrindarinnar eins og við mátti búast, en samt í einkennilegri stellingu miðað við hin beinin. Við hnakkann á höfuðkúpunni lá ein framtönn og tveir hálsliðir voru úr lagi færðir.“ Telja má líklegt að poki hafi verið settur yfir höfuð Steinunnar þegar henni var drekkt og við umbrotið sem því fylgdi hafi tönn brotnað úr munni hennar sem fylgdi henni í dysið þar sem pokinn var ekki leystur frá.

 

Líkamsleifar Steinunnar Grímsdóttur. Ljósmynd úr Morgunblaðinu.

Líkamsleifar Steinunnar Grímsdóttur. Ljósmynd úr Morgunblaðinu.(Sakamannadysjar í Kópavogi, Guðmundur Ólafsson. Lesbók Morgunblaðsins 23. mars 1996)

 

 

Í öðru dysi fannst beinagrind sem á vantaði höfuðkúpu. „Til fóta sást greinilegt far eftir 9 cm breiða holu á milli nokkurra steina. Bendir flest til þess að þarna hafi verið settur staur ofan í gröfina þegar gengið var frá henni. Stórum steinum hafði verið hlaðið upp að staurnum til að styðja við hann. Ætla má að afhöggvið höfuð hins látna hafi verið fest á staur þennan öðrum vegfarendum til viðvörunar. Af höfuðkúpuleifunum sem fundust þarna rétt undir yfirborði virðist sem höfuðið hafi verið óáreitt á staurnum þar til það féll til jarðar af eðlilegum ástæðum; hugsanlega var staurinn orðinn fúinn eða veðruð beinin stóðust ekki lengur veður.og vind og féllu niður á dysina.

 

Líkamsleifar Sigurðar Arasonar. Ljósmynd úr Morgunblaðinu.

Líkamsleifar Sigurðar Arasonar. Ljósmynd úr Morgunblaðinu.(Sakamannadysjar í Kópavogi, Guðmundur Ólafsson. Lesbók Morgunblaðsins 23. mars 1996)

 

 

Þetta sorglega mál  minnir um margt á „Bróðurmorðið“ 1913 sem höfundur hefur einnig fjallað um hér á Lemúrnum. Í báðum málunum var nákomnum komið fyrir kattarnef fyrir áeggjan elskhuga. Í seinna málinu, ríflega tveimur öldum seinna hafði þróast vísir að borgaralegu réttarríki hér á landi og eftirmálarnir réttlátari fyrir málsaðila.

 

Heimildir