Farandsýningar voru vinsælar alþýðuskemmtanir í Bandaríkjunum allt frá seinni hluta nítjándu aldar fram að kreppunni miklu. Stórir sirkusar á borð við Barnum & Bailey og Hagenbeck-Wallace-sirkusinn ferðuðust með járnbrautum milli bæja og skemmtu fyrir fullum dyrum. Saga okkar hefst þann 12. september 1916 þegar Sparks-sirkusinn kom til Kingsport í Tennessee í Bandaríkjunum.

 

Tímabilið 1890 til 1920 hefur verið nefnt tímabil framsóknar (e. progressive era) í Bandaríkjunum. Í Evrópu geysaði fyrri heimsstyrjöldin en Bandaríkin gerðust ekki þátttakendur í henni fyrr en ári seinna. Árið 1914 höfðu verð á landbúnaðarvörum aldrei verið hærri og í sveitum Bandaríkjanna var mikill uppgangur.

 

Sagt er að Sparks-sirkusinn hafi samanstaðið af 15 járnbrautarlestum. Hann stóð ekki 42 lestum sirkuss John Robinson’s Four Ring Circus and Menagerie á sporði — en það hefur engu að síður verið spennandi tilbreyting fyrir þær þúsundir sem að öllum líkindum tóku á móti Sparks-sirkusnum þennan dag við komu þeirra. Kingsport  í Tennessee var í örum vexti, bærinn var ekki með í manntalinu 1910 en árið 1920 eru 5.692 skráðir í Kingsport og tíu árum seinna, árið 1930 bjuggu 11.914 þar.

 

Helsta aðdráttarafl Sparks-sirkusins var asískur fíll, Mary að nafni, sem vó heil fimm tonn. Degi fyrr hafði maður að nafni Red Eldridge verið ráðinn til þess að sinna sirkusfílunum. Hann hafði verið ráðinn sem staðgengill reynslumeiri umsjónarmanns. Að sögn hafði Red enga reynslu af því að sinna dýrum en skemmtanaiðnaðurinn hugnaðist honum.

 

Murderous Mary - Sparks Circus ad in JC paper

 

Sirkusinn gekk um götur Kingsport með Mary í broddi fylkingar. Á einum stað kom hún auga á vatnsmelónu og teygði ranann í átt að henni. Red stakk þá með oddhvössum stjaka á viðkvæman blett bakvið eyru Mary eins og honum hafði verið kennt að gera til þess að hafa stjórn á henni. Mary brást ókvæða við misþyrmingum þessa ókunnuga manns og henti honum af sér í einu vettfangi og kramdi hann til bana — kramdi höfuð hans eins og vatnsmelónu.

 

Það var ákveðið í skyndi að Mary skyldi ráðinn bani, en hvernig átti að taka fíl af lífi? Fílar eru með þykkan skráp og ekki dugar að hleypa af byssu nokkrum sinnum til þess að drepa fíl.

 

Þrettán árum fyrr, þann 4. janúar 1903, hafði bandaríski vísindamaðurinn og uppfinningamaðurinn Thomas Edison leyst þetta vandamál með því að nota 6600 volta riðstraum til þess að aflífa fílinn Topsy. Í Kingsport var ekki til nægilega öflugt raforkudreifikerfi til þess að aflífa Mary með rafmagni. Það mannúðlegasta sem þeim datt í hug var að nota einn af þeim risastóru krönum sem notaðir höfðu verið til þess að leggja járnbrautir til þess að hengja fílinn. Til þess þurfti að ferðast um 60 km leið til smábæjarins Erwin í Tennessee þar sem slíkan krana var að finna.

 

Screen Shot 2013-07-07 at 13.34.10

 

Í umfjöllun blaða í kjölfarið var því haldið fram að Mary hefði orðið allt frá tveimur til sjö öðrum mönnum að bana. Þegar Mary var undirbúin fyrir aftökuna var hún tjóðruð föst niður og þegar kraninn hóf hana á loft í fyrra skiptið er sagt að gleymst hafi að losa hana og hún hafi því verið teygð þangað til að eitthvað gaf sig og hún féll á jörðina og hryggbrotnaði. Því hafi þurft tvær tilraunir til þess að hengja hana.

 

mary

 

 

Hanging Over Erwin er stutt heimildamynd um andlát fílsins Mary og áhrif þess á samfélagið í bænum í dag: