Þýskaland árið 1929. Virtur arkitekt leggur til í fúlustu alvöru að þurrka skuli Miðjarðarhafið upp til að nota botn þess sem ræktunarland. Og að gríðarstór stífla verði reist í Gíbraltarsundi og margvíslegar breytingar verði gerðar á stórum svæðum í Evrópu og Afríku. Þetta var Atlantrópuáætlunin.

 

Öld öfganna var titill bókar breska sagnfræðingsins Eric Hobsbawm um sögu heimsins á tuttugustu öld. Þetta kann mörgum að þykja réttnefni enda var hún eitt grimmdarlegasta tímabil mannkynssögunnar. En hún var einnig öld gríðarlegra framfara og tækninýjunga og ekki síst öld nýrra hugmynda.

Herman Sörgel (1885-1952)

 

Ein sú ótrúlegasta var hugmynd þýska arkitektsins Hermans Sörgel um hina svokölluðu Atlantrópu. Hugmyndina fékk hann eftir að vísindamenn höfðu uppgötvað að botn Miðjarðarhafsins hafi eitt sinn verið þurrlendi og að Gíbraltar hefði þá líklega verið tengt Afríku með landbrú.

 

Í grófum dráttum fólst hugmynd Sörgels í því að stífla Gíbraltarsund og lækka þannig yfirborð Miðjarðarhafsins um ca. 200 m. Við það myndi vinnast gríðarlega stórt landssvæði (flatarmál þess yrði svipað og sameiginlegt flatarmál Frakklands og Belgíu í dag) sem nothæft væri síðan til ræktunar. Stíflan átti að geta framleytt allt að 110.000 megawött af rafmagni (sem myndi samsvara tæplega 160 Kárahnjúkavirkjunum).

 

Sörgel vildi þó ekki láta þar við sitja. Að hans mati var offjölgun alvarlegasti vandinn sem steðjaði að Evrópu. Evrópumenn þyrftu því að hefja að nýju landvinninga í Afríku og breyta Sahara eyðimörkinni í frjósamt ræktunarland með því að búa til tvö innhöf, eitt í miðri Sahara eyðimörkinni og annað í Kongó-lægðinni.

 

Á þessari mynd sést hvernig lónið í kringum Feneyjar átti að verða að stöðuvatni sem tengt væri við Miðjarðarhaf með skipaskurði, brú á milli Sikileyjar og Túnis, og óhjákvæmileg lenging Súezskurðar.

 

Sörgel birti hugmyndir sínar fyrst árið 1929 í bók sinni Mittelmeer-Senkung, Sahara-Bewässerung, Panropaprojekt. Hann útfærði þær síðan betur í bókinni Atlantropa sem kom út þremur árum síðar.

 

Ekki voru allar hugmyndir Sörgels fjarri lagi þó vissulega megi segja að þær hafi verið útópískar. Þannig taldi hann að í framtíðinni myndi rafmagn leysa alla aðra aflgjafa af hólmi s.s. kol, olíu og gas. Atlantrópuáætlunin myndi efla samvinnu Evrópuríkja og koma í veg fyrir frekari átök þeirra á milli. Vöxtur iðnaðar og landbúnaðar yrði tryggður um ókomna tíð og bundinn yrði endir á atvinnuleysi í álfunni.

 

En hugmyndir Sörgels voru litaðar kynþáttahyggju. Hann sá fyrir sér að Afríka yrði stjórnuð af Evrópubúum og að auðlindir hennar yrðu fyrst og fremst nýttar með hagsmuni þeirra í huga. Atlantrópa átti einnig að vera mótvægi við „gulu hættuna“ í austri en sú hugmynd var útbreidd á Vesturlöndum að Austur-Asíubúar væru að reyna að taka yfir heiminn.

 

Vatnslásarnir samkvæmt teikningum Sörgels.

 

Hverju sem því líður náðu hugmyndir Sörgels aldrei að verða að veruleika. Þar kom fyrst og fremst tvennt til: Tilraunir hans til þess að tengja þær við lífsrýmiskenningu Hitlers féll ekki í kramið hjá nasistum og uppgötvun kjarnorku sem aflgjafa gerðu hugmyndir hans úreltar.

 

Þýsk heimildarmynd um málið:

Vídjó

 

Afríka og innhöfin tvö.