Ívan Túrgenjev (1818-1883) var einn fyrsti rithöfundur Rússlands sem hlaut alþjóðlega hylli. Hér birtast þrjár stuttar sögur um dýr eftir hann. Þýðingin birtist í tímaritinu Örkum árið 1922, en við vitum ekki hver þýddi og þiggjum ábendingar um það. Lemúrinn færði til nútímastafsetningar.

 

***

 

Apinn

 

Ég ferðaðist einu sinni með litlu gufuskipi frá Hamborg til London. Við vorum aðeins tveir farþegar um borð, nefnilega ég og lítill api, sem kaupmaður í Hamborg sendi að gjöf einhverjum af viðskiptavinum sínum í London.

 

Apinn var festur með mjórri keðju við bekk á þilfarinu, og þessi litli vesalingur snerist þarna í sífellu, togaði í festina og hristi hana, og vældi öðru  hvoru  aumkunarlega. Í hvert skipti, er ég gekk fram hjá honum, rétti hann fram litlu, köldu, svörtu loppuna, og horfði á mig. Andlitið var undarlega líkt mannsandliti, og augun lýstu svo mikilli hryggð, að mér rann til rifja.

 

Ég settist hjá honum og tók um loppurnar, sem hann rétti að mér. Apinn hætti að hringsnúast og þagnaði. Það var blíðalogn, sjórinn spegilsléttur og sást hvergi móta fyrir báru. En það sást skammt frá skipinu, því þokan lá þykk og grá yfir sjónum, og hún þéttist og jókst; hún huldi toppana á siglutrjánum og lagðist að skipinu eins og mjúkur, rakur feldur.

 

 

Sólin var eins og dökkrauð kúla, sem hékk úti í þokugeiminum. En undir sólarlagið sló rauðleitum blæ á þokuna, og gerði hana ennþá dularfyllri.

 

Langar, jafnar bárur, sem líktust fellingum í þykku silki, mynduðust í sífellu við skipsstefnið, og runnu hver á eftir annarri út í hafið; þær breiddust út, liðuðust og hurfu. Löðrið þyrlaðist upp með hjólum skipsins, hvítt eins og mjólk, skiptist ólgandi í mjóar rákir, breiddist út og hvarf —hvarf í hafið og þokuna.

 

Skipsklukkan hringdi í sífellu, og brostna hljóðið í henni var næstum því eins ámátlegt eins og vælið í apanum. Öðru hvoru sást hnísa eða selur reka upp hausinn, og mynduðu smágára á sjóinn, sem hurfu svo strax aftur.

 

Skipstjórinn var maður þögull og einrænn; andlitið var hörkulegt og sólbrennt.

 

Hann reykti úr stuttri pípu og spýtti í sífellu út fyrir borðstokkinn. Hann var í illu skapi. Öllum spurningum mínum svaraði hann aðeins með lágu urri. Hvort sem mér var ljúft eða leitt, var enginn, sem ég gat hallað mér að, nema litli apinn.

 

Ég settist hjá honum; hann hætti að væla og lagði svörtu, köldu loppuna á hné mér, og ég lét vel að honum. Þokan lagðist að okkur, hreyfingarlaus, rök og lamandi, og nærri því án þess ég vissi af, hnipruðum við okkur saman eins og bræður.

 

Nú hlæ ég að því, en þá var hugsun mín öðruvísi. Erum við ekki öll börn sömu móður? Og þá gladdi það mig innilega, að þetta vesalings litla dýr varð rólegra við nærveru mína og hjúfraði sig öruggt upp að mér.

 

 

Hundurinn

 

Við tveir sitjum saman í stofunni: hundurinn minn og ég. Úti grenjar stormurinn. Hundurinn situr beint á móti mér og horfir í augu mér. Og ég horfi á hann og reyni að lesa í svip hans.

 

Það er eins og hann vilji segja mér eitthvað. En hann er mállaus; hann á ekki ráð á neinu orði. Hann skilur ekki ennþá sínar eigin hugsanir. Og þó skil ég hann. Ég skil, að á þessari stundu er sama hugsunin í hug okkar beggja, sprottin af sömu tilfinningu, og að mismunurinn á okkur er enginn. Við erum samskonar verur. Í okkur báðum brennur sami flöktandi eldurinn:

 

„Dauðinn kemur á móti okkur, og kuldinn stendur nístandi undan þungum, útþöndum vængjunum. Og öllu er lokið“.

 

Hver getur greint mismuninn á þeim hugmyndum, hugsunum og hugboðum, sem komu í hug okkar beggja?

 

Nei, það er ekki dýr og maður, sem hafa horfst í augu. Það eru eins sköpuð augu, sem hafa lýst sömu hugsunum, af því að hvoru tveggju eru sköpuð af sama eina, óendanlega og óskiptanlega upphafinu.

 

 

 

Spörfuglinn

 

Ég var að koma af veiðum og gekk skógargötuna. Hundurinn minn hljóp á undan mér. Allt í einu hægði hann á sér og læddist eftir götunni, eins og hann sæi bráð.

 

Ég horfði eftir götunni, og kom þá auga á spörfuglsunga, með gult, opið nef og dún á höfðinu. Það var hvasst, mjóvaxin birkitrén svignuðu og unginn hafði dottið úr hreiðrinu.

 

Nú lá hann á jórðinni hjálparvana, og barði litlu vængjunum, sem voru ennþá of veikir til að bera hann.

 

Hægt og gætilega læddist hundurinn í áttina til ungans. Allt í einu lét gamall, svartbrystur spörfugl sig detta niður; hann hafði setið í tré skammt frá og lét sig nú detta niður eins og stein rétt fyrir framan trýnið á hundinum mínum. Fiðrið reis á spörfuglinum, og með tryllingslegum vængjaslætti og aðgangi réðist hann hvað eftir annað á hundinn.

 

Fuglinn vildi bjarga unganum sínum, hann vildi verja hann með sínum eigin líkama. Þessi litli líkami skalf af tryllingi og hræðslu; röddin var hás og villt. Hann vildi fórna sér.

 

Þessum litla fugli hlaut að sýnast hundurinn minn hræðileg ófreskja. Og þó hafði hann ekki getað haldist við uppi á öruggu greininni sinni. Afl, sem var vilja hans yfirsterkara, hafði rekið hann þaðan.

 

Hundurinn minn stóð kyrr eitt augnablik, en hörfaði svo hægt undan. Áreiðanlega læddist í hug hundsins grunur um, hvað var að gerast.

 

Ég kallaði hann til mín og gekk burtu með djúpri lotningu fyrir þessu litla dýri.

 

— Já, hlæ þú ekki; ég fann í raun og veru til lotningar fyrir þessum litla, hugdjarfa fugli, og þeirri trylltu ást, sem lýsti sér í þessu atviki.

 

Ástin er þó, hugsaði ég, sterkari en dauðinn og hræðslan við dauðann. Því það er ástin, og aðeins ástin ein, sem er uppspretta og viðhald lífsins.

 

 

Mynd af apa er eftir Kevin J. Hundur eftir óþekktan ljósmyndara frá 1858 (George Eastman House). Gráþröstur eftir Adam Kumiszcza.