Í Svíþjóð er verið að skrifa bók. Bókin er frekar löng, nú þegar orðin margir hillumetrar og enn bætist við eftir því sem meira kemur úr prentun.

 

Þetta er orðabók Sænsku akademíunnar. Hún er að líkindum það bókmenntaverk sem hvað lengst hefur verið í vinnslu. Vinnan hófst árið 1786 að beiðni konungs og fyrsta bindið kom út rúmri öld seinna, eða árið 1898. Nú, 117 árum síðar (og 230 árum frá því að vinna hófst), hefur síðasta bindið enn ekki verið prentað. Þó ku ekki ýkja langt í land, svona miðað við allt og allt; áætlað er að síðasta bindið komi út í kringum árið 2017. Rúmlega tuttugu manns vinna við skrifin í fullu starfi.

 

Fyrsta bindið fjallaði um orð sem byrja á A. Síðan hafa málfræðingar á vegum akademíunnar rakið sig orð fyrir orð, bókstaf fyrir bókstaf. Í desember árið 2014 kom út fyrri hluti 37. bindis, sem inniheldur orðin utsug til og með vedersyn. Lengsta orðskýringin er við vatten, rúmlega 250.000 slög. Vefútgáfa bókarinnar er komin aðeins skemur, eða að orðinu tövla (plöntutegund af körfublómaætt). Bókin telur nú rúm 53.000 flettur, auk tæplega 400.000 samsettra orða.

 

Capture

Forsíða vefjar SAOB. Orðabókin hefur verið á netinu síðan 1997 og heldur enn sínu sjarmerandi snemm-netsútliti.

 

Orðabókinni er ætlað að lýsa sænsku ritmáli frá árinu 1521 til okkar daga. Er þetta gert með því að skoða mikinn og fjölbreyttan texta. Og þetta á semsagt að verða klárt einhverntímann á næsta ári. Slík bjartsýni hefur þó áður komið fram. Árið 1893 lýsti ritstjórinn því yfir að verkið yrði klárt 45 árum seinna. Og árið 1920 þegar verklaginu var breytt við skrifin, var talið að 25 ár til viðbótar myndu nægja. Það reyndist þó ekki rétt; bara S tók 40 ár.

 

Þar sem rúm hundrað ár eru liðin síðan fyrstu heftin komu út, er augljóst að í þau vantar ýmislegt sem telst nauðsynlegt í orðabókum í dag. Ekkert er talað um blogg undir b-inu og ekkert er fjallað um tölvur undir d (dator). Kvennaorð eru af afar skornum skammti af ýmsum ástæðum, og sé flett upp að orðum sem byrja á forliðnum „neger-“ koma mörg skringileg orð, eins og negerlukt (lykt af negra), negerliknande (ástralíunegrar) og negerläpp (rauðu og þykku negravarirnar).

 

Þegar verkinu lýkur mun orðabókin verða uppfærð, orð fyrir orð, þar sem byrjað verður á A aftur, þó ekki verði önnur útgáfan prentuð. Það verk er talið munu taka töluvert minni tíma en fyrsta umferðin, en þó þannig að nokkrir áratugir muni líða þangað til önnur umferð klárast.