Ein merkasta hreyfing í breskri listasögu er félagsskapur hinna svokölluðu „Forrafaelíta,“ eða The Pre-Raphaelite Brotherhood. Félagsskapurinn var formlega stofnaður byltingarárið mikla 1848 og voru meðlimir hópsins jafnt myndlistarmenn, myndhöggvarar, skáld og gagnrýnendur.

 

Leiðtogi hópsins var líklega myndlistarmaðurinn og skáldið Dante Gabriel Rosetti, sem var sérstaklega áberandi – en meðal annarra meðlima má nefna myndlistarmennina John Everett Millais og William Holman Hunt. Síðar áttu fleiri skjólstæðingar eftir að bætast við. Yngri listamenn eins og myndhöggvarinn Alexander Munro og myndlistarmaðurinn Charles Allston Collins.

 

Nafn hópsins er tilkomið vegna þess að þeir vildu hafna þeim varanlegu áhrifum sem ítölsku listamennirnir Rafael og Michaelangelo höfðu haft á þróun listaverksins, og kenndu sig því við þá gósentíð sem ríkti áður en áhrifa þeirra gætti.

 

Forrafaelítarnir hlutu endurnýjun lífdaga og komust aftur í sviðsljósið í Bretlandi árið 2009. Ástæðan var annars vegar útgáfa bókarinnar Desperate Romantics: The Private Lives of the Pre-Raphaelites eftir Franny Moyle, en hins vegar – og ekki síst – vegna þess að framleiddir voru sjónvarpsþættir sem byggðu á bókinni.

 

Sjónvarpsþættirnir heita Desperate Romantics, og er vafalaust hægt að nálgast þá frekar auðveldlega á löglegan eða ólöglegan hátt í gegnum veraldarvefinn. Hér má sjá ritdóm um bókina eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur.

 

Það sem er þó einna eftirtektarverðast við verk Forrafaelítanna, og þá sérstaklega við verk Rosetti, er áhersla þeirra á að nota rauðhærðar fyrirsætur. Þannig prýða rauðhærðar konur næstum öll þeirra helstu verk og lái þeim hver sem vill.

 

Er það einmitt umfjöllunarefni bókarinnar, og þáttaraðarinnar, hve helteknir Forrafaelítarnir voru af rauðhærðum konum og hve mikil áhrif þessar rauðhærðu músur höfðu á þá. Þess má reyndar geta, að ættarnafnið Rosetti þýðir einfaldlega „rauðhaus“ – og var hann sjálfur, rétt eins og forfeður hans og mæður; rauðhaus. Það útskýrir kannski ýmislegt. En sjáum dæmi um verk meistaranna.

 

John Everett Millais: Ophelia (1852). Eitt frægasta verk 19. aldar í Bretlandi er atriði úr Hamlet þar sem Ófelía syngur í þann mund sem hún drukknar. Fjölmargir hafa reynt að endurgera þetta verk með ýmsum hætti, til að mynda Nick Cave og Kylie Minogue í myndbandi lagsins Where the Wild Roses Grow.

 

Vídjó

Nick Cave og Kylie Minogue setja á svið Ófelíu.

 

John Everett Millais: The Martyr of Solway (1871).

John Everett Millais: Esther (1865).

Dante Gabriel Rosetti: La Viuda Romana (1874).

 

Dante Gabriel Rosetti: Lady Lilith (1867). Fyrirsætan er Fanny Cornworth, sem var hjákona Rosettis.

Dante Gabriel Rosetti: Alexa Wilding (1879). Wilding var vinsælasta fyrirsæta Rosettis og sat fyrir á fleiri verkum en nokkur önnur músa.

 

Dante Gabriel Rosetti: A Vision of Fiametta (1878). Fyrirsætan er Marie Spartali Stillman. Hún var sjálf listmálari og er af mörgum talin meðal fremstu listamanna síns tíma. Hún lést árið 1927.

 

Dante Gabriel Rosetti: Marie Spartali Stillman (1869). Teikning af Stillman.