Á dögunum fór fram virt hönnunarsýning í Hollandi, hollenska hönnunarvikan 2013. Hugmynd hollensks listamanns vakti þar mikla athygli. Enda snertir hún allt mannkynið og var lögð fram sem einhvers konar lausn á hinum mikla vanda sem steðjar að mannkyninu með offjölgun, vatnsskorti og hlýnun jarðar.

 

Hér heyrum við þýska kvikmyndaleikstjórann Werner Herzog reyna sitt besta í flutningi Völuspár. Hann er uppátækjasamur listamaður og ákvað að lesa upp úr vísunum sem kallast dvergatal.

 

Vídjó

 

Þessi skemmtilega upptalning sem reynist Herzog nokkuð erfið í framburði eru með eftirminnilegustu vísubútum Völuspár. Breski rithöfundurinn Tolkien, sem skrifaði Hringadróttinssögu, heillaðist af dvergunum og notaði nöfnin í verkum sínum. Dvergar eru fyrirferðamiklir í sögum Tolkiens. Og auðvitað í norrænni goðafræði.

 

Og hér verður örlítið fjallað um dverga. Ekki þá sem Tolkien sá fyrir sér í neðanjarðarborgum í fjöllum Miðgarðs.

 

Heldur smávaxið fólk. Á  hollenska hönnunarvikunni 2013 vakti hugmynd hollensks listamanns mikla athygli. Enda snertir hún allt mannkynið og var lögð fram sem einhvers konar lausn á hinum mikla vanda sem steðjar að mannkyninu.

 

dezeen_The-Incredible-Shrinking-Man_ss

 

Listamaðurinn heitir Arne Hendriks og hugmyndin er að mannkynið verði minnkað. Já, minnkað. Það er að segja að einstaklingar væru ekki hærri í loftinu en 50 cm. Semsagt hálfur metri.

 

Hér er þýðing á lýsingu listamannsins frá heimasíðu hans. Hugmyndina kallar hann The Incredible Shrinking Man.

 

Það er löngu orðið ljóst að mannfólk hækkar stöðugt. Og það þýðir að við þurfum meiri auðlindir, meiri mat, meiri orku og meira rými. Líkaminn sjálfur er holdi klætt tákn um þráhyggju okkar um vöxt. Hvað ef við reyndum að snúa þessu við? Hvað ef við notum hina miklu þekkingu okkar um mannslíkamann til að minnka hann? Ef hver maður væri 50 cm á hæð myndum við einungis þurfa tvö til fimm prósent af auðlindunum sem við notum í dag. Ef 20. öldin snerist öll um útþenslu og stækkun, þá gæti 21. öldin kannski orðið öld samdráttar.

 

Frá sjónarhóli þróunarinnar hefur það eflaust verið gott að vera hávaxinn. En nú á dögum er það hins vegar mikil byrði, bæði fyrir mannkynið sjálft og jörðina okkar. Og það er þess vegna sem verkefnið The Incredible Shrinking Man, eða Hinn ótrúlegi minnkandi maður, leggur til að dýrategundin Homo sapiens verði minnkuð niður í 50 cm. Já, þetta hljómar mjög djörf hugmynd. En kannski ekki svo mjög ef við hugleiðum að minnsti maður jarðar í dag, Chandra Bahadur Dangi frá Nepal, er aðeins 54 sentimetrar á hæð. Þess vegna eru 50 cm fræðilegt markmið okkar. Ef við værum aðeins 50 cm þyrftum við aðeins 2 til 5 prósent auðlindanna sem við notum núna og þó að það sé öfgakennt markmið er það líka kunnuglegt því flest börn fæðast í þessari stærð.

 

Ein af bestu afleiðingum minnkunar yrði hin feikilega og sjálfbæra ofgnótt bæði í hinu náttúrulega og mannlega umhverfi. Við myndum minnka og breyta heiminum í veröld allsgnægta. Sú endurnýjanleg orka sem framleidd er í dag myndi duga fyrir allt mannkynið. Einn tómatur myndi endast í heila súpu og einn kjúklingur myndi fæða hundrað manns. Við myndum nota ímyndunaraflið og hugvitssemi til að endurhanna borgir. 95 prósent borga gætu verið endurnýttar og þéttaðar. The Incredible Shrinking Man-verkefnið hefur reiknað út að ef við værum 50 cm gæti öll heimsbyggðin búið í sex stærstu þéttbýlissvæðum heims, Tókíó, Mexicoborg, Sao Paulo, Mumbai, Delhi og New York. Afgangur jarðar væri tómur. Hægt væri að nota hann fyrir landbúnað. Þessi endurdreifing mannkynsins myndi gera okkur kleift að endurmeta samband okkar við plánetuna á óteljandi vegu.

 

Auðvitað þarf að yfirstíga margar hindranir til að ná meðalhæð alls mannkyns niður í 50 cm. Til dæmis yrði heilinn ekki mikið stærri en hneta. Einn fræðimannanna sem hafa stundað rannsóknir fyrir okkur hefur komist að því að heilafrumur gætu minnkað mikið og samt náð að sinna hlutverki sínu. Kannski yrðum við enn gáfaðri, þar sem taugaboð þyrftu að skjótast á milli styttri vegalengda.

 

Aðrar hindranir eru flóknari. Hversu hættilegir yrðu húskettir svo ekki sé talað um stór skordýr? Og hvað með veðrið. Haglél yrðu mjög hættuleg. En við erum menn. Ef við getum montað okkur af einhverju hlýtur það að vera hæfileiki okkar til að sigrast á erfiðleikum. En það er ekki uppbyggilegt að vera hræddur þegar maður býr til nýja heimsmynd fyrir mannkynið. Reynum því frekar að einblína á hið góða og sniðuga sem fælist í jafn róttækri hugmynd og þessari.

 

Já. Þetta eru sannarlega áhugaverðar bollaleggingar. Og fjarstæðukenndar.

 

En hugmynd Hendriks hefur verið reynd í mýflugumynd í tengslum við grimmilegar sýningar á dvergvaxta fólki. Dvergasýningar eru ein algeng­asta teg­und viðundra­sýn­inga og Lemúrinn veit um tvö tilfelli, eitt gamalt og annað nýlegt, þar sem fólk með sjúkdóma sem leiðir til dvergvaxtar hefur verið látið lifa saman.

 

Í upp­hafi tutt­ug­ustu ald­ar­innar var í Dreamland, stærsta skemmti­garð­inum á Coney Island í New York, þorp dverg­vax­inna manna sem píndir voru til þess að lifa við sam­fé­lags­lega upp­lausn og hatur, áhorf­endum til skemmt­unar. Þetta var viðundra­sýn­ing í sinni ýktustu mynd.

 

Liliputia (Putaland) var nafnið á þess­ari deild í skemmti­garð­inum. Íbúar hennar voru 300 dverg­vaxnir ein­stak­lingar sem safnað hafði verið hvaðanæva frá Bandaríkjunum. Þorpið var til á árunum 1904 til 1911.

 

Samkvæmt hol­lenska arki­tekt­inum Rem Koolhaas gerðu stjórn­endur Dreamland dverga­þorpið að félags­fræði­legri rann­sókn­ar­stofu. Dvergarnir hlýddu furðu­legum skip­unum yfir­boð­ara sinna og sam­fé­lag þeirra varð und­ir­lagt af hatri, ofbeldi, svikum og sorg.

 

Til þess að kór­óna óham­ingju dverg­anna gaf William H. Reynolds öldung­ar­deild­ar­þing­maður og eig­andi Dreamland dverg­unum öllum aðal­stignir, sem gerði þeim ókleift að búa í sæmi­legu sam­fé­lagi, þar sem allt log­aði í ill­deilum á milli jarla og baróna.

 

Koolhaas skrif­aði árið 1978 bók­ina Delirious New York sem fjallar um ýmislegar furður stórborgarinnar. Í bókinni heldur hann því fram að skemmti­garða­hverfið Coney Island í útjaðri New York hafi verið til­rauna­stofa og sýnd­ar­heimur, nokk­urs konar spé­speg­ill borg­ar­innar og mann­legs nútíma­lífs á iðn­væddum tímum.

 

Nýrra dæmið um þorp dverga fann Lemúrinn í breska gamanþættinum An Idiot Abroad sem fjallar um Karl Pilkington og ferðalög hans um heiminn en hann hefur engan áhuga á ferðalögum. Í einum þættinum heimsækir hann Konungsríki dverganna sem svo er nefnt en það er skemmtigarður í Yunnan-héraði í Kína. Þar fær fólk sem þjáist af dvergvexti að búa og fær greidd laun fyrir það eitt að vera til sýninga. Þetta þorp hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að nota fötlun fólks sem skemmtiatriði.

 

Vídjó

 

En svo má nefna að steingervingar hafa sýnt fram á að í fyrndinni var til manntegund sem var mun lágvaxnari en Homo Sapiens. Tegundin var uppgötvuð fyrir 10 árum síðan og er kennd við eyjuna Flores í Indónesíu en þar hafa leifar um hana fundist. Menn þessir voru að meðaltali um 90 cm á hæð. Talið er að þessi manntegund hafi verið uppi fyrir um 10 þúsund árum. Spennandi hefur verið að fylgjast með rannsóknum fræðimanna á tegundinni og von er á fleiri niðurstöðum úr þeim.

 

En þar sem við hófum þetta dvergaspjall á dvergatali Völuspár má nefna að norrænir dvergar hafa nýlega hlotið frægð á sjónvarpsstöðinni History Channel sem margir Íslendingar fylgjast með í sjónvörpum sínum.

 

Þar fer mikið spekingaspjall fram í þættinum Ancient Aliens, fornaldargeimverur. Þar eru menn handvissir um að geimfarar hafi heimsótt jörðina í fornöld mannkyns og að þaðan séu öll trúarbrögð heimsins upprunin. Vanþróuð samfélög fornaldar hafi túlkað geimverurnar sem guði. Ein nýjasta kenning spekinganna gengur út á að dvergar í norrænni goðafræði hafi í raun verið háþróaðar geimverur.

 

Í norrænni goðafræði er nefnt að þeir hafi verið góðir smiðir. Það gefi augaleið að vopnin sem norrænu goðin noti, til dæmis Þórshamar, séu háþróuð vopn sem aðeins geimverur hafi getað búið til. Brúin bifröst hafi verið ormagöng sem gerðu ferðalög á milli jarðar og heimkynna geimverudverganna möguleg.

 

Vídjó