Lemúrinn hefur áður fjallað um enska heimspekinginn og rökfræðinginn Bertrand Russell (1872-1970) og hefur meðal annars greint frá reykingum hans, trúleysi og hlutverki hans í Bollywood-kvikmyndinni Aman. Russell var vinstrisinnaður, og virkur í alþjóðlegu baráttunni gegn kjarnorkuvopnavæðingu Kalda stríðsins.

 

Oswald Mosley ásamt Benito Mussolini, fasistaleiðtoga Ítalíu.

Oswald Mosley ásamt Benito Mussolini, fasistaleiðtoga Ítalíu.

Árið 1962 bauðst Sir Oswald Mosley (1896-1980), stofnandi enska fasistaflokksins, til þess að mæta honum í opinberum rökræðum. Mosley hafði boðað fagnaðarerindi fasismans í Bretlandi á árunum fyrir seinna stríð og var um tíma haldið í stofufangelsi af yfirvöldum vegna tengsla við óvinaríkin á meginlandinu. Eftir stríðið lét hann lítið á sér bera um sinn, en fór svo aftur út í stjórnmál 1959, þar sem hann boðaði stefnuna gömlu á ný: vernda þyrfti kynstofninn, banna skyldi blöndun kynþátta og innflytjendur tafarlaust sendir úr landi.

 

Russell var tæplega níræður þegar áskorunin barst. Hér birtist svar hans þýtt yfir á íslensku:

 

Kæri Sir Oswald,

 

Takk fyrir bréf þitt og meðfylgjandi skjöl. Ég hef nú hugleitt nýleg bréfaskipti okkar. Það er ávallt erfitt að ákveða hvernig skal bregðast við fólki með lífsskoðanir sem eru manni framandi og í raun andstyggilegar. Það er ekki svo að mér sárni yfir almennum ummælum þínum, heldur hafa allir mínir kraftar farið í virka baráttu gegn þeim grimmilegu fordómum, ofbeldisáráttu og hrottalegu ofsóknum sem  einkenna fasismann í orði og á borði.

 

Ég finn mig knúinn til þess að segja að tilfinningaheimarnir sem við þrífumst í séu svo rækilega aðskildir og gjörsamlega andsnúnir hverjum öðrum, að ekkert gagnlegt eða heiðarlegt gæti nokkurn tímann komið af samskiptum okkar á milli.

 

Ég vil að þú gerir þér grein fyrir kraftinum að baki þessari sannfæringu minni. Ég segi þetta ekki til þess að vera dónalegur, heldur sökum alls sem mér er kært í mannlegri reynslu og afrekum.

 

Bestu kveðjur,
Bertrand Russell

 

 

Bréf Russells til Oswalds Mosley.

Bréf Russells til Oswalds Mosley.

 

Hér sést Sir Oswald flytja þrumandi ræðu í Manchester á 4. áratugnum.

Vídjó