Vídjó

Gore Vidal í gegnum árin.

Bandaríski rithöfundurinn og þjóðfélagsrýnirinn Gore Vidal er látinn, 86 ára gamall. Hann var í viðtali hjá Riz Khan á Al Jazeera fyrir ári síðan og rifjaði þar upp ýmislegt úr langri ævi.  Horfið á það hér fyrir ofan.

 

Aðspurður um hver arfleifð hans yrði sagði Gore Vidal: „Ég hef ögrað en ég hef aldrei drepið neinn. Ég held að það sé nokkuð gott. [Sem arfleifð]. Hvers vegna ekki? Það eru verri arfleifðir þarna úti.“

 

Gore Vidal var fæddur árið 1925 í West Point í New York, inn í fjölskyldu háttsettra herforingja og stjórnmálamanna. Hann var frændi Als Gore, fyrrum varaforseta, og stjúpbróðir Jackie Kennedy.

 

Hann byrjaði að skrifa kornungur og vakti gríðarlegt fár þegar hann vogaði sér að skrifa um samkynhneigð í bókinni The City and the Pillar árið 1946.

 

Hann varð með tímanum einn litríkasti og frægasti greinarhöfundur Bandaríkjanna og skrifaði um þjóðfélagsmál í Vanity Fair, The Nation, The New Yorker og fleiri tímarit. Hann skrifaði tugi bóka um allt mögulegt.

 

Hann var einkum harðorður í garð George W. Bush forseta og taldi hann sekan um landráð fyrir að hafa farið á svig við stjórnarskrá Bandaríkjanna.