Sumarið 1959 settu Bandaríkjamenn upp sýningu í miðborg Moskvu sem átti að vinna hug og hjörtu íbúa Sovétríkjanna. Á sýningunni gátu gestir meðal annars gengið um ganga „hins týpíska bandaríska heimilis“, sem var fullt af nýjustu tækni og þægindum. Skilaboð sýningarhaldara til hins þjakaða sovéska borgara voru að allir Bandaríkjamenn hefðu ráð á slíkum lúxus. Og allt undrum kapítalismans að þakka.
Sjálfur aðalritarinn Níkíta Krúsjoff var viðstaddur opnun sýningarinnar þann 24. júlí. Honum dugði auðvitað enginn minni leiðsögumaður en bandarískur kollegi hans, Richard Nixon. Nixon leiddi Krúsjoff og föruneyti um hið glæsilega bandaríska heimili og kynnti honum hin fínni blæbrigði hins kapítalíska raunveruleika. Þegar skoðunarferðinni lauk komu þeir félagar sér svo fyrir í eldhúsinu og ræddu þjóðmálin – óundirbúinn og óformlegur leiðtogafundur sem síðar fékk nafnið Eldhúsumræðurnar. Hér sjást Nixon og Krúsjoff ræða saman um forláta þvottavél. Athugið að til hægri er arftaki Krúsjoffs og góðvinur Lemúrsins, Leoníd Bresnjeff.