Stalín var fæddur árið 1878 í Georgíu. Þegar hann var 16 ára prestaskólanemi orti hann eftirfarandi ljóð. Arnheiður Sigurðardóttir þýddi:
Frá Georgíu
Rósahnappurinn er að ljúkast upp
og bláklukkurnar líka allt umhverfis hann.
Hið fölva írisblóm er einnig vaknað
– og öll kinka þau kolli í andvaranum.
Lævirkinn þenur vængi sína hátt í heiðlofti
– kvakar hann og syngur.
Næturgalinn kveður kyrrum rómi
– syngur heitu hjarta:
„Megir þú blómgast, ástkært föðurland,
þú land mitt, Iberia, í gleði og giftu,
og einnig þér Georgiumenn,
megi lærdómsiðkanir
tengja yður einnig ættlandinu.“
Tiflis (Tblisi) í Georgíu um 1910. (Prokudin-Gorskii)
Athugasemd þýðanda: „Höfundur er georgískur prestaskólanemi, Josef Djúgashvili Stalin, sextán ára eða þar um bil. Kvæðið þýddi úr georgísku á ensku Harrison Salisbury, m.a. ritstjóri tímaritsins alkunna Time, og er það hér tekið úr bók hans An American in Russia. (Iberia er fylki í Georgiu.)“ (Andvari 1998)
Bók breska sagnfræðingsins Simon Sebag Montefiore um Stalín unga var þýdd yfir á íslensku fyrir nokkrum árum. Hún fjallar um uppvaxtarár Stalíns og hvernig hann hóf feril sinn sem andófsmaður og marxisti.