Á fjórða áratugnum var reynt að flytja nútríur, nokkuð stór suðuramerísk nagdýr, til Íslands. Tegundin, sem er náskyld bjórum, náði þó ekki fótfestu á klakanum.
Nútría (Myocastor coypus) er venjulega kölluð coypu á erlendum málum. Hún er upprunnin í suðurhluta Suður-Ameríku, í löndum á borð við Chile, Paragvæ og Argentínu, þar sem hún býr í sefinu við fljót og vötn og nærist á plöntum. Nútrían er því mikill sundgarpur. Hún er á stærð við heimiliskött.
Á nítjándu öld fluttu loðdýrabændur dýrið til ýmissa landa í Afríku, Asíu, Norður-Ameríku og Evrópu með misjöfnum fjárhagslegum ávinningi. Sumstaðar náði nútrían að sleppa úr klóm eigenda sinna og lifa nú villtar, líkt og minkurinn á Íslandi.
Innan við 10 nútríur voru fluttar til Íslands 1932. Nútríurækt var stunduð á tveimur bæjum í Grímsnesi með takmörkuðum árangri. Þau dýr sem sluppu lifðu ekki af kaldan veturinn á Fróni. Árið 1985 var lagt til að hefja nútríurækt að nýju á Íslandi en ekkert varð úr þeim áformum.
Nútríur eru skyldar flóðsvínum sem Lemúrinn hefur fjallað um.
Skoðum nokkrar myndir af nútríum.