Þessa napurlegu mynd tók Gunnar Sverrisson, ljósmyndari Tímans, á Sædýrasafninu í Hafnafirði 23. desember árið 1988. Tvær kengúrur gægjast út úr kofanum sínum út í desemberkuldann.

 

Lemúrinn fjallaði um Sædýrasafnið í gær, og okkur hefur síðan borist fjöldi frásagna af safninu frá lesendum. Af þeim að dæma var aðstaða dýranna mjög sorgleg. Og kengúrurnar hér að ofan eru enn ein sorgarsagan af safninu.

 

Sædýrasafnið varð gjaldþrota árið 1987 og því lokað. Forstöðumönnum safnsins var gert að lóga öllum dýrunum sem þar voru til sýnis. En af einhverjum ástæðum var fjórum kengúrum safnsins ekki lógað. Meira en ári síðar voru þær enn á sínum stað á lokuðu safninu.

 

Furðu lostinn blaðamaður Tímans lýsti þá aðstæðum kengúranna svo:

 

„Kofinn er lítill og sóðalegur, stærðin er u.þ.b. 2×5 metrar. Ekkert er inni í kofanum nema bert steingólfið og körfur með mygluðu brauði, salati og ávöxtum. Að vísu hefur verið komið fyrir ofni til að veita einhvern yl. Þarna verða dýrin að híma því út gefa þau ekki farið vegna kuldans.“

 

Og svona lýsti blaðamaður íbúum kofahriflisins:

 

„Kengúrurnar eru frekar smáar en það furðulega er, að dýrin fjögur eru tannlaus og lítur helst út fyrir að tennurnar hafi verið dregnar úr þeim.“

 

Þegar Morgunblaðið grennslaðist fyrir um málið degi síðar fengust þær skýringar að fyrr á árinu hafi aðstandendur safnsins dreymt um að opna safnið á nýjan leik, og hafa þá kengúrurnar til sýnis. Þó hafi verið ljóst í marga mánuði að til þess kæmi ekki, en „dregist“ hefði að lóga kengúrunum.

 

Viku síðar, 30. desember 1988, birtist stutt frétt þess efnis í Tímanum að kengúrunum fjórum hafi loks verið lógað.