Þvottabirnir eru ekki almennt taldir til íslenskra dýra. En þvotta­birnir hafa þó villst hingað til lands af einhverjum ástæðum endrum og sinnum. Í þau skipti vöktu þessi fram­andi dýr kátínu meðal Íslend­inga, en enda­lok þeirra urðu þó sorg­leg.


FYRSTI KAFLI

 

Dýralíf á Íslandi er heldur fábreytilegt. Tilraunir til þess að auðga íslenska náttúru hafa gengið misjafnlega. Fræg er sagan af því þegar íslenskir athafnamenn reyndu að koma upp stofni sauðnauta á Íslandi. Þó sauðnaut séu hörkutól entust þau ekki á Íslandi — sjö sauðnautakálfar sem sóttir voru til Grænlands árið 1929 dóu fljótlega eftir komuna til Íslands, og sú saga endurtók sig 1931, þegar sjö kálfar til viðbótar komu frá Noregi.

 

Einn helsti hvatamaður að sauðnautaævintýrinu var Ársæll Árnason, bókbindari með meiru. En þó að það ævintýri hafi mislukkast lét hann það ekki aftra sér frá því að halda áfram að reyna að auðga íslenska náttúru og flytja framandi dýr til Íslands.

 

Vorið 1932 flutti Ársæll hingað til lands sjö þýska þvottabirni, og var það líklega í fyrsta sinn sem slíkar skepnur stigu loppum á íslenska jörð. Þvottabirnir eru upprunnir í skóglendi Norður-Ameríku en hafa verið fluttir til Evrópu og má nú rekast á þvottabirni meðal annars í Þýskalandi og í löndum hinna fyrrverandi Sovétríkja.

 

Sauðnautin áttu að verða Íslendingum til hagsbóta; þau eru kjötmikil og kafloðin.

 

En ekkert slíkt vakti nú fyrir Ársæli — hann var bara einstaklega hrifinn af þvottabjörnum. Í grein í Náttúrufræðingnum lýsir Ársæll björnunum sem einstöku sköpunarverki, „dásamlega útbúnir frá náttúrunnar hendi“. „Ekki get ég hugsað mér skemmtilegri dýr að umgangast“, skrifaði Ársæll.

 

Birnirnir höfðust fyrst um sinn við í búrum við heimili Ársæls á Sólvallagötu í Reykjavík. Þar fæddust þeim húnar, þar á meðal Bína, sem börn Ársæls tóku upp á sína arma. Bína varð svo hænd að sonum Ársæls að hún svaf í rúmum þeirra, undir sænginni.

 

Eftir dvölina á Sólvallagötu voru þvottabirnirnir svo sendir í vist á loðdýrabú við Hofstaði í Garðabæ. Blaðamaður Vísis vitjaði bjarnanna þar árið 1933 og heillaðist: „Eldri dýrin vildu ekkert gefa sig að heimsækjendum, en tveir ungir þvottabirnir tóku mönnunum þeim mun betur. Var að þeim hin besta skemmtun.“

 

Einn þvottabjörn gerðist þó svo kræfur að leggja á flótta úr loðdýrabúinu. Næstu mánuði sást til hans hingað og þangað, í Vífilsstaðahrauni og á Mosfellsheiði.

 

Loks um haustið fékk Ársæll þær sorgarfregnir að strokubjörninn væri fundinn á Kjalarnesi. „Hafði [dýrið] verið staðið að því að gera óskunda í hænsnahóp, og var skotið án dóms og laga.“

 

Þrír þvottabjarnanna voru sendir til Vestmannaeyja í vist til Guðbjargar Árnadóttur, systur Ársæls. Guðbjörg geymdi þvottabirnina í búrum við heimili sitt og vöktu dýrin fögnuð meðal barnanna í Vestmannaeyjum líkt og Reykjavík. Börnin skemmtu sér við að gefa þeim að borða, enda éta þvottabirnir flest sem að kjafti kemur.

 

Einnig þar reyndist erfitt að hafa hemil á þeim, og börnin í Eyjum áttu það til að sleppa þeim lausum. Tíminn segir til dæmis frá því að einu sinni hafi Guðbjörg þurft að „elta einn þeirra niður í bæ og bera hann heim á rófunni, því að ekki vildi hann yfirgefa glaum bæjarins með góðu!“

 

Því miður varð ærslaskapur þvottabjarnanna að loki þeim að falli. Tíminn segir svo frá líklegum endalokum hins íslenska þvottabjarnarstofns:

 

Svo fór að lokum, að Guðbjörg gafst upp á því að hafa þá, enda orðin þreytt á að þurfa sifellt að hafa auga með því, að þeim væri ekki hleypt úr búrunum. Einn þeirra mun hafa hafnað hjá Þórði á Dagverðará, en hinir fengið legstað í vestmannaeyskri moldu, og eru þvottabirnir þar með úr sögunni hér á landi.

 

 

Jón Sigurðsson og þvottabjörn. Myndin er samsett.

 

 

ANNAR KAFLI

 

Næsti kafli í sögu þvottabjarnarins á Íslandi átti sér stað fjörtíu árum síðar. Árið 1975 komu þvottabirnir til Íslands frá dýragarðinum í Kaupmannahöfn og komu sér fyrir á Sædýrasafninu í Hafnarfirði. Það var Sápugerðin Frigg sem var svo smellin að kaupa þvottabirnina og gefa sædýrasafninu. Þvottabirnir, þið vitið.

 

Dagblöðin sögðu frá því stolt í desember 1975 að tveir þvottabirnir væru nú komnir í Sædýrasafnið. En það sem fylgdi ekki sögunni fyrr en síðar var að birnirnir sem komu frá Danmörku voru þrír. Þriðja þvottabirninum hugnaðist ekki framtíð í Sædýrasafninu í Hafnarfirði. Hann slapp á leiðinni í sóttkví, þar sem þvottabirnir vörðu fyrsta mánuði sínum á Íslandi.

 

Þann 29. janúar 1976 birti Dagblaðið á forsíðu sinni óhugnanlega mynd af illa leiknu dýrshræi.  „Skoffin eða skuggabaldur? Ókennilegt kvikindi ógnaði starfsmanni í fiskimjölsverksmiðju“ hljóðaði fyrirsögnin. (Hér má skoða forsíðuna á Tímarit.is.)

 

Þetta „vígalega“ furðudýr hafði hvæst á rafvirkja hjá Lýsi og mjöli í Hafnarfirði, sem tók sig til og skaut það. Sérfræðingum á Náttúrufræðistofnun Íslands tókst ekki að bera kennsl á hræið. Hugsanlega væri þarna komið „hálfvaxinn refur“, útileguhundur eða jafnvel þjóðsagnadýrið skoffín.

 

En, eins og Dagblaðið tilkynnti daginn eftir, var þarna að sjálfsögðu kominn þriðji þvottabjörninn. Hann hafði þá gengið laus í um tvo mánuði áður en hann mætti þessum sviplegu endalokum í fiskmjölsverksmiðjunni.

 

„Það vekur jafnan athygli, þegar Ísland eignast nýja ríkisborgara.“ Þvottabirnir í Sædýrasafninu. Myndir úr Tímanum 21.12.1975.

 

Urðu örlög þvottabjarnanna tveggja sem eftir voru skárri? Nánar um sögu Sædýrasafnsins má lesa á Lemúrnum:

 

Þegar ljón og ísbirnir bjuggu í Hafnarfirði

Kengúrurnar sem gleymdust í kulda og trekki í Hafnarfirði

 

Í júní 1976 sendi Samband íslenskra dýraverndunarfélaga yfirdýralækni og fleiri stofnunum bréf um aðbúnað dýra á safninu. Var þar meðal annars kvartað yfir því að þvottabirnir safnsins væru látnir dvelja í „sóðalegu og ljótu búri“.

 

Safnið varð gjaldþrota árið 1987 og var því þá lokað, og forstöðumönnum safnsins var gert að lóga öllum dýrunum sem þar voru til sýnis.

 

Má ætla að hafi þvottabirnirnir frá Frigg þá enn verið á lífi — þvottabirnir verða að meðallagi tveggja til þriggja ára gamlir úti í náttúrunni, en geta reyndar orðið langtum eldri í haldi manna — þá hafi þeir þar endað ævi sína.

 

Þvottabjörn í íslenskum þjóðbúningi. Myndin er samsett.

 

 

ÞRIÐJI KAFLI

 

Eftir að Sædýrasafnið lokaði spurðist ekkert til þvottabjarna á Íslandi fram til ársins 1998.

 

Þeim brá heldur en ekki í brún í gær, strákunum sem voru að hjálpa Bergi Hjaltasyni, framkvæmdastjóra hjá Metró Norman, að losa gám frá Toronto í Kanada, þegar loðin skepna birtist þeim á vörubretti með nýjustu sendingunni af nuddpottum.

 

Svona hefst frétt í Morgunblaðsinu þann 28. október 1998. Loðna skepnan, sem tekið hafði sér far með nuddpottasendingunni, var ekki refur, eins og fyrst var talið, heldur enn einn þvottabjörninn.

 

 

Ætli þessi hafi vísvitandi ætlað sér að koma alla leið til Íslands? Líklega hefur ferð bjarnarins yfir Atlantshafið hafist um mánuði áður en starfsmenn Metró Norman í Hallarmúla uppgötvuðu þennan laumufarþega innan um nuddpottana.

 

Í Toronto hafi hann stokkið á vörubretti, rétt áður en það var sett í gáminn til Íslands og honum lokað. Þegar komið var í Hallarmúlann var dýrið orðið dasað af þorsta og hungri eins og gefur að skilja eftir þessa löngu ferð.

 

Bergur Hjaltason, starfsmaður sem Morgunblaðið ræðir við segir að þvottabjörninn hafi varla getað hreyft sig, rétt hreyft hausinn og blikkað augunum. Starfsmenn Metró Normann hringdu á lögregluna, og lögreglumaður mætti á staðinn og skaut þjáða dýrið snarlega.

 

Morgunblaðið lýsir svo síðustu augnablikunum í lífi þvottabjarnarins svo:

 

Eitthvað virðist bjarnargreyið hafa haft fyrir stafni á leiðinni yfir hafið í myrkrinu, því það hafði nagað rauðviðargrind í kringum einn nuddpottinn. Líklega hefur þó björninn í sjálfsbjargarviðleitni sinni þó fremur verið að reyna að næra sig.

 

Það má þó ljóst vera að þvottabjörninn hefur verið búinn að koma sér fyrir á hillunni sinni fyrir nokkuð löngu síðan, tilbúinn að deyja drottni sínum, því æpandi dagsbirtan, óðamála mannskepnur og hnjask á lyftara vöktu dauf viðbrögð hans.

 

„Hann lá alltaf kyrr og var skotinn þar sem hann lá, enda var hann aðframkominn,“ sagði Bergur. „Okkur fannst ótrúlegt að hann skyldi þó vera lifandi eftir þessa löngu ferð, en líklega hefur hann ekki átt langt eftir, greyið, eftir allt saman.“

 

Þrátt fyrir að dýrið hafi verið aðframkomið varð þvottarbjarnardrápið í Hallarmúla nokkuð umdeilt. Þvottabjarnavinirnir í Sambandi íslenskra dýraverndunarfélaga létu aftur í sér heyra og Velvakandi Morgunblaðsins birti þrjú bréf 30. október, þar sem drápið á þvottabirninum var harmað, frá börnum og fullorðnum.

 

Sérstaklega kaldhæðnislegt þótti að 27. október, dagurinn sem þvottabjörninn uppgötvaðist í gáminum, var einmitt alþjóðlegi bangsadagurinn — það er fæðingardagur Theodores Roosevelt Bandaríkjaforseta, og er þá venjan að hampa böngsum á ýmsan hátt.