Indverska frelsishetjan Gandhi starfaði sem lögmaður í Natal-nýlendunni í Suður-Afríku á síðasta áratug nítjándu aldar. Hér sjáum við hann í lögmannsbúningnum. Ljósmynd frá 1893.

 

Þegar Gandhi kom til Suður-Afríku, þá 24 ára gamall, hafði hann eflaust ekki í hyggju að staldra lengi við. Hann var ungur maður á uppleið, af góðum ættum og vel menntaður. Hann bókaði sér far með lest til Pretoríu, þar sem hann átti að flytja dómsmál, og að sjálfsögðu pantaði hann sæti á fyrsta farrými. Hann gerði sér engan veginn grein fyrir því hver réttarstaða hans væri í Suður-Afríku. Þar var litið niður á alla sem ekki voru hvítir, og skipti engu máli hvort þeir voru lögfræðingar eða ekki. Gandhi var vinsamlegast beðinn um að færa sig af fyrsta farrými en hann tók það ekki í mál og var að lokum skikkaður frá borði með lögregluvaldi.

 

Fram til þessa hafði Gandhi ekki mætt miklu mótlæti í lífinu. En nú var hann staddur í nýju landi og framandi menningarheimi sem tók ekki vel á móti honum. Aleinn og yfirgefinn á lestarstöðinni í Pietermaritzburg seint um kvöld sá hann tvo möguleika í stöðunni. Að flýja aftur heim til Indlands með skottið á milli lappanna eða að halda kyrru fyrir og berjast. Berjast fyrir rétti sínum og gegn mismunun og mannréttindabrotum. Hann valdi seinni kostinn og þannig varð þetta kvöld að vendipunkti í hans lífi og árin sem á eftir komu í Suður-Afríku áttu eftir að móta Gandhi og búa til þá frelsishetju Indlands sem flestir þekkja í dag.

 

Í fyrstu voru það fyrst og fremst réttindi Indverja í Suður-Afríku sem Gandhi setti á oddinn, og raunar trúði hann því að hvítir menn ættu að vera æðstir kynstofna í Suður-Afríku, en mótmælti því að Indverjar væru settir í sama lága flokk og innfæddir. Gandhi átti eftir að eyða 21 ári í Suður-Afríku að berjast fyrir mannréttindum og eftir því sem árin liðu öðlaðist hann nýja og bætta sýn á stöðu innfæddra. Þegar þeir komust svo loks til valda var Gandhi fagnað sem þjóðhetju víða um landið.