Ljósmynd af Borðeyri við Hrútafjörð á Ströndum frá 1883. Sigfús Eymundsson tók myndina. Landnámsmaðurinn Ingimundur gamli gaf eyrinni nafnið en hann fann á henni nýrekið viðarborð eftir því sem fram kemur í Vatnsdælasögu:

 

„Hann fór norður um sumarið í landaleitun og fór upp Norðurárdal og kom ofan í eyðifjörð einn. Og um daginn er þeir fóru með þeim firði þá hlupu úr fjalli að þeim tveir sauðir. Það voru hrútar. Þá mælti Ingimundur: „Það mun vel fallið að þessi fjörður heiti Hrútafjörður.“ Síðan komu þeir í fjörðinn og gerði þá þoku mikla. Þeir komu á eyri eina. Fundu þeir þar borð stórt nýrekið. Þá mælti Ingimundur: „Það mun ætlað að vér skulum hér örnefni gefa og mun það haldast og köllum eyrina Borðeyri“.“