Þessi myndarmaður fyrir ofan var tekinn af lífi með hengingaról hinn sjöunda júlí 1865 í herstöð í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.

 

Hann hét Lewis Powell og var meðlimur í einum alræmdasta félagsskap í sögu Bandaríkjanna; hópnum sem skipulagði morðið á Abraham Lincoln forseta og tilræði við fleiri valdamenn.

 

Lewis var félagi John Wilkes Booth sem skaut Lincoln til bana í Ford-leikhúsinu á föstudaginn langa, hinn fjórtánda apríl, 1865.

 

En Lewis Powell var ekki í Ford-leikhúsinu. Hans hlutverk var að fara heim til Williams Seward utanríkisráðherra og myrða hann. Þriðji maðurinn, George Atzerodt, átti að koma Andrew Johnson varaforseta fyrir kattarnef. Þessi samhæfða skyndiárás átti að greiða stjórnvöldum svo óvænt, hættulegt og þungbært högg, að þau yrðu hreinlega óstarfhæf.

 

Hatur þeirra á Lincoln og bandamönnum átti sér rætur að rekja til bandarísku borgarastyrjaldarinnar (1861-1865) en mennirnir voru allir hermenn Sambandsins (The Confederacy) sem var samband ellefu ríkja í suðurhluta Bandaríkjanna sem þoldu ekki að Abraham Lincoln væri forseti Bandaríkjanna, því að hann vildi banna þrælahald í öllum ríkjum. Þegar hann var kosinn sögðu þessi ellefu fylki sig úr Bandaríkjunum og borgarastyrjöldin, sem oft hefur verið nefnd þrælastríðið, stóð yfir í fjögur ár. Hún endaði með uppgjöf Suðurríkjanna og í kjölfarið var þrælahald aflagt allstaðar í Bandaríkjunum.

 

Ungu mennirnir sem nú ætluðu að myrða forsetann voru ákaflega ósáttir við endalok stríðsins. Suðurríkin lýstu yfir uppgjöf aðeins örfáum dögum áður en Lincoln var myrtur. John Wilkes Booth, Lewis Powell, George Atzerodt og David Herold hittust á gistihúsi, skipulögðu árásina og lögðu af stað til að hrinda áætlunum sínum í framkvæmd. Þeir voru allir ungir, Booth 26 ára, Powell 21, Atzerodt 30 og Herold 23.

 

En á meðan Booth tókst ætlunarverk sitt, mistókst Powell og Atzerodt hrapalega. Atzerodt, sem átti að myrða varaforsetann, gugnaði, hætti við allt saman og drakk sig fullan. Powell fór með Herold heim til skotmarks þeirra, utanríkisráðherrans Seward. Hinn kornungi Powell fann ráðherrann í svefnherbergi sínu en náði aðeins að særa hann lítillega með hníf sínum. Hann hörfaði svo, kastaði hnífnum frá sér og stökk upp á hestinn sem Herold beið með fyrir utan.

 

Allir voru handteknir nokkrum dögum síðar á gistihúsinu þar sem þeir höfðu skipulagt tilræðin. Þar var einnig handtekin Mary Surratt, eigandi gistihússins, en hún hafði hjálpað Booth og félögum við skipulagninguna. Hermenn skutu Booth til bana nokkrum dögum síðar á bóndabæ í Virginiu-fylki, en þangað hafði hann flúið.

 

Hér sjáum við magnaðar ljósmyndir af Lewis Powell sem teknar voru á meðan hann var í haldi á herskipinu USS Saugus, nokkrum dögum eftir hið misheppnaða tilræði. Powell, Atzerodt, Herold og Mary Surratt voru öll fundin sek um morðtilraun og landráð og tekin af lífi með hengingaról hinn sjöunda júlí 1865 í Fort McNair í Washington.

 

 

 

 

 

Powell, Atzerodt, Herold og Mary Surratt í snörunni.