Vídjó

Óþekktur Íslendingur les áróðursskilaboð frá útvarpi Þriðja ríkisins 10. desember 1944. Nasistar fluttu áróður á ýmsum tungumálum með útvarpsbylgjum sínum og voru skilaboð flutt á íslensku um nokkurt skeið.

 

Útsendingar byrjuðu svona: „Hér er Berlín! Hér er Berlín! Þýskaland útvarpar daglega á íslensku frá kl. 1745 til 18 samkvæmt íslenskum tíma.“

 

Upptakan er fengin af vef RÚV, en á sér­stakri síðu um her­námið og stríðs­árin er umfjöllun um útsend­ingar Þjóð­verja á íslensku á stríðs­ár­unum.

 

Ljósmyndin er af nasistafána við hús Sigurðar Hlíðar, ræð­is­manns Þjóð­verja á Akureyri um 1938. Myndina tók Eðvarð Sigurgeirsson ljós­mynd­ari.

 

Morgunblaðið segir svo frá upphafi þessara útsendinga miðvikudaginn 18. júní árið 1941:

 

Klukkan 6:45 í gærkvöldi hófst útvarp á íslensku frá Þýskalandi.Var útvarpað á stuttbylgjum, öldulengd 19.Flutt var erindi um Jón Sigurðsson forseta. Íslendingurinn sem talaði í útvarpið sagði að ráðgert væri að hefja daglegt útvarp frá Þýskalandi til Íslands og væri ætlast til að útvarp þetta gæti orðið tengiliður milli Þýskalands og Íslands. Þótt fjarlægðin á milli landanna væri mikil, þá bærist þó jafnan frjettir á milli landanna.Voru Íslendingar hvattir til þess að fylgjast vel með „nýbyggingu hinnar hrörnandi Evrópu“ sem nú ætti sér stað. Útvarpsþulurinn skýrði frá því að næst yrði útvarpað á Íslensku næstkomandi þriðjudag, 24. júní kl. 17:45 á sömu öldulengd 19 metrum. Útvarpinu lauk með því að íslenski þjóðsöngurinn var leikinn.

 

Tengdar greinar:

Björn Sv. Björnsson: Hinn „óaðfinnanlegi“ íslenski nasisti

Íslenski nasistinn útvarpar heim til Íslands frá Kákasus