Vídjó

Íslenski nasistinn Björn Sv. Björnsson, náði, eins og Lemúrinn ræddi um í gær, talsverðum frama innan SS. Hann starfaði mestan part við stríðsfréttaritun og kynningu á málstað þriðja ríkisins. Hér heyrum við útvarpsþátt frá honum sem hann tók upp á íslensku innan landamæra Sovétríkjanna í síðari heimsstyrjöldinni.

 

Þættinum var útvarpað til Íslands frá þýska útvarpinu í september árið 1942.

 

Upptakan er fengin af vef RÚV, en á sérstakri síðu um hernámið og stríðsárin er umfjöllun um útsendingar Þjóðverja á íslensku á stríðsárunum. Um störf Björns Sv. segir þar:

 

„Ekki bárust fréttapistlar til Berlínar frá honum eingöngu á íslensku, heldur einnig á dönsku og norsku. Fyrst og fremst sendi Björn fréttir af gangi stríðsins, en hann fór einnig út í sveitirnar í kring í efnisleit og hafði stundum uppi á mönnum sem höfðu frá einhverju fréttnæmu að segja.

 

Þann 14. september árið 1942 hljóðritaði hann pistil, sem hann nefndi „Tveir kósakkar“. Í honum ræðir Björn við feðga um ástandið í Úkraínu á dögum Stalíns. Eitt af því sem er merkilegt við þennan pistil er hversu vinnuaðferðum og dagskrárgerð Björns svipar til þeirra aðferða sem dagskrárgerðarmenn beita enn þann dag. Ekki er þó átt við áróðurinn sem kemur berlega í ljós í viðtalinu, heldur lýsir Björn því sem fyrir augu hans ber og leitast við að skapa stemmningu í þessu viðtali. Björn mun hafa sent fleiri upptökur til Íslandsdeildar þýska útvarpsins, en þetta er sú eina sem hefur varðveist. Þessi upptaka var ein af þeim síðustu sem Björn gerði á Austurvígstöðvunum.

 

Útsendingar þýska útvarpsins á íslensku stóðu allt til loka stríðsins eða fram í apríl árið 1945.“

 

Störf Björns vöktu góða lukku á meðal háttsettra SS-manna. „Sem yfir­maður Kaupmannahafnardeildar stríðsfréttaher­deild­ar­innar hefur Björnsson unnið framúrsk­ar­andi starf í nýliðun Waffen-​​SS-​​sveitanna og aukið ítök í dönskum fjöl­miðlum,“ skrifaði foringi hans í SS í meðmælabréfi undir lok stríðsins.

 

Eins og áður segir er þetta eina upptaka Björns sem varðveist hefur. Fróðlegt er að lesa bréf Björns sem hann skrifaði frá austurvígstöðvunum til nafna síns Björns Kristjánssonar stórkaupmanns í Hamborg og forseta Félags Íslendinga í Þýskalandi.

 

„Ég hefi nú verið með í nokkrum orustum, en sérstaklega er mér minnisstæð orustan í gær. Ég var með fremsta broddi fótgönguliðsins (mótoríserað). Panzerarnir höfðu farið á undan okkur og mark dagsins var að ná ákveðinni borg undan rússum. Svínin hleyptu Panzerunum í gegnum án þess að skjóta, en þegar við komum, urðum við heldur óþægilega varir við bolsana. Við vorum á leið gegnum stóreflis maís-akur, þegar allt í einu fara að dynja skotin á okkur; við dreifðum okkur eins og elding í allar áttir og það byrjaði orusta við ósýnilegan mótstöðumann. Mig langaði til að tala inn í útvarpstækin, en það var ómögulegt.“

 

Lesa má ítarlega umfjöllun um þessar bréfaskriftir í greininni „Ekki annað að gera en að henda sér á magann“ sem birtist í Morgunblaðinu í 24. ágúst 2003.

 

 

Hér er Berlín! Hér er Berlín!

Magnús Guðbjörnsson var einn þeirra sem starfaði sem þulur við útvarpið í Berlín. Hér lýsir hann dagskránni: „Útvarpssending Íslandsdeildarinnar hófst ávallt með þessum orðum: Hér er Berlín! Hér er Berlín! Þýskaland útvarpar daglega á íslensku frá kl. 17:45 til 18 samkvæmt íslenskum tíma. Síðan kom: Aðalherstöðvar foringjans tilkynna: og þá lesnar fréttir frá vígstöðvunum, ennfremur erlendar fréttir og muni ég rétt var ekki mikið um pólitískan áróður. Mest þurrar fréttir, enda var tíminn naumur til annars. Ég man ekki til þess að neinn hafi haldið fyrirlestur eða ræður í það rúma hálfa ár sem ég starfaði við útvarpið, en það kann þó að hafa gerst síðar í stríðinu án minnar vitundar, enda hlustaði ég aldrei á það. Allt efni var tilreitt upp í hendurnar á okkur frá Þjóðverjum sjálfum. Okkar verkefni var að þýða það og lesa það upp.“