Bandaríska sjónvarpsþáttaröðin Mad Men hefur notið mikilla vinsælda. Þáttaröðin hóf göngu sína árið 2007 og vakti strax mikla athygli fyrir framúrskarandi leikmynda-og búningahönnun. Persónusköpunin er ekki mikið síðri en samkvæmt kunnugum mun þátturinn vera prýðisgóður samfélagsspegill, sé miðað við efri miðstétt Bandaríkjanna á 7. áratug síðustu aldar. Þáttaröðin sýnir meðal annars fram á hvernig hlutgerving kvenna var ráðandi afl í samfélagi sjöunda áratugarins, og þá sérstaklega í markaðsfræðum – sem eru jú þau fræði sem snerta okkur vesturlandabúa hvað mest í okkar póstmóderníska neyslusamfélagi. Á sama tíma eru þættirnir þörf áminning um hve tímarnir hafa í raun lítið breyst, sama hvað Bob Dylan raulaði árið 1964, en þeir sem hafa séð fyrirlestraröð Jean Kilbourne, VídjóKilling’));“>

Us Softly, vita eflaust hvað er átt við með því. En nóg um það í bili.

 

Aðalsöguhetja Mad Men er Don Draper, eins og kannski flestir vita. Færri vita hins vegar að persóna Drapers er byggð á manni sem var af holdi og blóði – nefnilega honum Draper Daniels, farsælum manni úr auglýsingabransanum sem var á hátindi ferils síns á 7. áratug síðustu aldar.

 

Matthew Weiner, höfundur þáttaraðarinnar, hefur viðurkennt þessa staðreynd opinberlega, og ef það er ekki nóg – þá hefur ekkja Daniels gert slíkt hið sama. Hún skrifaði í aðsendri grein í Chicago Magazine árið 2009 skemmtilega sögu um hvernig hún og Daniels, eða Dan eins og hann var kallaður, kynntust.

 

Myra Janco var kynnt fyrir Draper Daniels árið 1965. Hann var þá þegar búinn að öðlast sess sem einn virtasti hugmyndasmiðurinn í auglýsingabransanum, en hann hafði meðal annars búið til herferð fyrir Marlboro sígaretturnar, þar sem Marlboro-maðurinn var einmitt kynntur til leiks. Janco var sjálf farsæl í starfi. Hún var 38 ára gömul og var aðstoðarforstjóri auglýsingastofunnar Roche, Rickerd, Henri, Hurst í Chicago, en svo hátt metorðastigann hafði engin önnur kona áður klifið.

 

Marlboro-maðurinn slappar af, liggjandi á bátsþilfari.

 

Það var sameiginleg vinkona, Vivian Hill, sem kynnti hið verðandi par, en það var sennilega það síðasta sem Janco grunaði við fyrstu kynni – að þau yrðu einhvern tímann par. Fyrsti fundur þeirra var um mögulegan samruna, eða að Daniels myndi kaupa sig inn í Roche, Rickerd, Henri, Hurst. Eftir langan fund þar sem Daniels spurði Janco spjörunum úr sagðist hann hafa áhuga. Hann myndi kaupa sig inn í fyrirtækið með því skilyrði að hann væri við stjórnvölin þegar kom að hugmyndastarfi.

 

Eftir að Daniels gekk til liðs við auglýsingastofuna fór boltinn að rúlla fyrir alvöru. Stofan varð sér úti um mikilvæga samninga, meðal annars við Colgate-Palmolive, Maytag og Swift – allt risavaxin fyrirtæki á mælikvarða þess tíma. Allt gekk að óskum hjá Roche, Rickerd, Henri, Hurst; þar sem Daniels stjórnaði hugmyndavinnu á meðan Janco stjórnaði markaðsstarfi. Stofan tók nokkrum breytingum hvað eignarhald varðaði, en talsvert var um að hluthafar voru keyptir út – eða að einhvers konar samrunar áttu sér stað. Gefum Janco þá orðið:

 

Dag einn, þegar hann hafði verið hjá okkur um tveggja ára skeið, gekk Daniels inn á skrifstofuna mína með minnismiða í hönd. Einhverra hluta vegna hélt ég að það tengdist enn einum samrunanum, og spurði því: „Ætlarðu að láta mig fylgja með í næsta samruna?“

 

„Ekki beinlínis,“ svaraði hann.

 

Hann sýndi mér minnismiðann. Á aðra hlið miðans hafði hann skrifað niður alla helstu kosti sína. Þegar ég sneri miðanum við sá ég að hann hafði skrifað niður alla helstu kosti mina á hina hliðina. Kostirnir sem voru skrifaðir um mig voru betri, þannig ég vissi að hann vanhagaði um eitthvað. Ég hugsaði með mér hvað í ósköpunum væri eiginlega hlaupið í hann?

 

„Ég hef verið að velta þessu fyrir mér í níu mánuði og ég held að við myndum skipa frábært teymi,“ sagði Daniels.

 

„En við erum gott teymi nú þegar. Hugsaðu þér hvað við höfum náð að áorka miklu á þessu ári ,“ svaraði ég.

 

„Ég er að tala um annars konar samruna…“

 

„Nú?“

 

„Jú, ég hef ákveðið að mig langar til að giftast þér.“

 

Ég missti röddina um stund, því ég hafði aldrei áður hugsað um þennan mann á þennan hátt – og ég hafði ekki hugmynd um að hann hugsaði þannig um mig. Dan var 12 og hálfu ári eldri en ég og hann hafði verið giftur áður. Á þessum tíma var ég mjög andsnúin skilnaði. Það sem var mikilvægara, var að ég var ánægð með líf mitt eins og það var.

 

„Ekkert mál. Við tölum þá um þetta aftur á morgun,“ sagði hann og gekk út, blístrandi á leið sinni – sem mér fannst í raun brjálæðisleg hegðun, ekki síst í ljósi þess sem var nýbúið að eiga sér stað.

 

Daginn eftir hengdi Janco upp miða á hurðina hjá Daniels þar sem stóð að samruninn yrði samþykktur að 15 árum liðnum. Um leið og Dan sá miðann hljóp hann til Janco og hafði meðferðis stærðarinnar trúlofunarhring. Janco brosti en sagði honum að hætta þessari vitleysu, henni myndi ekki detta í hug að giftast nokkrum manni nema eftir eins árs tilhugalíf hið minnsta. „Gott og vel,“ sagði Daniels. „Þá tel ég daginn í dag sem dag númer eitt.“

 

Þess má geta að þegar hér er komið við sögu er Janco trúlofuð öðrum manni. Þegar hún vissi hug Daniels bað hún unnusta sinn um að fá „pásu“ frá trúlofuninni í eitt ár.

 

Nokkrum vikum síðar var Daniels og Janco boðið til dögurðar hjá sameiginlegum vini, en sá vinur starfaði sem læknir. Daniels hringdi í Janco eldsnemma um morguninn og lagði áherslu á að hún ætti ekki að borða neitt fyrir heimsóknina. Þegar þau hittust hjá lækninum stakk Daniels upp á því að vinur þeirra, læknirinn, myndi taka þau í blóðprufu – bara svona að gamni.

 

Það var svo nokkru síðar sem Janco ætlaði að eyða laugardagseftirmiðdegi á listasafni, og hafði hún látið Daniels vita kvöldið áður. Hann stakk upp á því að slægist með í för og Janco tók því vel. Daniels sótti hana og ók af stað, en sagðist þurfa að stoppa við í húsi dómstóla Chicago-borgar. Hann lagði fyrir utan og sagðist Janco vilja bíða á meðan í bílnum. Daniels tók það ekki í mál, það væri allt of hættulegt fyrir hana að bíða ein síns liðs í svo hættulegu hverfi. Janco fór með inn í bygginguna og spáir lítið í því sem er að gerast, þangað til að hún sér skyndilega fyrir framan sig skilti: „Giftingarleyfi.“ Gefum Janco aftur orðið.

 

Ég sem hélt að við værum komin þangað vegna þess að hann vantaði veiðileyfi.

 

„Myra, ég er ekkert að yngjast og mér finnst að við ættum að fá okkur leyfi.“

 

„En við höfum heilt ár!“

 

Hann horfði bara á mig. Ég gekk upp að afgreiðslumanninum: „Heyrðu, við erum ekki að fara að gifta okkur. Ef við fengjum bara leyfið núna, þá yrði það ekkert gefið út. Er það nokkuð?“ Afgreiðslumaðurinn sagði að ef ég óskaði eftir því, þá yrði það ekki gefið út. Og það gerðum við, fengum leyfið. En það skipti ekki máli. Honum megin við ganginn var stærðarinnar salur þar sem giftingarnar voru framkvæmdar. „Myra, láttu ekki svona. Gerum þetta.“ Ég gat með engu móti talað. En það næsta sem ég vissi þá vorum við búin að gera þetta. Við vorum gift. Og ég byrjaði að gráta.

 

Næsta mánudag var Dan búinn að boða alla á skrifstofunni til fundar. Hann ætlaði að tilkynna nýjan samruna innan fyrirtækisins. Þegar allir höfðu safnast saman, um 65 manns, tilkynnti Dan starfsfólkinu að hann og Janco væru búin að giftast.

 

Draper Daniels og Myra Janco árið 1965. Tveimur árum síðar voru þau orðin hjón.

 

Samkvæmt Janco lifðu þau Daniels góðu lífi, eða allt þangað til að hann varð krabbameini að bráð árið 1983.

 

Einhverjum árum síðar var Janco að fara í gegnum gamla muni og rakst þar á tvö upprúlluð myntbúnt af fimm senta peningum. Janco varð strax hugsað til vinkonu sinnar, Vivian Hall, sem átti ætíð slík búnt á reiðu. Hall átti það til að veðja við vini sína um hitt og þetta, og sagðist þá oftar en vilja veðja myntbúntum af fimmeyringum.

 

Janco hringdi í Hall og spurði hana hvort hún kannaðist við búntin. Hall var greinilega skemmt. „Ég trúi því ekki að hann hafi aldrei sagt þér neitt.“ Janco vissi ekki hvað væri svona fyndið og krafðist frekari útskýringa. Hall sagði henni frá því að eftir að Janco og Daniels hittust í fyrsta skipti til að ræða mögulegan samruna, þá hafi Daniels komið til sín síðar um kvöldið. Þar fékk Hall að vita að Daniels vildi kaupa sig inn í auglýsingastofuna. En þetta vissi Janco mætavel. Það sem hún vissi ekki var hins vegar, að Daniels bætti við: „Ojá, og þessi kona þarna. Ég skal veðja við þig að hún verður orðin eiginkona mín innan tveggja ára.“ Hall og Daniels veðjuðu upp á tvö myntbúnt. Daniels fékk þau borguð daginn eftir brúðkaupið.

 

Nei, það eru fáir sem eru jafn miklir skíthælar og Don Draper, persónan úr sjónvarpsþáttunum Mad Men. Nema þá kannski Draper Daniels.

 

Hér má finna upprunalega grein Myru Janco Daniels.

 

Og að lokum: What?

 

Vídjó