Þær hljóðupptökur sem til eru með rödd Adolfs Hitler eru nær allar af ræðuhöldum á opinberum vettvangi. Nasistaforinginn var þekktur fyrir gífurlega ýktan og hástemmdan ræðustíl þar sem hann öskraði í staðinn fyrir að tala. Margir sagnfræðingar segja að ræðurnar hafi takmarkað gildi fyrir þá sem vilja rannsaka hugarheim þessa alræmdasta stríðsglæpamanns sögunnar, enda hafi samkomur nasista verið ýktar leiksýningar með áróðri og skrumskælingu.
Hljóðupptakan sem hér fylgir þykir hins vegar mögnuð söguleg heimild vegna þess að á henni heyrum við Hitler tala með sinni „venjulegu“ rödd – það er með sínum náttúrulega málrómi og með engum leikrænum tilburðum.
Upptakan var gerð í júní árið 1942 í lestarvagni nálægt flugvellinum í Immola í Finnlandi en þangað hafði Hitler ferðast til að heiðra finnska ráðamanninn og afmælisbarnið Carl Gustaf Emil Mannerheim, sem var bandamaður Þjóðverja í stríðinu gegn Sovétmönnum.
Finnski tæknimaðurinn Thor Damen hjá Yleisradio (finnska ríkisútvarpinu), sem sá um útvarpsbúnað fyrir finnsku stjórnina á þessum fundi, átti heiðurinn af þessari einstöku upptöku. Hann hafði fengið þær skipanir að taka upp afmæliskveðjur Hitlers til Mannerheims.
„Hitler leyfði hins vegar aldrei myndatökur eða upptökur á lokuðum fundum,“ sagði Lasse Vihonen, yfirmaður á safnadeild Yleisradio, við fjölmiðla fyrir nokkrum árum.
„Þessi upptaka var leynileg. Þegar Hitler og Mannerheim gengu inn í veitingavagninn í kaffitímanum, kom Damen hljóðnemum fyrir. Hann leiddi snúrur út um gluggann sem hann tengdi við upptökutækin í næsta vagni,“ bætti Vihonen við.
Öryggisverðir Hitlers fundu snúrurnar á endanum og skáru þær í sundur. Þeir bölvuðu Damen í sand og ösku og hótuðu honum. Þeir vildu að upptökunum yrði eytt strax en Thor Damen náði að koma þeim undan.
Notuð á leiklistaræfingum
Svissneski leikarinn Bruno Ganz, sem fór með hlutverk Adolfs Hitlers í kvikmyndinni Der Untergang árið 2004, hlustaði mikið á samtal Hitlers og Mannerheims til að átta sig betur á manninum sem hann lék. Það kom honum á óvart að heyra Hitler „rólegan og yfirvegaðan“
Ganz lenti í miklum vandræðum þegar hann undirbjó sig fyrir hlutverkið og ekki síst þegar hann reyndi að herma eftir rödd Hitlers. Hann bað því leikarann Andreas Pühringer að aðstoða sig, en sá lék Hitler í leikritinu Mein Kampf eftir Georg Tabor.
Þeir eyddu heillri viku í að rannsaka raddhljóm Hitlers, göngulag hans og borðsiði. Á endanum lærði Ganz meira að segja að hósta eins og Hitler.
Bruno Ganz lýsti þessum æfingum sem pínlegri reynslu. Hann hefði þurft að spyrja sjálfan sig margra tilvistarlegra spurninga, meðal annars um hlutverk leiklistarinnar.