Árið 1898 fann þýski skurðlæknirinn August Bier upp nýja leið til þess að deyfa sjúklinga sína: að sprauta kókaíni í mænuvökva þeirra. Tæknin var mikil framför við frumstæðar deyfingaraðferðir fyrri tíma og Bier prófaði hana á sex sjúklingum með ágætum árangri. En hversu vel virkaði deyfingin í raun? Bier vildi finna það á eigin skinni, svo að hann fékk aðstoðarmann sinn, Augustus nokkurn Hildebrandt, til að deyfa sig.

 

Einhvern veginn tókst aðstoðarmanninum hins vegar að klúðra deyfingunni gjörsamlega og í stað róandi kókaínsprautu stóð dr. Bier uppi með stórt gapandi sár á bakinu sem mænuvökvinn seytlaði út um.

 

Í stað þess að fresta tilrauninni heimtaði Bier að þeir skiptu um hlutverk og aðstoðarmaðurinn Hildebrandt fengi deyfinguna í hans stað. Hafandi nýlokið við að gata bak vinnuveitenda síns var Hildebrandt varla í neinni aðstöðu til þess að neita. Þegar hann var orðinn vel deyfður hófst Bier handa við að reyna á sársaukaþol Hildebrandts. Bier lamdi hann með hamri, stakk í hann hnífum og brenndi hann. Hann reif af honum skapahárin og — svo hann gæti nú alveg fullvissað sig um virkni nýju deyfingartækninnar — kramdi á honum eistun.

 

Að lokum þessa árangursríka vinnudags fóru mennirnir tveir á fyllirí, annar með gat á bakinu og hinn með kramin eistu.

 

Næstu daga liðu báðir sárar kvalir eins og við má búast. Bier tók sér frí frá vinnu til þess að hlúa að sárinu en bannaði Hildebrandt að gera slíkt hið sama. Hann þurfti að mæta í vinnuna á hverjum morgni þrátt fyrir hræðileg meiðsli. Ekki er að undra að Hildebrandt var eftir þetta nokkuð í nöp við vinnuveitenda sinn og hann varð með tímanum hans mesti gagnrýnandi og barðist ötult gegn deyfingartækninni nýju sem hann hafði fengið að kenna á.

 

Herr doktor August Bier. Af ólánsömum nafna hans og aðstoðarmanni, Hildebrandt, fann Lemúrinn engar myndir.