Vídjó

Tugir laga voru samin í egypsku byltingunni fyrr á árinu. Sýrlendingar sem nú reyna að losna við sinn einræðisherra, augnlækninn vægðarlausa Bashar al-Assad, hafa síðan í sumar sungið eitt lag umfram önnur.

 

Lagið kallast Yalla irhal ya Bashar („Svona Bashar, hypjaðu þig!“) og er hispurslaus fúkyrðaflaumur beint gegn einræðisherranum og bróður hans Maher al-Assad, við fastan dabke-takt.

 

„Bashar þú ert lygari / fjandinn hafi þig og þína ræðu / frelsið er við dyrnar / svona Bashar, hypjaðu þig!“

 

Enginn veit með vissu hver samdi lagið, ef til vill var það sá sem leiðir sönginn í myndbandinu hér að ofan —  Ibrahim Qashush, ungur múrari og söngvari í frístundum frá borginni Hama.

 

Rúmri viku eftir að þetta var tekið upp var sundurskotið lík Qashushs fiskað upp úr ánni sem rennur í gegnum Hama. Þar að auki hafði hann verið skorinn á háls og raddböndin bókstaflega rifin úr hálsinum á honum.

 

Það nægði þó ekki til að þagga niður í rödd Qashushs, og síðan hefur lagið farið eins og eldur í sinu um landið.