Hópur bandarískra ljósmyndara heimsóttu borgina Homs í Sýrlandi upp úr aldamótum 1900.  Sýrland var þá hluti af Ottóman-veldinu, og Homs eitt af efnahagslegum miðpunktum landsins. Bómullar- og vefnaðariðnaður blómstraði sérstaklega og kölluðu breskir diplómatar borgina þess vegna „Manchester Sýrlands“. Íbúar Homs um aldamótin voru um 65.000.

 

Homs er í dag þriðja stærsta borg Sýrlands, og þar búa 800.000 manns. Þegar mótmæli gegn stjórn Bashar al-Assad og fjölskyldu hans hófust í Sýrlandi fyrir rúmu ári síðan varð Homs fljótt einn af miðpunktum uppreisnarinnar. Borgin er fjölmenn, fjölmenningarleg og stendur á krossgötum — mitt á milli tveggja mikilvægustu borga Sýrlands, Damaskus og Aleppó, og skammt frá hefðbundnum landsvæðum Alavíta.

 

Yfirráð yfir borginni eru Assad og félögum því mikilvæg, og hefur varla farið framhjá mörgum hið ömurlega umsátursástand sem ríkt hefur í Homs undanfarnar vikur. Fyrir hundrað árum var þar öðruvísi um að litast. Myndir frá Library of Congress.