Til að lýsa fatastíl Fridu Kahlo nægir engan veginn að segja að hún hafi verið glæsileg til fara. Sem hún var að sjálfsögðu. Val hennar á fatnaði hafði dýpri merkingu, leið til listrænnar tjáningar, leið til að lýsa æviskeiði sem var fullt af sársauka, gleði, vonbrigðum og mögnuðum sköpunarkrafti. Hvort sem um var að ræða klæðnað sem var innblásinn af Tehuana-menningu Mexíkó eða vestrænni klæðnaður, fatnaðurinn var öflug leið til sjálfstjáningar – eins og má til dæmis sjá glöggt á verkinu Tvær Fríður (s. Las dos Fridas).
Frida lenti í alvarlegu umferðarslysi árið 1925 þegar vörubíll skall á strætóbifreið þar sem hún var farþegi. Slysið átti eftir að hafa varanleg áhrif á Fridu en í því brotnaði hryggjarsúla hennar, mjaðmagrind, viðbein og fjölmörg rifbein. Líkamlega átti hún aldrei eftir að jafna sig að fullu og bjó við mikinn sársauka, sársauka sem má lesa í andlitsdráttum fjölmargra sjálfsmynda. Sífelld notkun Fridu á lífstykkjum og misháum skóm má rekja til afleiðinga slyssins, hún hreinlega batt þannig um líkamann – að hann gæti staðið uppréttur. Andlitsdrættir Fridu bera auðvitað á sama tíma merki um ótrúlegt baráttuþrek og elju, hún ætlaði ekki að láta eitthvað rútuslys stöðva sig.
Frida lést árið 1954, aðeins 47 ára að aldri. Eiginmaður hennar, Diego Rivera, ákvað að læsa alla persónulega muni Fridu inni á baðherbergi í Bláa húsinu, heimili þeirra í Mexíkóborg. Réttum 50 árum síðar var herbergið opnað. Myndirnar af klæðnaði Fridu voru teknar af japanska ljósmyndaranum Miyako Ishiuchi og eru til sýnis í Michael Hoppen-ljósmyndagalleríi í Lundúnum til 12. júlí 2016.
-Via Dangerous Minds