Hvítabirnir eru ekki einu birnirnir í dýraríkinu sem hafa hvítan feld. Ættingjar þeirra sem halda til í norðvesturhluta Kanada gera það einnig, undirtegund ameríska svartabjörnsins sem gengur undir nafninu Kermode-björn (Ursus americanus kermodei).

 

kermode

 

Kermode-birnir eru taldir til helgustu dýra meðal innfæddra í Bresku kólumbíu, vestasta fylki Kanada. Samkvæmt þjóðsögu um tilurð tegundarinnar ákváðu guðir innfæddra að tíundi hver björn skyldi vera hvítur að lit, til að minna á síðustu ísöld. Vísindamenn eru í öllu falli sammála að ástæðan fyrir hvíta feldinum sé stökkbreyting sem megi einmitt rekja til síðustu ísaldar. En það er ekki einungis liturinn sem fær Kermode-birni til að skera sig úr.

 

kermode2

 

Meðal innfæddra eru Kermode-birnir taldir gæfari og mannblendnari en svartabirnir. Fjölmargar munnmælasögur sem gengið hafa kynslóð fram af kynslóð greina frá því að Kermode-birnir hafi margsinnis komið mannfólki til bjargar og jafnvel útvegað því mat þegar hungur steðjaði að. Því ganga Kermode-birnir undir nafninu „andabirnir“ (e. the spirit bear).

 

 

Heimaslóðir andabjarna er í risafuruskógum Bresku kólumbíu, einna helst í Risabjarnarregnskóginum (e. Great Bear Rainforest). Stofninn telur einungis um 400 dýr um þessar mundir og hafa bæði innfæddir, sem og fjöldi náttúruverndarsamtaka, lýst yfir áhyggjum þar sem stofninn þykir viðkvæmur. Áhyggjurnar snúast ekki síst um fyrirhugaðar risavaxnar gasleiðslur sem stendur til að leggja þvert í gegnum heimkynni andabjarna sem gætu gengið að stofninum dauðum.

 

Hér má að lokum sjá heimildarmynd frá National Geographic um hina sjaldgæfu andabirni.

 

Vídjó