Vídjó

Leikarinn og harðnaglinn Joe Pesci hefur leikið ófáa glæpona á löngum leikaraferli. Hann er þekktastur fyrir að leika á móti Robert De Niro í myndum eftir Martin Scorsese, Raging Bull, Goodfellas og Casino og svo auðvitað sem óheppinn þjófur í Home Alone. Pesci leikur jafnan ofbeldisfulla og uppstökka brjálæðinga af ítölskum ættum.

 

Í Casino gekk hann frá manni með kúlupenna að vopni, en fórnarlambið hafði móðgað persónu De Niro:

 

Vídjó

 

Færri vita að Joe Pesci hóf ferilinn í tónlist. Þegar hann var um tvítugt og bjó í New Jersey spilaði hann á gítar með hljómsveitinni Joey Dee and the Starlites. Seinna átti Jimi nokkur Hendrix eftir að spila á sama hljóðfæri í sömu sveit.

 

Árið 1968, þegar Pesci var 25 ára gamall, gaf hann út plötuna Little Joe Sure Can Sing!, grínplötu þar sem hann söng ýmis vinsæl lög. Það er auðvelt að koma sér í jólaskapið með því að hlusta á lagið sem birtist efst í greininni!

 

Hér er svo annar gullmoli af þessari sömu plötu:

 

Vídjó

 

Eftir að þessi plata kom út sneri Joe Pesci sér að leiklist og sló í gegn í myndum Scorsese, eins og áður segir. Hátindur ferilsins var þegar hann hlaut Óskarverðlaun fyrir bestan leik í aukahlutverki í bófamyndinni Goodfellas árið 1990.

 

30 árum síðar, árið 1998, braust þó söngfuglinn í hjarta Pesci aftur út. Hann gaf þá út plötuna Vincent LaGuardia Gambini Sings Just for You þar sem hann fór aftur í hlutverk Vinny Gambini úr myndinni My Cousin Vinny.

 

Platan seldist langt því frá í bílförmum en eitt lag af henni náði þó dálitlum vinsældum. Það var rapplagið Wise Guy þar sem Joe Pesci rappar með mikilli list yfir stefinu úr laginu Rapture með Blondie. Textinn er kannski óður til hinna fjölmörgu bófahlutverka Pesci á ferlinum:

 

Vídjó

 

Fyrst það eru nú að koma jól og kaldir vindar blása á Djöflaeyjunni er ekki úr vegi að enda þetta Joe Pesci-spjall á því að horfa á stórskemmtilegan skets úr grínþáttunum Saturday Night Live. Árin 1995 og 1996 var Joe Pesci Show fastur liður í þáttunum, nokkurs konar Jay Leno-þáttur þar sem þáttastjórnandinn barði gesti sína sundur og saman, oft með hjálp besta vinarins, Robert De Niro.

 

Vídjó