Mikill bruni varð í Reichstag, þinghúsi Þýskalands í Berlín, í febrúar 1933. Marinus van der Lubbe, ungur hollenskur kommúnisti var fundinn sekur um ódæðið og tekinn af lífi í kjölfarið. En frá upphafi hafa margir, ef ekki flestir, talið að nasistar hafi sjálfir kveikt í þinghúsinu til að geta tekið völdin í Weimarlýðveldi millistríðsáranna í Þýskalandi, sem var ákaflega viðkvæmt vegna heimskreppunnar miklu og eftirkasta fyrri heimsstyrjaldarinnar.

 

Þessi tilgáta er þó ekki endilega rétt.

 

Það hafa ekki komið fram óyggjandi sannanir fyrir sekt nasista. Í ljósi þeirra ólýsanlegu grimmdarverka sem nasistar frömdu seinna meir hefur reynst auðvelt að bæta þessari íkveikju á listann yfir glæpi þeirra.

 

En þetta er hin almennt viðurkennda söguskýring. Þetta lýsir sér meðal annars í því að atburðir eru stundum nefndir „Reichstagbrunar” ef ljóst þykir að um fyrirfram skipulagða atburðarrás er að ræða þar sem verið er að koma sök á saklausan aðila.

 

En á sjöunda áratugnum birtist greinaröð í þýska blaðinu Spiegel þar sem færð voru rök fyrir því að van der Lubbe hefði í raun kveikt í þinghúsinu einn síns liðs. Þetta er hin almennt viðtekna skýring meðal fræðimanna af þeirri einföldu ástæðu að ekki hefur tekist að sanna að aðrir hafi verið að verki.

 

Erfið ár

Heinrich Brüning

Heinrich Brüning, kanslari Þýskalands 1930-32, hafði veikan þingmeirihluta neyddist til þess að stjórna með sérstökum tilskipunum frá hinum níræða forseta landsins, Paul von Hindenburg.

 

Í þingkosningum í Þýskalandi sumarið 1932 leituðu óánægðir kjósendur til róttækra afla. Nasistar fengu yfir 37% atkvæða og unnu kosningarnar. Kommúnistar fengu rúmlega 14% atkvæða. Aftur var kosið í nóvember 1932 en þá töpuðu nasistar fylgi. Þeir fengu nú 33% atkvæða en kommúnistar bættu við sig og fengu tæplega 17% atkvæða.

 

Í byrjun árs 1933 var í það minnsta þriðjungur vinnuaflsins í Þýskalandi án atvinnu. Ekki gekk að mynda starfhæfa ríkisstjórn og Hindenburg, hinn aldurshnigni forseti Þýskalands, skipaði Hitler kanslara 30. janúar 1933 til þess að reyna að leysa þráteflið sem komið var upp.

 

Reichstagbruninn

Um klukkan 21 um kvöldið þann 27. febrúar 1933, tæpum mánuði eftir skipan Hitlers, var tilkynnt um eld í þinghúsinu. Marinus van der Lubbe, 24 ára atvinnulaus, hollenskur múrari var handtekinn á staðnum. Lubbe var óþekktur í þýskum stjórnmálum. Hann var ber að ofan við handtöku – hafði notað skyrtuna sína sem eldsmat – en á honum fannst félagaskírteini í hollenska kommúnistaflokknum.

 

Fjöldi fólks safnaðist saman fyrir framan þinghúsið til þess að fylgjast með því brenna. Þeirra á meðal var Sefton Delmer breskur blaðamaður. Sefton segir frá því í sjálfsævisögu sinni þegar Ernst Hanfstängl (kallaður Putzi), náinn samstarfsmaður Hitlers, á að hafa hringt í þá kumpána Göbbels og Hitler til þess að segja þeim tíðindin:

 

[…] Hanfstängl, who was trying to sleep off an attack of flu in a room of Göring’s presidential palace opposite to the Reichstag, had been awakened by the fire engines. He looked out of his window, saw the fire, rushed to the telephone and called Goebbels.

The Reichstag is on fire,” he almost shrieked. “Tell the Führer.

Oh stop that nonsense, Putzi. It is not even funny,” answered Goebbels.

But I am telling you the truth.

I am not listening to any more of your stale jokes. Go back to bed. Good night!” And Goebbels hung up.

The trouble was that just about four days earlier that merry little prankster Goebbels , to amuse Hitler, had played a telephone hoax on Hanfstängl. And when Hanfstängl called with the Reichstag fire alarm he though he was being hoaxed back.

But Hanfstängl rang again. “Look here! What I am telling you is the absolute truth. It is your duty to tell the Führer. If you don’t, I guarantee there’ll be trouble!

 

Hanfstängl, Hitler og Göring árið 1932.

Hanfstängl, Hitler og Göring árið 1932.

 

Á meðan þinghúsið brann lýstu Göring og Hitler því yfir á tröppum þinghússins að kommúnistar hefðu kveikt í því og að þetta væri ekkert annað en allsherjartilraun til öreigabyltingar a la Lenín. Þetta kvöld undirritaði Hindenburg forseti tilskipun sem tók gildi daginn eftir brunann með vísun í þá ógn sem ríkinu stæði af kommúnistum.

 

Reichstagbrunatilskipunin nam úr gildi greinar Weimarstjórnarskrárinnar sem tryggðu sambandsríkjunum sjálfsákvörðunarrétt og borgurum málfrelsi, tjáningarfrelsi, félagafrelsi, fundafrelsi og friðhelgi einkalífs.

 

Í kjölfarið voru þýskir kommúnistar og aðrir andstæðingar nasista, eins og t.d. Carl von Ossietzky fangelsaðir. Útgáfa fjölda dagblaða var bannaður. Þýski kommúnistaflokkurinn var bannaður og öllum þingmönnum flokksins var vísað af þingi sem tryggði nasistum sterkari stöðu.

 

Brúna bókin

heartfield_brown

Meðal þess sem Brúna bókin vakti athygli fyrir var ekki síst grípandi kápuhönnun Johns Heartfields.

Andstæðingar nasista sátu hins vegar ekki með hendur í skauti og biðu. Þeir lýstu því yfir að þeir gætu sannað að Göring og Hitler stæðu á bak við brunann. Í ágúst 1933 kom út bókin Brúna bókin um Reichstag-brunann og ofríki Hitlers í París.

 

Líklega hefur hún verið nefnd „Brúna bókin“ vegna þess að stormsveitir nasistanna (Sturmabteilung (SA), forveri Schutzstaffel (SS)) voru kallaðir brúnskyrtur (Braunhemd).

 

Að baki útgáfu bókarinnar var áróðursmeistari kommúnista í Evrópu, Willi Münzenberg. Bókin var þýdd á 24 tungumál, gefin út í 55 útgáfum og samkvæmt skrám útgefandans voru yfir hálf miljón eintaka í umferð árið 1935.

 

Bókin barst einnig til Íslands og var fáanleg í bókabúð Eggerts Briems og Snæbjörns Jónssonar í Reykjavík. Rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson las Brúnu bókina sem hann taldi „hið ægilegasta heimildargagn [..] um bjánaskap, skrælingjahátt og villidýrsæði,”. Þórbergi fannst nóg um uppgang nasismans og fór mikinn í grein eftir hann sem birtist í Alþýðublaðinu 25. nóvember undir fyrirsögninni Bréf til nasista þar sagði hann meðal annars:

 

Öldum saman hefir þýzka þjóðin verið alin upp í tilbeiðslu á hlægilegum keisurum, ruddalegum herforingjum og auðmýkjandi kirkju. Þetta hefir skapað aðdáun mikils hluta þjóðarinnar á hinu ruddalega valdi, auðmýkt hans og snobbirí fyrir toppfígúrum og mönnum í háum stéttum og stöðum, hið oddborgaralega viðhorf hans við lífinu og skort hans á þeirri siðmentuðu gagnrýni, sem aðeins hefir sannleikann að endimarki. Það hefir blásið upp þjóðernisgorgeir hans og hernaðardramb. Og þetta sama uppeldi hefir holdi klætt hið persónulausa hjarðareðli, sem nú hefir þjappað meginhluta þjóðarinnar saman um einhverjar þær fáránlegustu hugsjónir, sem nokkurn tíma hafa verið boðaðar á þessari plánetu. Þetta mannspillandi uppeldisverk leiðir það af sér, að þegar fram koma nógu ósvífnir ruddar eins og heilaleysinginn Hitler, morfínsvitfirringurinn Goering og þessi Goebbels, sem á myndum lítur út eins og glæpamaður, þegar slíkar afturgöngur hins prússneska hernaðaranda vaða fram með „hinn langa rýting”, þá beygir hjörðin sig, lætur kúgast, auðmýkist, trúir og finnur guðlega speki í þessu samansafni af aumasta snakki. Og enn þá einu sinni endurtekur sig gamla sagan um nýju fötin keisarans.

 

Brúna bókin er skrifuð í ævintýralegum áróðurstíl sem minnir á Kommúnistaávarpið. Sumar fullyrðingar í bókinni eru vafasamar og bera heldur vott um klóka mælskulist þess sem vill fá fólk á sitt band frekar en þá hlutlægu rannsókn sem Reichstagbruninn útheimti. Til dæmis er því haldið fram að Haymarket-óeirðunum í Chicago árið 1886 hafi verið hrundið af stað þegar óeinkennisklæddur lögreglumaður varpaði sprengju í mannþvöguna.

 

Brúna bókin fjallar um bakgrunn Lubbe og rekur hvernig hann reyndi að gera sig gildandi í hollenska kommúnistaflokknum en saga hans markast af því að hann á að hafa skaddað í sér sjónina í vinnuslysi og því verið hálfgerður öryrki. Lubbe er lýst sem heldur seinheppnum manni, frá því er sagt að Lubbe hafi lýst því yfir að hann ætlaði að synda yfir Ermarsundið til þess að vinna verðlaun sem auglýst voru í dagblaði og einnig að hann hafi ætlað að ganga fótgangandi alla leið til Kína. Lítið varð úr þessum fyrirætlunum. Í bókinni er einnig fjallað um stigvaxandi ofsóknir gegn gyðingum í Þýskalandi sem jukust mjög eftir að Hitler varð kanslari. Með orðum Anson Rabinbachs, bandarísks sagnfræðiprófessors við Princeton:

 

The image of “Nazi fascism” that emerged from the Brown Book and the Reichstag fire campaign no longer rested on the Marxist dogma of inevitable proletarian victory or on capitalist string pulling but on heroic and innocent victims of degenerate homosexuals and morphine-addicted fanatics.

 

Sviðsett réttarhöld í London

Í september voru haldin sviðsett réttarhöld í London sem höfðu það táknræna hlutverk að sýna fram á sekt nasista. Alþjóðleg rannsóknarnefnd var þar að störfum sem samanstóð af úrvalsliði evrópskra sósíalista: breska lögfræðingnum Denis Pritt, bandaríska lögfræðingnum Arthur Garfield Hays, franska lögfræðingnum Vincent de Moro-Giafferi, Francesco Nitti fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og sænska þingmanninum Georg Branting.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Hluti af neðanjarðargöngunum sem tengdu Reichstag-þinghúsið og höll forseta þingsins (Reichstagspräsidentenpalais) eru til sýnis í Jakob-Kaiser-byggingunni í Berlín.

 

Ein helsta heimild rannsóknarnefndarinnar sem lá til grundvallar vinnu hennar var Brúna bókin. Leiddar líkur voru að því að eldur hefði verið kveiktur í þinghúsinu á yfir 20 mismunandi stöðum og að Lubbe hefði ekki mögulega getað gert það á þeim 10-20 mínútum sem hann hafði til þess að talið var.

 

Bent var á að leynileg göng lægju í þinghúsið úr höll þingforsetans, Görings, og þar sem allar útgönguleiðir úr þinghúsinu voru læstar að innan, og ljóst þótti að fleiri en einn hefðu kveikt í, hlyti það að þýða brennuvargarnir hefðu nýtt sér göngin til þess að komast í og úr þinghúsinu. Alþjóðlega rannsóknarnefndin komst því að þeirri niðurstöðu að nasistar hefðu staðið fyrir íkveikjunni degi áður en hin eiginlegu réttarhöld hófust.

 

Leipzig-réttarhöldin

Þann 21. september 1933 hófust réttarhöld fyrir hæstarétti í Leipzig gegn fimm sakborningum sem voru ákærðir fyrir brunann og landráð. Til viðbótar við van der Lubbe var þingflokksformaður þýska kommúnistaflokksins á þinginu, Þjóðverjinn Ernst Torgler og þrír búlgarskir kommúnistar; Georgi Dimitrov, Blagoi Popov og Vasil Tanev sóttir til saka. Göbbels nefndi Brúnu bókina „sjötta sakborninginn”.

 

Stamps_of_Germany_(DDR)_1982,_MiNr_Block_068

Á þessu austurríska frímerki sést Dimitrov gnæfa yfir Goebbels.

Bæði nasistar og kommúnistar sögðu van der Lubbe viljalaust verkfæri – enginn virtist taka þeirri yfirlýsingu hans að hann hefði starfað einn síns liðs og á eigin vegum trúanlega. Í ljósmyndum frá réttarhöldunum sést vel hversu brotinn maður hann er – hann drúpir höfði og horfir niður fyrir sig. Dimitrov (sem var háttsettur hjá Alþjóðasamtökum kommúnista) varði sig sjálfur og byggði vörn sína á að saka nasista um samsæri. Dimitrov var sagður öruggur í framkomu og rökfastur.

 

Þegar Goebbels bar vitni kom til snarpra orðaskipta og ögraði Dimitrov honum meðal annars með því að spyrja Goebbels hvort hann væri hræddur við að þurfa að svara spurningum hans.

 

Nasistunum til mikillar gremju voru kommúnistarnir sýknaðir en Lubbe var sakfelldur og dæmdur til dauða. Lubbe var tekinn af lífi skömmu síðar, hann var hálshöggvinn með fallöxi. Lubbe sagðist hafa unnið einn og kveikt í í þeirri trú að gjörðir hans myndu koma af stað kommúnískri byltingu. Öðru nær.

 

BDCC4N

Marinus van der Lubbe.

 

 

Heimildir