Arne Torp er prófessor í norrænum málum við háskólann í Osló. Nemendum sínum og almenningi til fróðleiks og upplyftingar hefur hann búið til myndbönd þar sem hann sjálfur fer með texta úr Eddukvæðum og öðrum norrænum fornritum eins og þau kynnu að hafa hljómað á sínum tíma. Og ekki nóg með það heldur fer hann í búninga og flytur textann með miklum leikrænum tilþrifum.

 

Í fyrsta myndbandinu fer Torp með erindi úr Atlakviðu hinni grænlensku, þýdda yfir á frumnorrænu. Frumnorræna svokölluð er undanfari fornnorrænu eða norrænu, það tungumál sem talað var á Norðurlöndum á fyrstu öldum eftir Krist. Einu heimildir um frumnorrænu eru rúnasteinar, en fræðimenn hafa þó náð að endurskapa málið að miklu leyti og hafa sumsé getað gert sér í hugarlund hvernig Atlakviða kynni að hafa hljómað hafi hún verið ort á frumnorrænu.

 

Þegar hér er komið við sögu í kvæðinu hefur Atli Húnakonungur látið menn sína taka mág sinn Gunnar Gjúkason til fanga. Gunnar neitar að segja Húnunum hvar gullsjóður hans sé nema þeir færi honum hjarta Högna bróður síns. Húnarnir reyna fyrst að svindla á honum með því að færa honum vitlaust hjarta, en Gunnar sér í gegnum það.

 

Vídjó

Textinn sem Torp fer með er svohljóðandi:

Frágun frókinano
if ferhwa wilði
gotanó þeuðanaR
golþé kaupan.

 

“Hertõ skal meR Hagunan
in handiju liggjan,
blóðigato uR breusté,
skorenato balðariðan.”

 

“Hér habju ik hertõ
Hellan enas blauþan,
unlíkato hertõ
Hagunan enas frókinan,
þato meku bibeþsik
þar þat an beuðé ligiþ,
bibaðesik halbu maiR
þan þat in breusté lah.”

 

“Hér habju ik hertõ
Hagunan enas frókinan,
unlíkato hertõ
Hellan enas blauþan,
þato líto bibeþsik
þar þat an beuðé ligiþ,
bibaðesik swágin meku
þan þat in breusté lah.”

 

Hér er svo sama atriði upp með upphaflegum texta kviðunnar, á norrænu, og getum við Íslendingar þá vonandi skilið töluvert meira:

Vídjó

Frágu fræknan
ef fjör vildi
Gotna þjóðann
gulli kaupa.

 

“Hjarta skal mér Högna
í hendi liggja
blóðugt, úr brjóti
skorið baldriða.”

 

“Hér hefi eg hjarta
Hjalla ins blauða
ólíkt hjarta
Högna ins frækna
er mjök bifast
er á bjóði liggur
bifðist hálfu meir
er í brjósti lá.”

 

“Hér hefi eg hjarta
Högna ins frækna
ólíkt hjarta
Hjalla ins blauða
er lítt bifask
er á bjóði liggur.
Bifðist svogi mjög
þá er í brjósti lá.”

 

(Texti Atlakviðu er sóttur á heimasíðu Flensborgarskóla, og þar er einnig að finna skýringar á orðum og efni kvæðisins.)

 

Konungs skuggsjá var skrifuð í Noregi á árunum 1250-1260. Hún er einskonar fræðslurit með ýmsum ráðleggingum til kaupmanna, hirðmanna og konunga. Verkið er sett fram sem samræður föðurs og sonar, og í þessu myndbandi hér að neðan bregður Arne Torp sér í hlutverk bæði föðurs og sonar:

Vídjó

 

 

Að lokum er hér stórkostlegt myndband þar sem prófessor Torp leikur feðga í Austur-Noregi um miðja 15. öld. Um það leyti áttu miklar breytingar sér stað á tungumáli Norðmanna, og tungumálið sem við nú þekkjum sem nútímanorsku varð til smátt og smátt.

Vídjó

 

Heimasíða prófessor Torps við Oslóháskóla er hér.