Schäfer-hundarnir þýsku eru fagrar og skynsamar skepnur. Hver man ekki eftir hinum úrræðagóða lögregluhundi Rex? Adolf Hitler var einn þeirra sem elskaði tegundina.

 

Hundur Hitlers var tík af Schäfer-tegund og hét Blondi. Það var aðstoðarmaður Hitlers, tryggðatröllið Martin Bormann, sem gaf Foringjanum hundinn árið 1941 og Hitler, sem ekki var kunnur fyrir hlýju eða áberandi góðvild í garð fólks, tók strax miklu ástfóstri við dýrið.

 

Að Blondi hafi verið gjöf frá Bormann er að minnsta það sem flestir telja. En Joseph Goebbels áróðursmálaráðherra og einn nánasti fylgismaður Hitlers virðist hins vegar hafa álitið að Hitler hafi keypt hundinn.

 

Hann skrifaði í dagbók sína í maí 1942:

 

“[Hitler] hefur keypt sér ungan þýskan fjárhund sem heitir “Blondi” og er augasteinninn hans. Það var fagurt að heyra hann lýsa því hvað hann naut þess mikið að fara í göngutúr með hundinn, því aðeins þannig gat hann verið viss um að [förunautur hans] færi ekki að tala um stríðsreksturinn.

 

Maður tekur eftir því oftar og oftar að Foringinn er hægt en örugglega að verða einmana. Það er mjög hjartnæmt að sjá hann leika við fjárhundshvolpinn sinn. Hann er orðinn svo vanur dýrinu að það víkur varla frá hlið hans. Það er mjög gaman að fylgjast með Foringjanum með hundinum sínum.

 

Í augnablikinu er dýrið eina lifandi veran sem er alltaf með honum. Á nóttunni sefur það við rúmgafl hans og fær að koma inn í svefnklefa hans í sérlestinni og nýtur alls konar forréttinda … sem engum manni myndu hlotnast. Hann keypti hundinn frá lágt settum embættismanni á pósthúsinu í Ingolstadt.”

 

Að því er virðist hefur Goebbels hér ruglað Blondi saman við aðra tík sem Hitler útvegaði sér (hjá embættismanninum í Ingolstadt) og átti að vera Blondi til skemmtunar. Sú hét Bella en ekki fylgir sögunni hvað varð síðan um hana.

 

Vídjó

 

Þegar Hitler flutti endanlega niður í neðanjarðarbyrgið í Berlín í janúar 1945 til að stýra þaðan vörn höfuðborgarinnar gegn þungri sókn Rússa var Blondi að sjálfsögðu með í för. Í byrjun apríl eignaðist Blondi fjóra eða fimm hvolpa með Schäfer-hundi sem Gerdy Troost ekkja arkitektsins Paul Troost átti.

 

Hitler var stórhrifinn og sinnti sérstaklega einum hvolpanna sem hann skírði Wolf eða Úlf. Þá var Þriðja ríkið að hrynja í kringum hann, en hann hófst þó handa um að byrja að þjálfa Wolf. Ákveðið var að Gretl, systir Evu Braun, heitkonu Hitlers, fengi einn hvolpanna, og Eva sendi systur sinni mynd af Blondi með þrjá þeirra.

 

Annars var Eva Braun alls ekki hrifin af Blondi, og líklega hefur hún öfundað dýrið af því í hve miklum metum það var hjá Hitler. Að minnsta kosti eru til heimildir um að Eva hafi átt það til að sparka duglega í hundinn þegar Blondi var að snudda undir borðum í neðanjarðarbyrginu.

 

Hitler teiknaði þessar fögru hundamyndir.

 

Ekki kæmi á óvart þó það væri satt, þar sem Eva Braun átti lengi í töluverðum erfiðleikum með að fá Hitler til að taka ástarsamband þeirra nógu hátíðlega – enda virðist hann alls ekki hafa haft hæfileika til að sýna manneskjum blíðu, og hvað þá ást.

 

En hunda kunni hann að meta. Blondi var nefnilega ekki fyrsti hundurinn sem Hitler átti. Árið 1921 gaf einhver Hitler schäferhund að nafni Prinz. Hitler bjó þá til kröpp kjör og taldi sig ekki geta haldið hundinn. Hann kom því hundinum í fóstur einhvers staðar, en Prinz lagði á flótta úr fóstrinu og leitaði Hitler uppi.

 

Þá hreifst hinn verðandi Foringi af tryggð hundsins. Ekki er ljóst hvað af Prinz varð en Hitler átti síðar annan þýskan fjárhund að nafni Muckl og í kringum 1930 átti hann tvær schäfertíkur, fyrst móður og síðan dóttur, og hétu báðar Blonda.

 

Á sumum ljósmyndum sem sagðar eru af Hitler og Blondi mun víst í raun vera um aðra af þessum Blondum að ræða!

 

Hitler leikur við Blondi.

 

Þann 29. apríl voru Sovétmenn komnir inn fyrir borgarmörk Berlínar og ljóst var að það var bara dagaspursmál hvenær borgin félli endanlega. Þann dag frétti Hitler af því að Benito Mussolini einræðisherra fasista á Ítalíu hefði verið gómaður af andspyrnumönnum þar í landi og tekinn af lífi. Lík hans og ástkonu hans voru síðan hengd upp og höfð að háði og spotti.

 

Hitler tók þessar fregnir mjög nærri sér, enda óttaðist hann sömu örlög. Hann hafði látið útvega sér og öllu sína fylgdarliði bráðdrepandi blásýrupillur til að falla ekki lifandi í hendur Sovétmanna, og nú greip hann ótti um að pillurnar væru kannski ekki nógu sterkar.

 

Hann skipaði þá svo fyrir að Blondi skyldi gefin ein slík pilla til að vita hvað gerðist. Og Blondi drapst á skammri stundu.

 

Hitler var óhuggandi, sem og allir í neðanjarðarbyrginu. En sjálfur framdi hann sjálfsmorð daginn eftir ásamt Evu Braun.

 

Hvolpar Blondi, þar á meðal hinn heittelskaði Wolf, voru drepnir af þjónum Hitlers, og var það síðasta verkið sem þeir unnu fyrir Foringjann.

 

Hitler og hundur á góðri stundu.