Vídjó

Tíunda sinfónía Sjostakóvitsj var frumflutt í Pétursborg (þá Leníngrad) í desember 1953, skömmu eftir andlát Stalíns. Í verkinu dregur tónskáldið upp mynd af lífinu í Ráðstjórnarríkjunum á tímum harðstjórans fræga. Í skjölum Sjostakóvitsj kemur fram að annar hluti sinfóníunnar sé eins konar „hljóðræn andlitsmynd af Stalín“, enda er verkið hlaðið tilheyrandi drunga og spennu. Hér heyrum við það í flutningi Fílharmóníusveitar Berlínar undir stjórn Herberts von Karajan.

 

Sjostakóvitsj átti ekki sjö dagana sæla í Sovétríkjunum. Hann féll úr náðinni hjá yfirvöldum árið 1936 eftir að Stalín mætti á sýningu á óperunni Lafði Macbeth og þóknaðist ekki verkið. Tónsmíðar Sjostakóvitsj fengu skömmu síðar útreið í dagblaðinu Pravda þar sem þær voru sagðar ruddalegar, frumstæðar, smáborgaralegar og gjörsamlega úr takti við fagurfræðilegar áherslur sovét-sósíalismans.

 

Sjostakóvitsj komst aftur upp á kant við yfirvöld árið 1948 vegna „úrkynjaðra vestrænna áhrifa“ í tónverkum sínum. Hann var í kjölfarið rekinn úr starfi sínu í Moskvu og verk hans bönnuð. Hann hlaut ekki uppreist æru fyrr en eftir andlát Stalíns, og náði að lokum einhvers konar sátt við sovétkerfið með því að ganga í kommúnistaflokksinn árið 1960.

 

Tíunda sinfónía Sjostakóvitsj var flutt í heild sinni í Hörpunni í gær, 10. október 2013. Þar var á ferðinni Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Gennadíj Rozhdestvenskíj, en hann var 22 ára gamall þegar Stalín lést. Upptöku af tónleikunum má heyra á vef Ríkisútvarpsins.

 

Stalin

Stalín við skrifborð sitt, ef til vill að skrifa undir enn eina handtökuskipunina eða dauðadóminn.